Mannapinn minn

Mannapinn minn

 

Miðvikudagur í lífi mannapa.

Við sjáum mynd…

Myndin er af apastyttunni minni sem er skv. hlutlausum mælikvörðum einn fegursti hlutur sem mannkyn hefur skapað. Apinn er mjög mennskur í líkamsvexti og heldur á pálmatré eins og öpum er einum lagið. En pálmatréð morfast svo yfir í kertastjaka eins og pálmatrjám er einum lagið.

Apa þennan fékk ég á hinum frábæra nytjamarkaði sem er haldinn í Brákarey í Borgarnesi á laugardögum (og ég mæli með). Einhverra óskiljanlega hluta vegna er þessi api ekki eins heitt elskaður af maka mínum og mér og fyrir vikið dúsir hann jafnan inn í skáp í staðinn fyrir að hann hafi sitt eigið altari einhvers staðar í miðri stofunni eins og hann ætti í raun skilið. En hvers vegna skyldi ég hafa grafið apann fram og myndað hann? Jú, vegna þess að á miðvikudaginn upplifði ég mig nákvæmlega eins og þennan apa sökum atvika sem ég mun nú upplýsa um. Það gerði það að verkum að ég mundi eftir apanum mínum (sem var falinn afatarlega í lokaðri hirslu) sem er núna kominn á áberandi stað á heimilinu (you snooze you loose Kristín).

Nú apann mundi ég á miðvikudaginn þegar ég vaknaði með svífyrðilegt þursabit (djöfull sem þursabit er frábært og lýsandi orð annars. Mér finnst við ættum að fara með þetta orð í útrás og nota það miskunnarlaust á erlendri grundu. Dæmi: “Please hand me my suitcase kind sir I have been bitten by a troll”).

Þursabitið var ekki það eina sem hrjáði mig ó, nei. Ég er líka með lófastórt sár á vinstra hné eftir að hafa misst mig í æslafullum eltingarleik á útisvæðinu á Laufásborg sem endaði með ógnarlegu falli mínu. Ég minnist þess að hafa lagt mat á það í fyrstu 1-2 sekúnturnar eftir fallið hvort það væri málefnalegt að ég færi að öskurgráta og kastaði mér í fang einhvers af þeim frábæru leikskólakennurum sem urðu vitni að þessu stórslysi en það voru svo margir foreldrar á svæðinu að ég þorði því ekki.

Allavega, apinn er sem sagt í nákvæmlega sömu líkamsstöðu og ég neyddist til að vera þennan morgun og með nákvæmlega sama þjáningarsvip og ég klæddist. Nú veit ég ekki hvort þið hafið prófað að eltast við og klæða 3 og 4 ára börn með bítandi þursa í öxl, en það er erfitt. Ég gat ekki beygt á mér bakið án þess að ómennskur sársauki leiddi upp í eyra en ég gat heldur ekki beygt vinstra hnéð því þar var einhver nuclear-melting-ígerð grasserandi í þessu leikskólasári. Ég þurfti því að stilla mér upp á strategískan stað í hurðagætt nokkurri í apastöðunni og vona að börnin yrðu nógu vitlaus til að reyna hlaupa framhjá mér fyrr eða síðar þar sem ég myndi veiða þau og klæða, sem gekk auðvitað að lokum eftir.

Þetta tók auðvitað svona 95 míntútum lengri tíma en áætlað hafði verið og ég þurfti því að taka leigubíl á á fund hjá Öryrkjabandalaginu sem var allt í góðu því leigubílstjórinn var frábær (er með blæti fyrir leigubílstjórum). Við ræddum komandi kosningar og hann sagðist vera með lausnina á þessu máli. “Við mætum öll og náum 80% kjörsókn en ALLIR skila auðu,” sagði hann og hlóg tröllahlátri. “Hvað gera þau þá?” (akkúrat). Hann sýndi mér nýbyggingu bandaríska sendiráðsins og sagði mér að þetta væri það eina sem myndi lifa af ragnarök slíkur væri rammgerður byggingastíllinn og leynihvelfingarnar undir þessu dæmi. Hingað koma víst 3 menn frá USA og yfirfara ALLT sem iðnaðarmenn gera til að vera vissir um að ekki sé verið að njósna eitthvað. Þessu tengt sagði hann mér að kanadíska sendiráðið hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri ódýrara að fljúga inn þremur málurum frá Kanada til að mála þar innanhúss en finna íslenska aðila í verkið. (pælið í hvað þetta er gott samræðu-sniðmengi: sendiráð og iðnaðarmenn).

