
Hefur alelskan sigrað?

Egóisminn er í siðabók almennings einskonar ljót persversjón sem þarf helst að fela í samfélagi þar sem hið “rétta” hugarfar (í orði kveðnu) er góður hagur allra og jöfnuður (einsog það er á Íslandi, uþb. 85%).
Það er sem sagt nú til dags orðið “ljótt” að hugsa mest um eigin hag. Undantekningin er þegar sjálfshjálpargúrúar segja að þú þurfir fyrst að elska sjálfa(n) þig til að geta elskað aðra. Sem sagt maður má elska sjálfan sig, en bara af því að þá getur maður elskað aðra. Elskað í merkingunni þykja vænt um og bera hag fyrir brjósti.
Maður á sem sagt ekki að vera egóisti og meira að segja ekki træbalisti heldur (= sá sem hugsar bara um hag míns eigin hóps). Maður á að hafa hagsmuni heildarinnar, helst allrar jarðarinnar að leiðarljósi. Þetta er auðvitað í rétta átt og alveg frábært. Orð eru til alls fyrst.
Sigur þessa heimselsku-viðhorfs er svo algert í okkar heimshluta, að jafnvel verstu rasistar réttlæta útlendingahatur sitt með því að það eigi að hjálpa öryrkjum og gömlu fólki fyrir peningana sem annars fara í flóttafólk.
Það eru bara fáeinir furðufuglar sem finnst gaman að vera stuðandi, sem segja skítt með náttúrna, við eigum bara að græða á henni peninga. Eða: skítt með þá sem minna mega sín, ég vil enga skatta borga. Jafnvel verstu dólgar réttlæta fasisma sinn með því að í raun sé sjálfgæska þeirra best fyrir alla (sbr brauðmolakenninguna).
Sem sagt: indælt verður það þegar þetta verður komið úr munninum í mænuna.