
Öfgar – hvað er nú það?

Hvað eru öfgar?
Varðandi orðið öfgar, þá hlýtur merking þess að vera afstæð. Öfgar hljóta að miðast við eitthvað sem talið er hæfilegt eða viðeigandi. Því er stundum erfitt að komast að sameignlegri niðurstöðu um hvað séu öfgar eða hvað sé hæfilegt. Til dæmis hugsa ég að við Ósama sálugi Bin Laden hefðum ekki verið sammála um hvað öfgamúslími væri.
Hér er orðabókarskýring á ensku:
a) going beyond what is regarded as customary or proper
b) more than or above what is necessary, usual, or specified
Það er margt sem fólki leiðist. Það sem einum leiðist þarf ekki að vera í eðli sínu leiðinlegra en það sem öðrum leiðist. Eins er það með öfgarnar.
Það eru til orðhákar sem styðja allkonar sjónarmið. Það á ekki frekar við um þau sjónarmið sem mér og þér kunna að þykja vafasöm. Það úir og grúir allt af orðhákum og öfgafólki sem eru málsvarar og baráttumenn fyrir alls kyns mannúð og mannelsku – næstum jafn margir og þeir sem taka djúpt í árinni til stuðnings fasisma og misrétti meðal fólks. Allt þetta fólk sem svífst einskis í baráttunni fyrir sinn málstað, trúir því frá hjarans innstu rótum að málstaður þeirra sé fagur og sannur og réttlátur. Það hefur alltaf verið varhugavert þegar fólk telur sig hafa svo góðan málstað að um það gildi önnur viðmið, annað siðferði fyrir það en aðra, telur sinn góða málstað réttlæta óblíð og illskeytt meðöl. Mannkynssagan er full af dæmum um hræðilega verknaði sem hafa verið framdir í nafni góðs málstaðar, málstaðar sem viðkomandi taldi þann mikilvægasta, réttasta og heilagasta. En tilgangurinn helgar ekki meðölin og má aldrei verða. Maður hefur sömu skyldu, sem manneskja, til að koma fram við fólk af þokkalegri mannúð, alveg sama hvað góðar og réttsýnar skoðanir maður hefur.
Það auðvelt að fyllast vandlætingu þegar rasistar eða hryðjuverkamenn hella hatri sínu yfir annað fólk sem þeir líta á sem andstæðinga. Málið vandast fyrir okkur öll þegar við stöndum fólk sem við erum í grunninn hjartanlega sammála ganga fram með svipuðum hætti gagnvart annað fólk, sem ekki fylgir þeim 100% að málum. Til dæmis þá harma ég þann ofsa sem fólk með góðan málstað einsog femínistar sýna meintum andstæðingum sínum oft á tíðum. Annað dæmi um ljótt framferði fólks með skoðanir sem ég skrifa algerlega undir horfði ég uppá fyrir fáeinum árum. Þá voru deilur um hvort samkynhneigt fólk ætti að fá að ganga í hjónaband. Innan og utan kirkju var fólk, sem fannst að samkynhneigðir ættu að hafa öll þau sömu réttindi og annað fólk sem vill lögfesta sambúð sína, nema að hjónabandið ætti að vera skilgreint sem samband manns og konu. Mér fannst sjálfsagt að fólkið fengi að hafa þessa skoðun (undarlegt að þurfa að segja þetta), þó að ég væri ósammála henni. Það fannst aftur ekki mörgum af þeim sem höfðu andstæða skoðun í þessari efni. Sumir þeirra réðust að og frömdu á þeim mannorðsmorð á því fólki sem hafði þessa skoðun og sú aftaka var framin í opinberum fjölmiðli. Kannski býður viðkomandi fólk, sem er og hefur alltaf verið víðsýnt aldrei sitt barr eftir þessa nýðingslegu árás.
Náttúverndarsinnar, femínistar og þeir sem bera hag flóttafólks og innflytjenda fyrir brjósti eru ekki heilagari en annað fólk. Þó persónulega finnist mér skoðanir þeirra vera það. Langflest eru þau auðvitað bara ágætis fólk.