Eftir fundinn þurfti ég og mitt bitna bak að komast í HR þar sem ég átti að vera með fyrirlestur í hádeginu um flóttamannarétt. Ég ákvað að labba, bæði af því ég elska að ganga en líka til að reyna að losna við þursaþrollann af bakinu. Ég las einu sinni grein sem ég tek mikið mark á sem sagði að maður ætti alltaf að velja nýjar og nýjar leiðir þegar maður væri á göngu því það væri leið til að halda heilanum hressum. Ég pæli líka mjög mikið í hækkunum og lækkunum þegar ég vel mér leiðir en það er önnur saga. Ég alla vega labba frá Hátúni inn í hlíðahverfið (til að koma heilanum á óvart) og er skyndilega komin fyrir utan húsið hans Björns Benediktssonar fyrrv. dómsmálaráðherra. Ekki hef ég hugmynd um af hverju ég veit hvar þessi elska býr en ég fer samt að hugsa um téðan Björn því ég hafði séð hann stuttu áður því hann mætti á hátíðarmálþing um stjórnarskrána sem ég talaði á í síðustu viku. Ég fór að hugsa um að sennilega hefði eina ástæðan fyrir því að Björn mætti verið sú að málþingið var til heiðurs Jóns Steinari Gunnlaugssyni sjötugum því Björn leit ekki út fyrir að skemmta sér mjög vel sem áhorfandi þó framsögurnar væru áhugaverðar. Hann hálfpartinn lak unglingalega lágt niður í sætið sitt og eftirlét þyngdaraflinu fulla stjórn yfir andlitsdráttum sínum, þar með töldum augnlokum. Mér tókst reyndar að fá hann til að hlægja einu sinni sem gladdi mig mjög (þetta var þegar ég sagði að það hefði þegar verið náð sátt á milli allra aðila í gerð nýju stjórnarskrárinnar þar sem 25 mjöööög ólíkir einstaklingar með mjöööög ólíkar skoðanir hefðu allir komist að einni málamiðlun sem væru 114. greinar nýrrar stjórnarskrá. Svo sagði ég að það væri til dæmis bara ein skoðun sem ég og Pétur Gunnlaugsson lögfræðingur og útvarpsmaður á Útvarpi Sögu ættum sameiginleg og hún er: “Bjór er góð”. Við skrifuðum þó bæði upp á þessa blessuðu stjórnarskrá). En ég var sem sagt eitthvað að hugsa um hvað Björn hefði verið krúttlegur þegar hann skellti upp úr þegar ég átta mig á að ég er komin alla leið í Fossvogskirkjugarðinn án þess að hafa tekið meðvitaða ákvörðun um að labba þá leið (né tekið afstöðu til hækkunar: (veðurstofuhóll) og lækkunar (undirgöng undir bústaðaveg(?)). Ég ákveð þá að heilsa upp á ömmu Kötu sem er uppáhaldið mitt og áhrifavaldur og hvílir í kirkjugarðinum (hennar líf er reyndar efni í þúsund sögur). En viti menn, þegar ég er að ganga inn um hliðið á kirkjugarðinum mæti ég sjálfum Birni Bjarnasyni sem er augljóslega í heilsubótagöngu með einhverjum félaga sínum. Hann horfir góðlega til mín og segir “þakka fyrir síðast,” frekar hressilega og ég fatta að hann hefur sennilegast bara verið í blóðsykursfalli á hátíðarmálþinginu. (mig langaði smá að segja: “var einmitt að hugsa um þig!” en ákvað að halda kúlinu og segja eitthvað steikt á borð við “sömuleiðis herra minn”… hefði átt að játa!). En nóg um það.

