
Um nýja stjórnarskrá, Eileen og samhengi hlutanna

Á myndinni sést Eileen Jerrett bandarísk vinkona mín. Ef vel er að gáð sést barnslegur gleðiglampi í augum hennar því hún er á Þjóðskjalasafninu og hefur fundið gögn frá Þjóðfundinum um nýja stjórnarskrá sem haldinn var árið 2010.
Á meðan íslenskir fjölmiðlar sváfu gerði Eileen heimildarmynd um gerð nýrrar stjórnarskrár á Íslandi. Myndin heitir Blueberry Soup og hægt er að nálgast hana á Netinu. RÚV hefur neitað að sýna hana hingað til, nema að því er virðist að hún sæti ritskoðun sem felur meðal annars í sér að núverandi fjármálaráðherra sé klipptur út úr henni, enda viðraði hann sterkar og hugrakkar skoðanir í myndinni. (Hann hefur eflaust alls ekki gert neina kröfu um að vera klipptur út enda veit hann væntanlega ekki einu sinni af þessu samtali við RÚV en þetta var amk tillagan þeirra: laga hljóðið (myndin hefur verið sýnd út um allan heim) og klippa aðeins út sumt). Það er auðvitað fráleitt. Þetta er hins vegar hluti af samhenginu sem ég er að reyna að sýna ykkur með þessari færslu. Samhengi þöggunar sem verður aðeins rofið með samstöðu og hugrekki.
En aftur að Eileen Jerrett. Þessi hófstillta rólega blaðakona kom sem sagt til Íslands á sínum tíma með það fyrir augum að gera heimildarmynd um íslenska tónlist sem hún þekkir mun betur en ég og elskar heitt. Hún komst á snoðir um að verið væri að skrifa hér nýja stjórnarskrá árið 2011 með aðkomu borgaranna og gat ekki á sér setið að snuðra það ferli uppi. Hún læddist um eins og mús þessa mánuði sem Stjórnlagaráð var að störfum en náði fullt af viðtölum með sinni róllyndislegu orku. Myndin Blueberry Soup leit svo dagsins ljós eftir að hafa verið fjármögnuð m.a. með smáframlögum. Og nú hefur myndin ferðast um allan heim. Hún var sýnd í lagadeild Berkeley háskóla og þaðan tók hún flugið: Harvard, Yale, Stanford og síðan háskólar um alla Evrópu eru meðal þeirra sem sýna myndina enda er um frásögn af einstakri lýðræðistilraun að ræða (sjálf er ég að fara að flytja fyrirlestur um stjórnarskrárferlið í Harvard núna í nóvember enda fer áhugi erlendra fræðimanna aðeins vaxandi). En alla vega, við erum að tala um Eileen. Hún er grænmetisæta með slíkt blæti fyrir góðu kaffi að annað eins hef ég varla þekkt. Hún á enga skó sem eru ekki bæði opnir og með hælum og þegar ég hef vafrað með henni um borgir heimsins síðustu ár að kynna þetta merkilega ferli þarf ég yfirleitt að halda í hana með a.m.k. einni hönd svo hún hrasi ekki yfir eitthvert stráið sem á vegi okkar verður. Í gær bröltum við niður í fjöru í Nauthólsvíkinni og ég hálfpartinn bar hana yfir steinana og benti (enn og aftur) á fáránlegan skóbúnað hennar og hún hló og sagðist ekki hafa neitt jafnvægisskin sem væri fyndið því nafnið hennar gæti útlagst sem sú sem hallar (I lean). En þetta er útúrdúr. Eileen er æðisleg. Hún kemur til Íslands eins oft og hún getur til að reyna að hjálpa okkur sem trúum því að landið þurfi nýju stjórnarskrána. Reyndar ekki bara landið okkar, heldur þarf heimurinn allur á von að halda hvað varðar framþórun og dýpkun lýðræðisins.
