Skömm að þyggja huglæga aðstoð

Skömm að þyggja huglæga aðstoð

Flestir eru til í að viðurkenna líkamleg mistök en helst ekki nein huglæg eða tilfinningaleg mistök. Dæmigert er að þegar huglæg mál í sambandi við golf ber á góma þá reyna allir að tala einsog þeir viti allt um það.

Þetta er vegna þess að fólki, ekki síst karlmönnum finnst skammarlegt að þekkja ekki sjálfan og að þurfa að leita aðstoðar fyrir sálartetrið en þeim sömu finnst sjálfsagt að kunna ekki á einhver ytri tól og tækniatriði.

Kannski er þetta skiljanlegt og jafnvel svolítið krúttlegt, en staðreyndin er að fólk sem er vel að sér um alla mögulega ytri praktíska hluti veit iðulega sáralítið um sjálft sig og hvað það er sem stjórnar gerðum þess.

Lengi hefur það semsé verið þannig að sumum fannst óþægilegt að viðurkenna fyrir sjálfum sér og öðrum að huglægir hlutir hafi eitthvað að gera með velgegni þeirra í golfi. Þeim finnst miklu þægilegra er að hugsa sér að það séu einhver tæknileg atriði sem standi manni fyrir þrifum og ef þau séu leiðrétt, þá verði allt í lagi.

Þannig verja menn heilu golflífi trúandi því að það sé alltaf eitthvað “að” golfsveifluni þeirra og þeir fara í gröfina með golfsveifluna brenglaða alveg einsog hún var þegar þeir héldu fyrst út á golfvöll. Sem betur fer eykst almennur skilningur á andlegri og huglægri hlið golfsins jafnt og þétt. Enn eymir þó eftir af því hjá sumum kylfingum að þeim finnst mun auðveldara að kenna sveiflunni um heldur en að viðurkenna fyrir sjálfum sér að það sé eigin hugur sem er að þvælast fyrir góðum golfárangri.  Og þarmeð viðurkenna þeir ekki fyrir sjálfum sér að með því að æfa hugann í stað þess að hugsa sífellt um axlasnúning, vinstra hné, hægri hæl eða stöðugan vinkil hryggsúlunnar og úlliðarins, þá yrði golfið bæði betra, en síðast en ekki síst skemmtilegra.

Þetta hefur sjálfsagt með þá hugmynd að gera að líkaminn sé utanáliggjandi, en hugurinn sé maður sjálfur og það er jú ekkert að mér sjálfum – allavega vil ég ekki viðurkenna það. Þægilegast af öllu er auðvitað að kenna græjunum um og að vera þess fullviss að ”fái ég mér bara þennan nýja fína pútter”, þá leysast mín vandamál og lækka forgjöfina”.

About The Author

Director film, tv, theatre active in Sweden and Iceland Consultant, facilitator

Safn

Share This