
Um sóknarfæri í tannlækningum og fleira

Ég er almennt mjög heppin kona. En heppni mín er ekki bara almenn (heilsa, fjölskylda, vinir, frelsi osfrv.) heldur er hún einnig sértæk á tíðum. Eitt dæmi um sértæka heppni mína er að ég er með yfirmáta skemmtilegan tannlækni.
Svo vel náum við saman að ég er farin að hlakka til dögum áður en ég á tíma. Ég átti til dæmis tíma í dag í einhvers konar reglulegt tékk en það vandræðalega var að það var ég sem hringdi og spurði hvort það væri ekki kominn tími til að þau hringdu til að bjóða mér í reglulega tékkið!
Allavega ég vakna spennt fyrir þessum tíma og skelli mér í strætó upp í Vegmúla (þið fáið ekki meiri upplýsingar annars um tannlækninn minn því ég vil ekki að þið stelið honum af mér).
Ég elska að tala við ókunnuga og er auk þess mjög svag fyrir túristum svo ég sest í eitt af þessum fjórum sætum sem snúa að hvort öðru og vona að einhver setjist hjá mér og viti menn eftir nokkrar stöðvar koma stelpa, mamma og amma frá Nýja sjálandi og umkringja mig. #bænheyrð. Þær voru imponeraðar yfir því að ég hefði ferðast til heimalands þeirra og svo náðum við góðri atrennu í að baktala Ástralíu (beisikk). Ég spyr þær fyrir rælni hvert þær séu að fara þar sem við geysumst fram hjá Fíladelfíu-söfnuðnum í átt að Laugardalnum. Amman svarar að þær séu að fara í “Haaba”. Ég spyr hvort þær eigi við tónlistarhúsið Hörpu og er örlítið uggandi yfir stefnu strætisvagnsins í því samhengi. Nei, þær eru að fara í “HAAABA”. Ég upplifi í örskotsstund afbrýðisemi yfir að túristarnir séu búnir að finna einhvern æðislegan stað sem heitir Haba og ég viti ekki einu sinni af, en síðan opnast fyrir tengsl milli hægra og vinstra heilahvels hjá mér (var smá þunn) og ég fatta að þær eru að segja Harbour. Þetta þýðir að þessar settlegu, góðlegu og glaðlegu nýsjálensku konur eru á leiðinni í einhvers konar fjölskyldureisu niður á Sundahöfn. Ég tryllist af áhuga yfir þróun mála og spyr æst hvað þær ætli að gera niðrá höfn. Þær segjast ætla að labba um, borða mat og drekka gott kaffi. Með hyldjúpri virðingu fyrir kaffiteríunni í Húsasmiðjunni og KFC á Olísstöðinni þá renna á mig tvær grímur yfir þessari fyrirætlan og aftur á ég stórkostlegt innfall (mér finnst að við eigum að nota þetta dásamlega orð “innfall” meira. Ég man að fyrst þegar ég heyrði það sagði mamma mér að hún hefði fengið innfall og ég spurði hana hvort það væri alvarlegt. En í dag veit ég að þetta er ekki sjúkdómur heldur svona Eureka móment… (verð að muna að gúgla hvers vegna Eureka heitir Eureka)).
En alla vega ég átta mig á því að þær ætla að fara í Sjóhó (Grandasvæðið) en eru á leiðinni í gráa gámahelvítið sem Sundahöfn er. Ég upplýsi þær um stöðu mála og þær fara flissandi út á næstu stöð.
En ég er nú ekki komin alla leið hingað á alnetið til að tala um þessar dúllur. Ónei, ég er að tala um tannlækninn minn.
Ég er nefnilega með mjög góðar tennur fyrir utan eitt vandamál sem eru þrálátar tannholdsbólgur (takk fyrir upplýsingarnar Kata) sem tannlæknirinn vill meina að orsakist af skorti mínum á þori/getu og vilja til að nota einhvers konar millitannabursta (örsmáir klósettburstar sem beyglast við minnstu snertingu) sem engin eðlilega manneskja gæti munað eftir að nota. Um þetta höfum við lengi deilt. Í dag kom svo í ljós að það hefur átt sér einkennileg hægrisveifla í samfélagi þessara helvísku baktería sem valda þessum bólgum því þær voru allar komnar í hægri jaxla en vinstri hliðin var klín.
Ég ákvað að í þessari heimsókn ætlaði ég að taka “erfiða sakborninginn” á tannlækninn minn í staðinn fyrir að vera bljúg og góð eins og vanalega. Ég fullyrti fyrir skoðun að það hefðu átt sér stað miklar framfarir frá því síðast (til að skapa mér leverage). Hann maldaði í móinn um að ég gæti nokkuð fullyrt um það fyrr en hann hefði skoðað mig en svo þegar hann kvað upp þennan hægri-úrskurð brá ég á það ráð að hafna niðurstöðunni alfarið. Bakteríur hafa ekki (svo ég viti) skipulagsgáfu til að velja sér ákveðin póstnúmer í munninum. Við diskúterum þetta og mér fannst ganga vel að hafa svona harðlínuafstöðu svo ég hafnaði því líka þegar hann sagði að ég hefði greinilega ekki verið nógu dugleg að bursta því ég væri komin með tannstein. Þá sagði ég bara með munninn fullan af einhverjum tækjum sem voru að skrapa téðan tannstein burt með tilheyrandi satanískum hljóðum: “þetta er bara röng greining og við vitum það bæði!” Þetta fannst honum soldið sniðugt og ég fann að ég var búin að finna réttu leiðina að honum svo ég sætti færis og ítrekaði kröfu sem ég hef margoft borið upp við hann. Krafan er sú eðlilegast hljóti að vera að hann (sem býr í skerjafirði) komi bara við heima hjá mér á leið í og úr vinnu og bursti í mér tennurnar sjálfur. Hann hefur aldrei séð fegurðina í þessum tillögum en nú þegar ég var orðin svona hörð í minni afstöðu sem sjúklingur sagði hann ekki afdráttarlaust nei eins og vanalega heldur stakk upp á að hann myndi frekar framkvæma óboðað eftirlit. Þar sem hann myndi mæta á ólíklegustu tímum, brjóta sér leið inn á heimili mitt og innsigla tannburstann svo ég myndi ekki ná að bursta til málamynda áður en rannsókn hæfist.
Þessa hugmynd um nýsköpun á sviði tannlæknaþjónustu set ég hér með út í kosmósið í von um að einhver raungeri hana. Það má kannski líta á þetta sem jólagjöf mína til hins kúgaða minnihluta sem tannlæknastéttin óneitanlega er.