Gildishlaðnar hugleiðingar…

Gildishlaðnar hugleiðingar…

Varúð: Langar og mögulega ómálefnalegar og gildishlaðnar hugleiðingar – en ég tek sénsinn…

Lýsingarorðið að vera “málefnalegur” hefur fallega merkingu. Mig langar að vera málefnaleg og held að flesta langi það.
Ég sé á Netinu kvartað sáran undan ómálefnalegum viðbrögðum fólks við að VG hafi ákveðið að reyna að mynda stjórn með xD.
Sjálf hef ég ekki séð þær athugasemdir sem kvartað er yfir en þar ku verið ausið er hatri yfir Katrínu Jakobsdóttur eða hennar félaga. Kannski á ég bara svona málefnalega vini hér á fésinu en mér sýnist þau sem tjá sig flest reið yfir því að fólk sem hafi lýst því yfir að þessi flokkur sé óstjórntækur af spillingu skipti snarlega um skoðun án þess að skýra hvað hafi breyst. Mér finnst slík gremja frekar málefnaleg. Að fyrir kosningar sé ekki eitt sagt en eftir þær gildi svo eitthvað allt annað.

Þess vegna skil ég og virði að Andrés IngiRósa Björk Brynjólfsdóttir og Ung VG vilji ekki fara í þessa vegferð að svo stöddu. Mér finnst það bæði málefnalegt, heiðarlegt og eðlilegt. En ég skil ekki endilega allar hliðar þessa máls og kannski er mér að yfirsjást einhver gild ástæða.
Af því mig langar að vera málefnaleg er ég virkilega að reyna að greina og skilja þessa ástæðu. Ég náði ekki að einbeita mér alveg nógu vel að því sem Katrín Jakobsdóttir sagði í Kastljósi áðan (því börnin heimtuðu harðfisksnittur með smjöri sem ég þurfti að klippa niður af mikilli nákvæmni svo þær pössuðu í þessa 3ja og 4ra ára munna þeirra. Ég var þó svo þyrst í að reyna að skilja þessa ákvörðun Katrínar og félaga að ég klippti harðfiskinn niður fyrir framan sjónvarpið og stofan lyktar núna eins og grásleppuskúr – talandi um fórnir!). En það sem ég heyrði Kötu segja fannst mér allt frekar málefnalegt. Eins og mér finnst eiginlega alltaf um hana enda er hún að mínu mati bæði klár og réttsýn.
Svo vaskaði ég upp og hugsaði um orð og merkingu þeirra (eins og er svo gott að gera yfir uppvaskinu). Ég var að reyna að skilja hvernig þessi staða er komin upp og af hverju hún gremst svona mörgum. Niðurstaðan var eiginlega sú að stundum er ekki gott að vera málefnalegur í bókstaflegri merkingu þess orðs ef það er á kostnað annars sem er enn mikilvægara: nefnilega gilda. Það er eflaust alveg rétt hjá Katrínu að þessir þrír flokkar geta náð saman um tiltekin málefni, meira að segja málefni sem skipta máli og varða almenning og eru til bóta. 
En að líta einungis á þau verk sem hægt er að vinna og þar með fram hjá þeim gildum sem einkenna samstarfsfélagann í þessari vegferð, og margir í VG bentu á fyrir kosningar, eru að mínu mati mistök. 
Lýsingarorðið “gildishlaðinn” hefur frekar neikvæða merkingu. Orðin sem ýmsir VG liðar létu falla um xD fyrir kosningar voru ansi gildishlaðin á tíðum, en ég er ekki viss um að þau hafi í grunninn verið ómálefnaleg í ljósi þess sem gerst hefur hér á landi í stjórnmálum undanfarin ár. 
Þegar það myndast mikil andstaða á milli þeirra gilda sem lagt er upp með og þeirra málefna sem unnið skal að, held ég að þrátt fyrir að málefnin séu góð sé nær ómögulegt að skapa sátt eða frið á meðan unnið er að markmiðunum sem um ræðir.
Sá flokkur sem nú er verið að velta fyrir sér hvort leiða eigi til valda eina ferðina enn hefur að mínu viti ekki endurskoðað þau gagnrýniverðu gildi sem gefa sterklega til kynna að hann þarfnist alvarlegs uppgjörs og sjálfsskoðunar. Þess vegna held ég að það verði ekki gott fyrir þjóðfélagið okkar að hann fari með þau miklu völd sem fylgir því að vera ríkisstjórnarflokkur þetta kjörtímabil.

Þetta með gildin sem trompa málefni minnir mig á stjórnarskrána því hún er ólík öðrum lögum að því leyti að hennar reglur trompa almenn lög. Þannig er óheimilt að setja lög sem eru andstæð stjórnarskrá. Ástæðan er sú að stjórnarskráin eru grunnlögin í landinu og í henni eru geymd þau gildi sem öll önnur lög verða að samrýmast.

Ég veit ekki hvaða gildi sé hægt að tala um að við deilum sem þjóð (eða yfirhöfuð hvort hægt sé að alhæfa með nokkrum hætti um þann hóp sem kallaður er “þjóðin” á hverjum tíma). 
Í aðfaraorðum að nýju stjórnarskránni eru nefnd ýmis gildi og ég leyfi þeim að fljóta hér með í lokin. Ég veit að xD vill ekki þessa stjórnarskrá þrátt fyrir að þjóðin hafi greitt með henni atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og kannanir sýni að yfirgnæfandi meiri hluti vilji hana lögfesta án tafar. 
Ég veit að fjórðungur kjósenda kaus xD og þau gildi þar með sem flokkurinn stendur fyrir – góð og slæm. Það er eiginlega nákvæmlega sama hlutfall kjósenda og er andvígur nýju stjórnarskránni en hún verður augljóslega sett í salt ef þessi ríkisstjórn sem er í mótun verður að veruleika. Það þýðir að mögulega líða fjögur heil ár í viðbót án þess að meiri hluti kjósenda fái þau grunnlög hann hefur sagst vilja af því að minni hluti kjósenda vill ekki leyfa það.

Mér finnst, í sannleika sagt, ómálefnaleg sú áhersla að önnur málefni séu mikilvægari vegna þess að hunsun þjóðaratkvæðagreiðslu gegnur þvert gegn grundvallargildi samfélagsins um lýðræði. Auk þess tekur nýja stjórnarskráin á svo mörgum grundvallarmálum sem þarfnast breytingar hjá okkur að það er nánast tvíverknaður að fara út í það að breyta öllu með handafli eitt kjörtímabiliði enn án þess að vera búin að tryggja grunnlög sem til dæmis setja auðlindir í þjóðareign og jafna vægi atkvæða.

Ég hef á þessu stjórnarskrármáli mjög sterkar skoðanir svo þetta kann að vera ómálefnalegt af mér. En eins og ég segi þá tek ég bara sénsinn.

Hér koma svo hin gildishlöðnu aðfaraorð í stjórnarskránni sem þjóðin kaus að skyldi lögð til grundvallar að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Það er stjórnarskráin sem mér finnst málefnalegt að Alþingismenn, kjörnir af þeirri sömu þjóð, lögfesti sem fyrst:

“Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu.

Ísland er frjálst og fullvalda ríki með frelsi, jafnrétti, lýðræði og mannréttindi að hornsteinum.

Stjórnvöld skulu vinna að velferð íbúa landsins, efla menningu þeirra og virða margbreytileika mannlífs, lands og lífríkis.

Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. Við einsetjum okkur að vinna með öðrum þjóðum að friði og virðingu fyrir jörðinni og öllu mannkyni.

Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.”

#nýstjórnarskrá

About The Author

Safn

Share This