Það virðist nú um stundir vera leyfilegt það sem ég kalla jafnréttis- frjálslyndis- og frelsisfasisma, sem gengur útá eftirfarandi viðhorf: ef þú ert ekki jafn jafnréttissinnaður og friðelskandi og kærleikstíkur og ég þá skal ég taka þig af lífi – allavega svipta þig mannorðinu. Þetta hef ég marsinnis horft uppá bæði hér og í Svíþjóð þar sem ég bjó lengi. Þetta hefur gjarnan verið kallað pólitískur réttrúnaður.
Mér finnst sjálfsögð og eðlileg krafa að við (fólk almennt) virðum rétt hvors annars til að hafa þær skoðanir, sem okkur þóknast að hafa. Og rökræðum frekar um málið en að fordæma einstaklinga sem eru okkur ósammála og köllum þá öllum illum nöfnum. Þetta á við feminista og þá sem gagnrýna skoðanir feminista eða eru jafnvel andsnúnir þeim (sem ég hygg að núorðið sé ekki sérlega margir. Gullna reglan á við þarna eins annarsstaðar.
—
Það er eitthvað sem við ættum að forðast að líta á það sem mannvonsku eða örgustu heimsku ef einhver er ósammála skoðunum manns.
Ég er gamall einsog af grönum má sjá og er orðinn vanur því að fólk sé kallað nöfnum. Ég mæli því ekki bót, en áratugum saman voru allir vinstrimenn kallaðir kommúnistar í Morgunblaðinu. Líka fólk sem fyrirleit kommúnismann. Þetta sér maður enn dreggjarnar af á Facebook. Og nú kallar fólk, sem kennir sig við femínista, menn karlrembusvín og klámhunda villivekk án tillits hvort þeir sjálfir séu yfirlýstir jafnréttissinnar. Annað dæmi: Í hverri viku er mönnum rúllað uppúr tjörunni á netinu, ef þeir hafa unnið í bönkum eða stundað viðskipti. Og þeir kallaðir öllum illum nöfnum. Ég er sannfærður um að sumir eiga það ekki skilið.
Það er ekki “öfga-” að vera ósammála, heldur vilja meiða og skaða eða niðurlægja aðra af einhverjum ástæðum, einsog til dæmis þeirri að þeir hafa aðra skoðun en maður sjálfur.
Reyndar: Ég vil meina að ef maður gefur sig út í heitar umræður um samfélagsmál, eða lætur rækilega til sín taka þá má búast við að einhver segi eitthvað frekar ópent um mann og við mann. Engir eru hafnir yfir þetta. En Sænskurinn segir “Den som är med i leken får leken tåla.”
– – – – 000 – – – –
Meira um öfga
Fordæming nærir öfgar
Við skulum tala um að anda með nefinu, sýna þolinmæði og stillingu í pólitíkinni. Hvernig væri að við reyndum að sjá í gegnum fingur við þá sem breyta (að okkar mati) ranglega, með einum eða öðrum hætti. Ekki að við samþykkjum orð þeirra eða gerðir, en að við létum vera að rjúka upp með óbótarskömmum þó okkur sé misboðið : One needs to learn the art of overlooking, the genius of pretending not to have noticed, sagði heimspekingurinn Alain de Botton. Listin að sjá í gegnum fingur, að þykjast ekki taka eftir ruglinu.
Með þessu móti sleppum við því að næra ófriðinn, næra það sem okkur er ógeðfellt.
Ég held að leiða megi líkur að því að sigur allra þeirra öfgaflokka sem auka fylgi sitt í td.nýafstöðnum þýskalandskosningum sé vegna þeirra ofsafengnu viðbragða sem skoðanir þeirra hafa mætt.
Einsog ljóst er af þessum texta er ég andstæðingur þess rasisma og þjóðrembu sem um ræðir og sammála þeim sem andmæla þessu kröftuglega, en ég er sem sagt að velta því fyrir mér hvort svo kröftug og hávær og hörkuleg andmæli, gagnist hugsanlega ógeðinu.
