
Verum vakandi

Ég fór að hlusta á bandaríska sagnfræðinginn Timothy Snyder í síðustu viku. Hann var leiftrandi snjall. GuðniTh opnaði fyrirlesturinn með mjög skemmtilegu ávarpi og þá sagðist Kaninn vera miður sín yfir því að hann væri kominn til að flytja fyrirlestur en ekki annast skipti-forseta-prógram milli heimaríkis síns og Íslands. Ég er sammála honum um að við séum heppin með forseta.
Í grein sinni í Fréttablaðinu í dag hefur Guðmundur Andri Thorsson tekið saman heilræði Snyders sem fram koma í nýjasta riti hans sem er skrifað í þeim tilgangi að fræða Bandaríkjamenn um hvernig fasismi komst á í Evrópu með forvarnargildi í huga.
Hér eru lexíurnar með orðalagi Guðmunds Andra en ég númeraði þær (því númeraðir listar eru svo næs). Þetta eru góð heilræði og gilda hérlendis eins og annars staðar. Verum vakandi:
1. Að hlýða ekki valdboði í blindni.
2. Standa vörð um stofnanir samfélagsins.
3. Varast einsflokksræði.
4. Ekki venjast táknum á borð við hakakrossa í umhverfi sínu.
5. Halda í heiðri siðareglur stétta sinna (hvað lögfræðingar athugi).
6. Ekki umbera vopnaburð hópa.
7. Vera varkár þurfi maður að bera vopn vegna vinnu sinnar.
8. Sýna gott fordæmi.
9. Virða eigin þjóðtungu, lesa bækur, ekki hanga of mikið á netinu.
10. Trúa því sem satt er.
11. Leggjast í rannsóknir.
12. Horfa í augun á fólki og spjalla um daginn og veginn.
13. Vera til svæðis, fara á fundi og mannfagnaði, hitta fólk.
14. Eiga einkalíf.
15. Gefa til góðra málefna.
16. Ferðast til annarra landa.
17. Hlusta eftir hættulegum orðum eins og terroristi og ekki þola misbrúkun á orðum sem tjá ættjarðarást.
18. Halda ró sinni þegar hið óhugsandi gerist.
19. Vera ættjarðarvinur.
20. Vera eins hugrakkur og kostur er.