Ástæðan fyrir því að Eileen er svona glöð á myndinni hér fyrir ofan er að nú er hún búin að koma á samstarfsverkefni á milli University of Washington, M.I.T. og Háskóla Íslands (sennilegast verður Yale líka með) um að safna saman öllum gögnum um þetta ferli sem verða svo geymd í Washingtonskólanum. Já krakkar mínir, þetta er svona merkilegt. Þetta brölt okkar í átt að lýðræðisumbætum eftir hrun er algerlega einstakt. Það að fremstu háskólar heims skuli vilja eyða tíma og fjármunum í að varðveita gögnin sem nú smá eyðast í okkar umsjá er bara lítið dæmi um það hvernig við erum að hunsa þann hluta sögu okkar sem geymir merkilegustu og framsæknustu lagasetningu sem við höfum nokkurn tímann skapað. Alls staðar sem ég hef farið til að tala um þetta ferli hefur fólk orðið innblásið og nánast tryllt af einhverri von sem skortir svo áþreifanlega í okkar pólaríseraða heimi. Von um samvinnu, von um valddreifingu, von um gegnsæi og von um breytingar. Ég fer til Lissabon á ráðstefnu Evrópusambandsins um framtíð lýðræðis í sama tilgangi í lok næsta mánaðar og þaðan beint til Skotlands hvar draumur blundar um sjálfstætt ríki og nýja stjórnarskrá. Þegar hafa mörg ríki byggt á íslensku aðferðinni við gerð nýrra samfélagssáttmála. Við verðum, verðum, að vakna og koma þessu máli í höfn.
Okkur ber nefnilega skylda til að láta þessa von rætast. Ekki fyrir mig, ekki fyrir Eileen, ekki heldur vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir hamraði á stjórnlagaþingi árum saman og kom þessu loksins í verk þegar hún hafði völd til, þótt ótal önnur risavaxin verkefni bönkuðu á dyr ríkisstjórnar hennar. Ekki út af því að GuðniTh forseti segir að þetta sé verk sem við verðum sem þjóð að vinna. Nei, okkur ber skylda til að klára þetta verk fyrir okkur sem samfélag og fyrir heiminn sem þarf svo grátlega á því að halda að sýnt sé fram á það að hlutirnir geti breyst og að stjórnvöld geti treyst borgurum sínum fyrir þátttöku í mótun framtíðarstefnu því þannig myndast aftur traust borgaranna á stjórnmálafólk. Traust elur af sér traust en vantraust fóðrar vantraust. Við þurfum líka að gera þetta fyrir næstu kynslóðir sem erfa jörð sem er við það að brenna yfir og verður ekki bjargað nema með aðkomu sem allra flesta. Þetta er, í samhengi hlutanna, risavaxið mál.
Þess vegna verðum við að muna.
Munum að þúsund Íslendingar valdir af handahófi komu saman í heilan dag og ákváðu á hvaða gildum skyldi byggja nýja stjórnarskrá. Munum að nefnd sérfræðinga setti saman ítarlega skýrslu um bestu leiðir sem færar væru í gerð nýrrar stjórnarskrá fyrir Ísland. Munum að almenningi var boðið að taka þátt í að skrifa nýju stjórnarskrána meðal annars í gegnum Facebook. Munum að allir 25 fulltrúar Stjórnlagaráðs samþykktu nýju stjórnarskránna. Við sem þar sátum vorum mjög ólík og með gríðarlega ólíka lífssýn á ýmis mál en við gátum unnið saman og sammælst um einn fallegan texta sem átti að verða leiðarstef hins nýja Íslands. (Það er nógu erfitt að fá 5 Íslendinga til að ákveða hvað á að vera í kvöldmatinn, hvað þá að fá 25 gjörólíka einstaklinga til að sammælast um heila stjórnarskrá.)
Munum loks að þjóðinni var boðið að kjósa um þennan nýja samfélagssáttmála og sagði “já takk”. Sú niðurstaða er enn einn ljósgeisli þessa ferlis. Brátt eru 5 ár frá þjóðaratkvæðagreiðslunni en Alþingi virðist ókleift að verða við vilja þjóðarinnar í þessu máli. Þó er ljóst að á þingi er meiri hluti fyrir því að koma því í höfn ef marka má frásagnir af fyrri stigum stjórnarmyndunarviðræðna.
Þetta er svo ótrúlega falleg og einstök saga. Saga sem við eigum og vantar enn svo ótrúlega lítið upp á að endi sem ævintýri.
Áfram mun Eileen með sína látlausu orku skrásetja sögu okkar eftir fremsta megni. Áfram munum við í Stjórnarskrárfélaginu gera allt sem við getum til að aðstoða þingmenn að koma málinu í gegn. Áfram mun tíminn sýna eins og Daði Ingólfsson bendir á á hverjum einasta degi hversu miklu betur borgið okkur væri ef við hefðum stjórnarskrána okkar.
En áfram munum við ekki komast yfir marklínuna nema sem allra felstir Íslendingar geri þessa baráttu að sinni.
Nú er lag, klárum þetta.
ps. Eileen you’re the best. Takk!