
Stjórnarskrá er leiðinlegt orð

Stjórnarskrá er leiðinlegt orð.
Samfélagssáttmáli er það hins vegar ekki. Sáttmáli sem þjóðin setur til að afmarka hvernig þeir einstaklingar sem hún velur hverju sinni megi fara með völdin. Hvaða gildi skuli höfð að leiðarljósi við meðferð ríkisvaldsins og hvernig valdinu skuli dreift. Samfélagssáttmáli kveður í raun á um hvers vegna við viljum vera samfélag og hvernig samfélag við veljum okkur. Á honum byggja öll önnur lög í landinu.
Það eru um 45 dagar til kosninga.
45 dagar eru varla nægur tími til að leggja fram nýju stjórnarskrána og lögfesta hana fyrir þingrof.
45 dagar eru hins vegar feykinægur tími til þess að breyta því ákvæði stjórnarskrár sem fjallar um hvernig henni skuli breytt. Þannig myndast loksins raunhæfur möguleiki fyrir Íslendinga til að breyta stjórnarskránni í okkar. Núverandi fyrirkomulag er ólýðræðislegt að því leyti að fólk er ekki spurt beint um afstöðu til stjórnarskrárbreytinga eins og svo auðveldlega er hægt að gera heldur er það þing – þingrof og svo næsta þing sem fara með þetta vald. Kosningarbaráttur snúast hins vegar um svo fjölmargt annað en vilja fólks til stjórnarskrárbreytinga. Núverandi aðferð til breytinga er því óskýr og óheppileg.
45 dagar eru aðeins lítill dropi í hafsjó tímans sem liðinn er frá lýðveldisstofnun en í öll þau 73 ár hefur Íslendingum mistekist að fá okkar eigin stjórnarskrá.
Á næstu 45 dögum verða þeir þingmenn sem hafa verið valdir af kjósendum að horfa í spegil og spyrja sig: “Treysti ég fólkinu fyrir sjálfu sér eða ber mér að hafa vit fyrir því”. Persónulega finnst mér að ef þingmenn komist að seinni niðurstöðunni sé heiðarlegast að segja það upphátt. Það þarf hugrekki til að standa með fólkinu í þessum slag.
Ég leyfi mér að hafa trú á því að neðangreindir einstaklingar geti staðið í lappirnar og nýtt þetta sögulega tækifæri til að ná alvöru umbætum á stjórnarskránni okkar. Ég trúi því nefnilega að þau skilji mikilvægi þessa máls og séu nægilega hugrökk.
Gangi ykkur vel næstu daga: Katrín Jakobsdóttir, Birgitta Jónsdóttir, Logi Einarsson, Óttarr Proppé, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Lilja D. Alfredsdottir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir.
#nýstjórnarskrá