Hugvekja um lýðræðið

Hugvekja um lýðræðið

(svona rétt fyrir kosningar 2017) 

Það er gott og blessað að segja að fólk eigi að vera virkara í samfélagslífinu. Það er reyndar fátt mikilvægara á þessum tímum. En stjórnmálaflokkarnir hafa ekki sýnt áhuga á að hinn almenni kjósandi og stuðningsmaður flokksins hafi aðgang að þeim fulltrúum sem hann kaus, nema rétt fyrir kosningar á fjögurra ára fresti. Þess á milli “skuluð þið treysta okkur fyrir því starfi sem þið kusuð okkur til”.  Staðreyndin er sú að nánast allir stjórnmálamenn vilja fá að vera í friði frá því þeir ná kjöri og þangað til þeir byrja næst að smala atkvæðum.  Og þeir kæra sig kollótta þó þeirra eigin flokkar samþykki meiri aðkomu hins almenna flokksmanns að stjórnmálum dagsins og reyna að beina þeirri orku sem þarna finnst í málefnavinnu svokallaða, hverrar tilgangur er að koma með tillögur að “góðum málum” sem flokkurinn getur flaggað í næstu kosningum og flokkseigendur móta endanlega til að hæfa sínum þörfum.

Ágæt frumkvæði hafa komið fram til að virkja almenning utan stjórnmálaflokka. Þar má nefna samtök um nýja stjórnarskrá eða eflingu beins lýðræðis.  Sum verkefnanna  eru á netinu, Skuggaþing, Betri-Borg og fleira. Kjörnir fulltrúar skreyta sig gjarnan með þessum net-verkefnum og telja þá staðreynd að þeir hafi styrkt þau fjárhagslega (af opinberum peningum auðvitað – og allt í lagi með það), sýna hvað þeir eru lýðræðilega sinnaðir og opnir fyrir aðkomu  almennings. Enn hefur þó lítið gerst eða sést sem bendir til að almenningur hafi raunveruleg áhrif með þátttöku á þessum netsíðum. Flestir skynja líka máttleysi þessara vel meintu verkefna og af því leiðir að þáttakan verður afar dræm – þeir sem hafa slík verkefni að hugsjón eru helstu þáttakendurnir, einsog til að sanna að þau virki.  

En ég vil alls ekki tala illa um frumkvæðið sem sýnt hefur verið á þessu sviði.  Mig langar aftur til að benda á hvað sé að og af hverju þáttakan er ekki meiri og árangurinn sýnilegri.

Til að fólk fái kraft til að sinna samfélagi sínu og málefnum þess þarf það að finna að framlag þess hafi áhrif. Það þarf að finna fyrir virkni sinni og finna fyrir ábyrgð sinni, sem aðeins gerist þegar manneskjan hefur sjálf tekið afstöðu og lagt eitthvað af mörkum.  Svona verkefni eru að spretta upp hér og þar um heiminn. Það eru til borgir sem kanna til íbúaþinga, þar sem öllum er frjáls þáttaka, til að búa til fjárhagsáætlanir fyrir verkefni borgarinnar og til að starfa beint að borgarskipulaginu.

Eina lausnin sem er sjáanleg á þeirri kreppu sem herjar nú á hefðbundin stjórnmál í vesturlensku fulltrúalýðræði er að auka virkni hins almenna borgara. Það dugir ekki að kjósa á nokkurra ára fresti fólk sem segir “ef þú kýst mig þá verður allt í lagi.”  Þetta er meðal annars vegna þess að í þessum flókna heimi alþjóðlegs öldugangs, þá getur enginn stjórnmálamaður staðið við slík loforð. Það dugir ekki að mæta á kosningafundi og klappa eða setja aura í kosningasjóði. Það dugir ekki að skrifa tillögur á netið sem maður veit ekkert hvað verður um frekar en þegar maður hendir steinvölu í sjóinn.

Fólk verður að fá virkni, vald til að (í sameiningu) framkvæma, og möguleika á að taka ábyrgð á eigin gerðum. Það er leiðin framundan. Hvert hún leiðir – hvernig næsta samfélagsmunstur lítur út – það vitum við ekki (fulltrúalýðræðið er ekki náttúrulögmál, heldur bara ein aðferð við stjórn samfélags í röð margra). Og við þurfum ekki að vita nákvæmlega fyrirfram hvert leiðin liggur. En ef við sjálf berum gæfu til að sinna okkar eigin málum og láta ekki aðra um það þá er eflaust að við erum á réttri leið.

About The Author

Director film, tv, theatre active in Sweden and Iceland Consultant, facilitator

Safn

Share This