Textar um stjórnarskrár

Textar um stjórnarskrár

5 September at 15:27 · 

1. Á hverjum degi er okkur sagt að ekki séu til nægir peningar til að mæta þeim grunnkröfum sem við gerum til sameiginlegra stoða eins og heilbrigðis- og menntakerfa. Ellilífeyrisþegar eru svífirtir á sömu forsemdu. 
2. Á sama degi auðgast útvaldir aðilar stórkostlega á einkarétti til nýtinga á náttúruauðlindum sem ættu að tilheyra þjóðinni.
3. Baráttan um Ísland snýst um að breyta þessu, en það er auðvelt af afvegaleiða bæði þingmenn og kjósendur. Skyndilega erum við öll farin að rífast um rafrettur. Við verðum að staldra við og ná fókus. Eiga gæði landins að renna til fárra eða eigum við að skipta þeim með réttlátum hætti svo þau nýtist samfélaginu, þeim sem höllum fæti standa og komandi kynslóðum sem best?
4. Eigum við að tryggja rétt náttúrunnar eða horfa upp á hana eyðilagða í gullgrafaraæði ferðamennsku og stóriðju?
5. Við þurfum nýju stjórnarskrána því það er eini lagastextinn sem talar um “fullt verð” fyrir afnot af aðlindum Íslands og rétt náttúrunnar og komandi kynslóða.
#nýstjórnarskrá

 

 

19 sept 2017

Stjórnarskrá er leiðinlegt orð. 
Samfélagssáttmáli er það hins vegar ekki. Sáttmáli sem þjóðin setur til að afmarka hvernig þeir einstaklingar sem hún velur hverju sinni megi fara með völdin. Hvaða gildi skuli höfð að leiðarljósi við meðferð ríkisvaldsins og hvernig valdinu skuli dreift. Samfélagssáttmáli kveður í raun á um hvers vegna við viljum vera samfélag og hvernig samfélag við veljum okkur. Á honum byggja öll önnur lög í landinu. 
Það eru um 45 dagar til kosninga.
45 dagar eru varla nægur tími til að leggja fram nýju stjórnarskrána og lögfesta hana fyrir þingrof.
45 dagar eru hins vegar feykinægur tími til þess að breyta því ákvæði stjórnarskrár sem fjallar um hvernig henni skuli breytt. Þannig myndast loksins raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga til að breyta stjórnarskránni í okkar. Núverandi fyrirkomulag er ólýðræðislegt að því leyti að fólk er ekki spurt beint um afstöðu til stjórnarskrárbreytinga eins og svo auðveldlega er hægt að gera heldur er það þing – þingrof og svo næsta þing sem fara með þetta vald. Kosningarbaráttur snúast hins vegar um svo fjölmargt annað en vilja fólks til stjórnarskrárbreytinga. Núverandi aðferð til breytinga er því óskýr og óheppileg. 
45 dagar eru aðeins lítill dropi í hafsjó tímans sem liðinn er frá lýðveldisstofnun en í öll þau 73 ár hefur Íslendingum mistekist að fá okkar eigin stjórnarskrá. 
Á næstu 45 dögum verða þeir þingmenn sem hafa verið valdir af kjósendum að horfa í spegil og spyrja sig: “Treysti ég fólkinu fyrir sjálfu sér eða ber mér að hafa vit fyrir því”. Persónulega finnst mér að ef þingmenn komist að seinni niðurstöðunni sé heiðarlegast að segja það upphátt. Það þarf hugrekki til að standa með fólkinu í þessum slag.
Ég leyfi mér að hafa trú á því að neðangreindir einstaklingar geti staðið í lappirnar og nýtt þetta sögulega tækifæri til að ná alvöru umbætum á stjórnarskránni okkar. Ég trúi því nefnilega að þau skilji mikilvægi þessa máls og séu nægilega hugrökk. 
Gangi ykkur vel næstu daga: Katrín JakobsdóttirBirgitta JónsdóttirLogi EinarssonÓttarr ProppéÞorgerður Katrín GunnarsdóttirLilja D. Alfredsdottir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir.
#nýstjórnarskrá

 

 

20 sept 2017

Kæru þingmenn. 

