
Við þurfum nýja sögu

Við þurfum aðra og nýja sögu um okkur sjálf
Við erum á milli tveggja sagna. Sú fyrri er sagan um hvernig mannlifið gekk öldum saman. Misjafnlega, vissulega, en það gekk áfram og mannlífið þróaðist, það urðu framfarir á langflestum sviðum, þó okkur sé kannski ekki eins vel við þær allar. En svo lauk þessari sögu, því að hún getur ekki haldið áfram. Mannkynið þarf að fara í nýja átt, breyta um stefnu, finna annan hugsunarhátt, ef allar sögur af mannfólki eiga ekki að enda, ganga til þurrðar. Þetta fjallar ekki bara um umgengni okkar við jörðina, mengun og notkun auðlynda, þetta fjallar einnig og ekki síður um nýja mynd af alheiminum, sem vaxið hefur fram á undanförnum áratugum og er ekki samræmanleg gömlu sögunum, hversu vænt sem okkur kann að þykja um þær. Þetta fjallar um það hvort við ætlum að halda áfram að þroskast og þróast, því eina leiðin til að gera það er í samræmi við þá breyttu heimsmynd, sem hefur verið að formast með nýrri vitneskju síðustu áratuga.
En við erum ekki enn búin að semja nýju söguna sem þarf að taka við, hún er í mótun, á hugmyndastiginu getum við sagt. Margir eru að hugsa um hvernig hún eigi að hljóma. Hvernig mannkynið geti haldið áfram með nýjum hætti, með nýja sýn á tilveru sína og haldið áfram þroskaferli sínu, nú á breyttum forsendum. Við erum á milli sagnanna tveggja um mannkynið, líf þess á jörðinni og í heiminum.
#newnarrative