
Lögbrot að vísa barninu úr landi

Það felst fjölþætt og gríðarlega alvarlegt mannréttinda- og lagabrot í því að vísa þessu afganska barni frá landi áður en Alþingi hefur náð að fjalla um veitingu ríkisborgararéttar og áður en niðurstaða um hvort fresta eigi réttaráhrifum í málinu liggur fyrir.
Hér eru nokkrar reglur sem ég vel af handahófi sem yrðu brotnar:
1. Meðalhófsregla.
– Valdhöfum er óheimilt að fara strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.
2. Jafnræðisregla.
– Almennt fá hælisleitendur að bíða eftir niðurstöðu vegna beiðni um frestun réttaráhrifa áður en þeim er vísað frá landi. Af hverju ekki hún?
3. Meginregla barnaréttar um að hagsmunir barns ráði för við ákvörðun.
– Brottvísun er sérstök ákvörðun nota bene og þar ber líka að láta hennar hagsmuni (t.d. af því að fá úr því skorið hvort henni verði veittur ríkisborgararéttur áður en henni er vísað frá landi) ráða för.
4. Rannsóknarregla.
– Mál eiga að vera fyllilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Þegar fyrir liggur að hún á möguleika á ríkisborgararétti er ekki upplýst um það hvort vísa megi henni úr landi.
5. Regla um bann gegn misbeitingu opinbers valds.
– Hvernig nokkrum dettur í hug að henda henni með offorsi úr landi með opinberu valdi á meðan Alþingi Íslendinga íhugar að setja lög til verndar veru hennar hér er mér í raun algerlega hulin ráðgáta.
6. Réttur til aðgangs að dómstólum.
– Ég veit að óskað hefur verið eftir endurupptöku og ellegar frestun réttaráhrifa til að leita eftir úrlausn dómstóla um réttmæti þessarar ákvörðunar. Það er brot gegn stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu að taka af þessu barni þennan rétt með því að henda henni úr landinu þar sem möguleikar hennar til að hafa áhrif á dómsvaldið, t.d. með framburði sínum, eru verulega skertir.
Ég get fullyrt að ríkissjóður okkar allra er á góðri leið með að skapa sér skaðabótaábyrgð ef þessi fyrirætlan gengur eftir og þannig sé bætt á álag og þjáningar barns sem þegar þjáist af áfallastreituröskun í stað þess að leyfa henni að njóta vafans með þeirri einföldu aðgerð að fresta brottvísun um nokkra daga.
Hér hefur hún verið mánuðum saman og ekkert liggur á að henda henni frá landinu núna. Ekki nema stefnan sé að koma í veg fyrir að Alþingi Íslendinga fái að taka sjálfstæða ákvörðun um rétt þessa barns til ríkisborgararéttar. Ég neita að trúa því að svo ömurleg sjónarmið fái að ráða för í mínu landi.
http://ruv.is/…/haniye-verdur-visad-ur-landi-naesta-fimmtud…