
Móðgunargjarnir ríkir karlar kæra

1. Íslenskir dómstólar hafa brugðist ítrekað þegar það kemur að því að verja tjáningarfrelsi fjölmiðla (þetta sanna fjölmargir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu).
2. Íslenskir fjölmiðlar eru margir hverjir fremur fjársveltir og virðast sumir nánast reknir á hugsjónum þeirra sem þar starfa.
3. Móðgunargjarnir Íslendingar (oft miðaldra ríkir kallar) eru mjög duglegir við að stefna fjölmiðlum fyrir meiðyrði og hengja sig þá gjarnan í einhverjar smávægilegar villur í frásögn eða ummæli sem höfð eru eftir viðmælendum.
4. Móðgunargjörnu karlarnir (og jújú örfáar konur) stefna gjarnan blaðamönnum persónulega en ekki bara fjölmiðlinum sem birtir hina meintu meiðandi umfjöllun.
5. Fyrir vikið þurfa blaðamenn á Íslandi að þola það að tapa peningum, tíma og geðheilsu reglulega af því einhver brjálaðist yfir að um hann væri fjallað.
6. Þrátt fyrir að blaðamenn vinni málin fyrir öllum dómstigum eru þeir gjarnan látnir bera sinn eigin málskostnað (sem er sturlun).
7. Þetta þýðir, óhjákvæmilega, að fjölmiðlar veigra sér við að fjalla um mál af ótta við þessa freku (og oftast ríku) karla. Þar með veikist hið svokallaða fjórða vald sem við almenningur treystum á til upplýsingar.
8. Þessi staða þýðir væntanlega líka að fjölmiðlar reyna að ganga úr skugga um að vera pottþétt með allar staðreyndir á hreinu áður en þeir birta umdeilda umfjöllun.
9. En nú bætist svo við þessa skammarlegu stöðu tjáningarfrelsis á Íslandi sú staðreynd að fjölmiðli er hegnt fyrir það að birta ekki öll gögn úr leka strax (eins og Stundin hefði vissulega getað gert) heldur vinna úr gögnunum með lögbanni sem virðist vera fullkomlega galið að mati allra sérfræðinga sem tjá sig um málið.
10. Ég vil biðja ykkur um að taka 10 sekúntur í að hugsa með hlýhug til þeirra sem ennþá nenna að vinna þessi mikilvægu störf, samfélaginu okkar til góða.
11. Svo megið þið taka aðrar 10 í að minnast þeirrar staðreyndar að hvergi er minnst á fjölmiðla í núgildandi stjórnarskrá en í þeirri nýju er upplýsingaréttur styrktur til mun auk þess sem 16. gr. fjallar sérstaklega um frelsi fjölmiðla.
#NýStjórnarsrká