
Enn verður kosið…

Kæri stjórnmálamaður,
nú líður að kosninum, enn einu sinni. Mig langar að segja nokkur orð við þig. Meðal annars af því tilefni. Vanalega talar þú bara við mig eða til mín reyndar. Úr ræðustólum eða fjölmiðlum. En sem sagt, nú langar mig að koma að nokkrum orðum og segja þér hvað mér finnst um starf þitt og eitthvað um hvað ég vil að þú gerir og hvað þú látir ógert. Bara nokkrir punktar.
Mér finnst að stjórnmálamenn eigi fyrst og fremst að leggja brautir, skapa farvegi og vettvanga fyrir hinn almenna borgara. Mér finnst hugmyndir um hvað þarf að gera, af hverju og hvernig eigi að koma frá almenningi. Þú átt að sjá til að þær verði að veruleika á besta, fallegasta og hagkvæmasta mögulega máta.
Hugmynd sem hægt er að framkvæma á næsta kjörtímabili: Það er tilvalið að þið komi upp íbúaþingum, sem er slembivalið á og eru kölluð saman 2-3 sinnum á ári. Þessi þing eiga að hafa dagskrárvaldið í borgar-, bæjar- og sveitarstjórnum. Slembivalið í þau árlega eða á tveggja ára fresti. Góð hugmynd og lýðræðisleg, finnst þér ekki?
Þið ræktið svo ykkar hlutverk, sem er að framkvæma á sem bestan og skynsamlegastan hátt vilja fólksins. (Sem var jú meiningin frá byrjun!)
Stjórnmálamenn eiga að segja okkur gildi sín, hvaða samfélag þá langar að sjá verða til. Hvaða gildi eiga að þeirra mati að vera leiðarljós í umgegni manns við mann. Við kjósum þá á grunvelli þess hvert þeim finnst vera hlutverk og verkefni hins sameiginlega, þess sem við eigum saman, samfélags okkar.
Stjórnmálamenn eiga ekki að stjórna almenningi einsog gamaldags lénsherrar með fyrirmælum og aðgerðum – með stjórnvaldi. Þeir eiga ekki að koma með yfirlýsingar um að svona umferð sé betri en hin, svona hús betri en hin. Þeir eiga að hlusta á hvað okkur finnst mikilvægt í lífinu og samlífi okkar og þaðan geta þeir svo unnið að lausnum sem fá drauminn til að rætast. Þeir eiga alls ekki að dúndra á okkur loforðum um aðgerðir sem muni hafa fyrirsjáanlegar afleiðingar öllum til hagsbóta. Réttmæti slíkra loforða og réttlæting þeirra byggir á hugmyndinn að hægt sé að sjá fyrir framtíðina. Útgangspunktur stjórnmálamannsins hefur sem sagt verið að ákveðin ákvörðun eða aðgerð hafi fyrirsjáanlegar afleiðingar í framtíðinni. “Ég/við ætlum að gera A og þá verður útkoman B”. En veröldin virkar ekki svona. Hún er löngu hætt að gera það vegna gífurlegs flækjustigs og hraða nútímans – ef hún þá einhverntíma gerði það. Í þeim flóknu kerfum sem við lifum, er nánast útilokað að segja fyrir um endanlega afleiðingu neinnar aðgerðar.
Gerið þá hugsunartilraun að ímynda ykkur eitt samfélagsmál, eða örlög eins stjórnmálamanns og sjáið í hugskoti ykkar hversu útilokað er að segja með vissu um endanlega útkomu úr nokkrum sköpuðum hlut. Auðlindir, icesave, Hanna Birna, Bjarni Ben, Jóhanna Sigurðar, ný stjórnarskrá, Sigríður Andersen, Logi Einarsson. Í öllum tilvikum verða nánast furðulegar tilviljanir til að örlög allra þessara mála og þessa fólks fer leið sem nánast enginn hafði búist við.
Betra er fyrir ykkur stjórnmálafólkið að setja fram vilja og markmið og gera sér grein fyrir að það þarft trúlega að sveigja aðferðirnar á leiðinni að markmiðinu. Aðferðirnar eða aðgerðirnar mega ekki vera hinn fasti punktur. Markmiðin / gildin eru hinn fasti punktur.
——
Daniel Kahneman fékk Nóbelsverðlaunin í hagfræði. Hann hefur ma. skrifað bókina “Thinking fast, thinking slow” Mikið keypt og lesin bók. Hann heldur því fram að enginn geti stöðugt tekið réttar ákvarðanir, það séu bara goðsagnir þegar rætt er um snillinga meðal stjórnenda og stjórnmálamanna.