Skora á ykkur leggja fram frumvarp að nýju stjórnarskránni áður en þing er rofið. Þá væri hægt að samþykkja hana á næsta þingi eftir kosningar (sé meiri hluti fyrir því) og þá væri hún loksins lögfest með tilheyrandi umbætum fyrir landið okkar sem þolir ekki meira af þessu spillingarrugli.

Nú er lag Birgitta JonsdottirLogi EinarssonÓttarr Proppé og Katrín Jakobsdóttir að standa við ykkar sameiginlegu skuldbindingu um að gera þetta mál að forgangsatriði eftir kosningar. 

Við höfum sjaldan verið nær takmarkinu. 🙂

#NýStjórnarskrá

 

28 sept 2017

Katrín Oddsdóttir is feeling excited.

UPPFÆRT

Nokkrar tilfinningar og staðreyndir í kjölfar skoðunarkönnunar um nýju stjórnarskrána:

1. Sorglegt! 
– Yfir 70% þeirra sem tóku afstöðu telja mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Ef hins vegar tekið er mið af þeim fimmtungi sem tók ekki afstöðu þykja 56% mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili sem er tvöfalt fleiri en þykir málið lítilvægt (23,5%). Staðreyndin er hins vegar sú að við getum ekki fengið nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili þar sem flokkarnir gátu ekki sammælst um breytingu fyrir þingrof sem hleypir þjóðinni að borðinu og því verður að gera þetta með þeim hætti að þing samþykki stjórnarskrárbreytingar, boðað sé til kosninga og næsta þing samþykki líka breytingarnar. Þannig svarar fólk með afgerandi hætti um mikilvægi einhvers sem er í raun ógerlegt. Það er sorglegt.

2. Stórkostlegt!
– Af þeim sem tóku afstöðu voru 75% kvenna á því að mikilvægt væri að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili en aðeins 15% töldu það lítilvægt (helmingi fleiri karlar eða um 30% töldu það lítilvægt). Það er stórkostlegt að konur hiki ekki við að taka afstöðu og vonandi munu sem flestar þeirra gera þessa baráttu að sinni.

3. Merkilegt!
– Fleiri sem tóku afstöðu á landsbyggðinni (35%) töldu málið lítilvægt en þeir sem tóku afstöðu á höfuðborgarsvæðinu (27%). Alls staðar á landinu voru hins vegar mun fleiri sem töldu mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á þessu kjörtímabili en þeir sem töldu það lítilvægt. Fleiri höfðu tekið afstöðu í Reykjavik en úti á landi. Þetta sýnir að fólk á landsbyggðinni hefur síður tekið afstöðu og upplifir málið frekar lítilvægt fyrir sig en fólk í bænum. Þetta er merkilegt þarf að skoða nánar og skilja hverju sætir.

4. Alvarlegt!
– Hin alvarlega misskipting í okkar samfélagi spilar inn í von fólks til nýrrar stjórnarskrár. Þannig er ljóst að eftir því sem fólk hafði lægri tekjur taldi það mikilvægara að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Fólk er nefnilega ekki fífl og áttar sig almennt á því að núverandi misskipting auðs er að stóru leyti grundvölluð á kerfislægu misrétti sem stjórnmál geta/vilja ekki taka á með róttækum hætti. Þetta er alvarlegt.

5. Magnað!
Það er langmest andstaða gagnvart nýrri stjórnarskrá á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna. Með nýju stjórnarskránni er einmitt verið að skilgreina betur valdmörk þessara einstaklinga, auka gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar og veita almenningi betri aðgang að opinberri ákvörðunartöku. Þessi staðreynd þarf því kannski ekki að koma á óvart en að sjá hana svona svart á hvítu er hins vegar magnað.

Ath. Fyrst þegar ég birti þessa færslu var hún byggð á röngum tölum sem MMR hefur nú leiðrétt.

#NýStjórnarskrá

 

 

About The Author

Safn

Share This