Ég verð auðvitað klökk þegar ég kem að leiðinu hennar ömmu. Ég hugsa til hennar á hverjum degi þrátt fyrir að hún hafi dáið þegar ég var 11 ára. Sálufélagsskapur er nefnilega óháður aldri. Ég rabba aðeins við ömmu í huganum og þakka henni fyrir þetta helsta og hraða mér svo í HR til að halda blessaðan fyrirlesturinn á einhverjum jafnréttisdögum. Skemmst er frá því að segja að ef ég hefði ekki þegar verið gift hefði ég haldið að þessi fyrirlestur væri byrjunin á gæsuninni minni. Hann var haldinn í matsal (ég endurtek matsal, já einmitt staðurinn þar sem fólk vill borða í friði) skólans og ég og mínar útprentuðu glærur (ekki myndvarpi) stóðum á pinkulitlu sviði með bilaðan míkrafón og öskruðum á fólk í næringarleit fullyrðingar á borð við: “EF FJÖLDI FÓLKS Á FLÓTTA ER BORIN SAMAN VIÐ ÞJÓÐRÍKI MYNDU ÞESSAR 65,9 MILLJÓNIR VERA 21. FJÖLMENNASTA LAND Í HEIMI!”. Ég hef séð svona fólk í útlöndum sem öskrar á götuhornum á aðra, oftast eitthvað trúarlegt dót. En svoleiðis, nákvæmlega svoleiðis var ég. Svo gafst ég upp með mikilli reisn (hóst) eftir svona 2 mínútur en þá fann ég tvo af mínum uppáhalds skattalögfræðingum og komst á frábært trúnó með þeim sem meðal annars leiddi í ljós að löggjöf í skattamálum er ekkert sérstaklega ábótavant. Það vantar hins vegar mjög víða vilja til að fara eftir henni og fagleiki er ekki hyldjúpur t.d. í endurskoðunarfyrirtækjum. Af þessu trúnói fór ég á trúnó með réttarheimspekingi sem hefur áhyggjur af pólaríseringu í skoðunum fólks á netinu (tengi). Beint þaðan á trúnó við brasilískan auðlindafræðing sem segir að Mercado da ribeira sé eitthvað sem allir sem fara til Lissabon verða að heimsækja. Þaðan beint á trúnó við sérfræðing í skaðabótarétti sem vill að nám í lögfræði verði þverfalegra. Ég er honum sammála. Fór heim. Sótti börn. Fór á spunaæfingu og fékk 12-20 hlátursköst. Fór heim eldaði. Fór á fund um stjórnarskrána í Valhöll (sem var fínn). Fór svo heim og undirbjó hugmyndir að nýjum sjónvarps- og útvarpsþáttum sem ég var eiginlega búin að gleyma að ég þurfti að kynna morgunin eftir á RÚV. Þetta bar upp með þeim hætti að ég heyrði útvarpsauglýsingu um hugmyndadaga þar sem kallað var eftir hugmyndum um nýja dagskráliði. Ég sendi inn einhverjar hugmyndir í gegnum vefinn og hélt að það væri bara til að hjálpa RÚV en fékk síðan formlega boðun í að allar fjórar hugmyndir hefðu lent í einhvers konar úrslitum og ég myndi eiga að kynna þær nánar tiltekinn dag. Hann var örlítið vandræðalegur tónninn í svarpósti mínum þar sem ég bað upplýsingar um hvaða hugmyndir þetta hefðu aftur verið. En þetta gekk allt saman vel og þegar klukkan var orðin hálftvö um nótt var ég búin og viti menn þursabitið var horfið líka.

Ég hef ekki hugmynd um hver sé tilgangurinn með þessu ranti. Kannski er boðskapur þessarar sögu sá að Björn Bjarnason er ekki þurs, heldur bara krúttlegur api eins og ég sjálf. Við skilgreinum hvort annað of mikið út frá því sem sundrar okkur í staðinn fyrir að skoða það sem sameinar okkur (til dæmis að okkur finnist gaman að labba). Langflest viljum við bara að okkur líði ágætlega sem flestum. Við erum bara alls konar og eigum meira sameiginlegt en minna.

Hey, munið þið eftir apanum í Eden í Hveragerði?

About The Author

Safn

Share This