Við þekkjum vel hvernig skoðanir og hreyfingar allskonar sveiflast með einskonar penúlhreyfingu í menningunni. Áður en jafnvægi næst varðandi ákveðið umdeilt málefni þarf pendúllinn að sveiflast óþægilega langt í átt til öfganna – til hægri og vinstri eða út og suður. Öll góð sjónarmið (og ekki bara þau “vondu”) hafa átt sér fylgismenn, sem ganga allt of langt. Fólk sem telur sig hafa góðan málstað – hvort sem okkur finnst það líka eða ekki – telur að þeirra góði tilgangur helgi öll meðöl. Fólk sem vill hlífa dýrum frá því að vera étin, drepa manneskjur í baráttu sinni, sumir femínistar mannorðsmyrða venjulegt fólk ef það vill ekki skrifa uppá hvað sem þeim þóknast að láta útúr sér, sama er að segja um stuðnigsfólk jafnréttis fyrir samkynhneigða. Nánast allur góður málsstaður á sem sagt á einhverjum tíma öfgafulla stuðningsmenn. Hingaðtil hefur góði málstaðurinn reyndar ævinlega sigrað (lýðræði, afnám þrælahalds, réttindi samkynhneigðra osfrv), að því leyti er menningin í framför. Og kannski verður þetta að ganga þannig fyrir sér að pendúllinn þarf að fara í öfgarnar áður en hann róar sig á skynsamlegri niðurstöðu sem er í takt við samtímann hverju sinni.
En því er gjarnan ruglað saman hver málstaðurinn er og hver baráttuaðferðin er. Ágætustu skoðanir eru fordæmdar vegna baráttuaðferða stuðningsfólksins. Einsog góðar og mannvinsamlegar skoðanir geti ekki átt sér óbilgjarna og öfgafulla stuðningsmenn. Það verður eðlilegt bakslag í hugum fólks sem verður vitni að óbilgirni og drottnunartöktum þeirra sem „vita betur“.
En sem sagt – mig grunar að þau ofsafengnu viðbrögð viðbrögð sem komið hafa fram við (forpokuðum og fasískum) skoðunum eigi mikinn þátt í velgengni þeirra. Við erum þarna að tala um þennan pendúl. Þegar fólk skynjar æsinginn og hatrammar tilfinningar í málflutningi þeirra sem stundum eru kallaðir pólitíkst rétthugsandi, þá bregst það við með andúð sem hjálpar þeim ömurlegu skoðunum sem voru svo heiftarlega gagnrýndar. Ástæðurnar eru nokkrar og verður ekki farið úti það hér af neinu ráði, en eitt má nefna: Það er ekki undarlegt að fólk sem á undir högg að sækja í samfélaginu, er til dæmis atvinnulaust, að það verði uggandi þegar allt í einu koma framandi manneskjur sem það þekkir ekki eða skilur inn í landið og fær aðstoð og umönnun. Fólk spyr sig hvort þetta þýði að þess eigin hagur muni verða lakari. Þetta er ekki ósanngjörn spurning. En ef fólk nefnir þetta upphátt, þá er oftar ekki ekki æpt á það að það sé rasistar eða fasistar. Altso á það bara að þegja. Svo koma einhverjir jakkafaraklæddir menn eða buxnadraktarklæddar konur, snytilegt fólk og segja að útlendingarnir séu hættulegir. Sem sé að spuningin sem bjó í huganum hafi átt rétt á sér. Það er ekkert mjög undarlegt að þá fari atkvæðið til polulistanna.
Hugsiði ykkur að við hefðum bara hlegið að fordómafullu rausinu í framsóknarkvensunni sem komst inní borgastjórn á “útvaps-sögu-tali” um moskulóð og hrist hausinn og farið svo að tala um annað sem skiptir alvöru máli fyrir líf okkar í borginni. Að við hefðum leyft þessari mosku-umræðu að vera áfram þar sem hún átti heima – á Útvarpi Sögu. Að við hefðum nánast látið einsog okkur kæmi þetta rugl ekki við, að við hefðum litið framhjá því og haldið áfram að ræða borgarmál.
Auðvitað spiluðu fjölmiðlarnir með og létu æsa sig uppí að fara með þessa umræðu einsog um alvöru fréttir væri að ræða, en þeim var vorkunn, því allskonar málsmetandi fólk útum allt samfélag var á háa c-inu yfir því.
Mín tillaga er að við stillum okkur og viðbrögð okkar næst þegar lítilvæg skítamál sem þetta skjóta upp kollinum. Reynum að átta okkur á hvort við gerum kannski ógagn með því að næra málið með hávaða og andköfum, hvort hollara sé að leiða það hjá sér, sem það aukaatiði sem það er. Því víst er það aukaatriði í stóra samhenginu að einhver kona sem er í framboði fyrir flokk sem mælist með 4% reynir að vekja á sér athygli með fordómafullu tuði um lóðaúthlutun.