
í kjölfar skoðunarkönnunar um nýju stjórnarskrána

Nokkrar tilfinningar og staðreyndir í kjölfar skoðunarkönnunar um nýju stjórnarskrána:
1. Sorglegt!
– Yfir 70% þeirra sem tóku afstöðu telja mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Ef hins vegar tekið er mið af þeim fimmtungi sem tók ekki afstöðu þykja 56% mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili sem er tvöfalt fleiri en þykir málið lítilvægt (23,5%). Staðreyndin er hins vegar sú að við getum ekki fengið nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili þar sem flokkarnir gátu ekki sammælst um breytingu fyrir þingrof sem hleypir þjóðinni að borðinu og því verður að gera þetta með þeim hætti að þing samþykki stjórnarskrárbreytingar, boðað sé til kosninga og næsta þing samþykki líka breytingarnar. Þannig svarar fólk með afgerandi hætti um mikilvægi einhvers sem er í raun ógerlegt. Það er sorglegt.
2. Stórkostlegt!
– Af þeim sem tóku afstöðu voru 75% kvenna á því að mikilvægt væri að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili en aðeins 15% töldu það lítilvægt (helmingi fleiri karlar eða um 30% töldu það lítilvægt). Það er stórkostlegt að konur hiki ekki við að taka afstöðu og vonandi munu sem flestar þeirra gera þessa baráttu að sinni.
3. Merkilegt!
– Fleiri sem tóku afstöðu á landsbyggðinni (35%) töldu málið lítilvægt en þeir sem tóku afstöðu á höfuðborgarsvæðinu (27%). Alls staðar á landinu voru hins vegar mun fleiri sem töldu mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á þessu kjörtímabili en þeir sem töldu það lítilvægt. Fleiri höfðu tekið afstöðu í Reykjavik en úti á landi. Þetta sýnir að fólk á landsbyggðinni hefur síður tekið afstöðu og upplifir málið frekar lítilvægt fyrir sig en fólk í bænum. Þetta er merkilegt þarf að skoða nánar og skilja hverju sætir.
4. Alvarlegt!
– Hin alvarlega misskipting í okkar samfélagi spilar inn í von fólks til nýrrar stjórnarskrár. Þannig er ljóst að eftir því sem fólk hafði lægri tekjur taldi það mikilvægara að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili. Fólk er nefnilega ekki fífl og áttar sig almennt á því að núverandi misskipting auðs er að stóru leyti grundvölluð á kerfislægu misrétti sem stjórnmál geta/vilja ekki taka á með róttækum hætti. Þetta er alvarlegt.
5. Magnað!
Það er langmest andstaða gagnvart nýrri stjórnarskrá á meðal stjórnenda og æðstu embættismanna. Með nýju stjórnarskránni er einmitt verið að skilgreina betur valdmörk þessara einstaklinga, auka gegnsæi í störfum stjórnsýslunnar og veita almenningi betri aðgang að opinberri ákvörðunartöku. Þessi staðreynd þarf því kannski ekki að koma á óvart en að sjá hana svona svart á hvítu er hins vegar magnað.
Ath. Fyrst þegar ég birti þessa færslu var hún byggð á röngum tölum sem MMR hefur nú leiðrétt.