Kahneman bendir á það sem annar klókur náungi, Nassim Nicholas Taleb var ýtarlega búinn að skrifa um í td. The Black Swan, nefnilega þetta : “…And, indeed, studies showing that “skilled” analysts are hopeless at predicting the price of shares (…) this has yet to translate into mass sackings or even reduced bonuses on Wall Street or in the City. The same goes for evidence that the influence of a high-quality CEO on the performance of a company is barely greater than chance…”
Ástæðan fyrir að þetta er svona, hefur að gera með virkni svokallaðra kaótískra kerfa (ekki eins flókið og sumir halda). Auðmýkt gagnvart þessum staðreyndum heimsins og lífsins er í rauninni í fullkominni andstöðu við framgöngu flestra stjórnmálamanna, sem stöðugt halda því fram að þeir geti breytt heiminum í ákveðið form með aðgerðum og ákvörðunum sem þeir taka í visku sinni. Bara ef við kjósum þá. En ef þessi fullkomna óvissa og getuleysi til að spá fyrir um framtíðina á við um sérfræðinga á greiningardeildum í bönkum og forstjóra fyrirtækja, einsog Kohneman bendir á, þá á þetta auðvitað í enn ríkara mæli við um pólitíkusa sem hafa enn margþættari viðfangsefni, nefnilega allt samfélagið einsog það leggur sig.
Annað – nú fyrir það stjórnmálafólk sem ég helst kýs, nefnilega það sem eru vinstra megin við miðju.
Vinstrimenn og miðjufólk virðist óneitanlega miklu kröfuharðara á prinsipp og siðferði forystumanna sinna en hægri menn sem eru mun tilbúnari að fyrirgefa og samþykkja alskonar frávik og jafnvel svínarí hjá sínu fólki – (Árni Johnsen, Bjarni Ben, Hanna Birna, Ásmundur Friðriksson, Donald Trump, Vladimir Putin, Sigríður Andersen osfrv)
Vinstri menn telja sig og eru kannski idealistar, þeir því vilja “hjartahreina” leiðtoga og heiðarlega. Þeir vilja ekki refi. Í bandaríkjunum lemja þeir á Clinton og Obama, hér á landi Árna Páli og nú Katrínu Jakobs. Hér skal ekki dæmt um hvað sé verðskuldað og hvað ekki. Bara bent á að vinstri menn eru grimmari við sína leiðtoga en hægri menn við sína.
Hugleiðið svo það sem hefur verið að gerast í tengslum við Jeremy Corbyn og Bernie Sanders, þessa menn sem hafa hvorki aldurinn né útlitið með sér á þessum tímum æskudýrkunar.
Corbyn sló í gegn af því að hann er ekki “sniðugur” eða “slingur” einsog Blair, sem nýtur núorðið dýpstu fyrirlitningar af því að hann var “pragmatískur” eða raunsær í samskiptum sínum við USA og viðskiptalífið. Það eru ekki andstæðingarnir, sem fordæma hann, takið eftir því, það eru fyrrum félagar.
Vinstri leiðtogum líðst ekki siðlaus hegðun eða að brjóta gegn hugsjónum af prívat- eða “raunsæis-” ástæðum. Það er þessvegna sem það skiptir því miður afskaplega litlu máli hvort það var “raunhæft” og “líklegt til árangurs” að trixa eitthvað og fixa til dæmis í stjórnarskrármálinu. Hið fjölmenna stuðningsfólk nýrrar stjórnarskrár skynjar slíkt sem óhreint brask og það lýðst ekki. Stuðningur við vinstri leiðtoga gufar upp þegar þeir fara að semja við auðvaldið eða afturhaldið. Ingibjörgu Sólrúnu var ekki liðið að ganga til liðs við hinn “turninn” í ríkisstjórn sem síðar var kölluð hrunstjórnin. Vinstri Grænum og Katrínu Jakobsdóttur verður ekki liðið að leiða Sjálfstæðisflokkinn til valda. Alveg sama hverju þau koma til leiðar með stjórnarsamstarfinu – sem ég hef reyndar ekki trú á að verði neitt sem skipti máli, því miður. Þessir kjósendur vinstramegin miðju hafa ekki og vilja ekki hafa skilning á “snjöllum” leikjum sem hugsanlega geta skilað árangri – ekki nema leikirnir séu augljóslega hugmyndalega í takti við stefnuna, gildin, hugsjónina. Þetta með stjórnarskrána vorið 2013 er raunar gott dæmi um hvernig lítil og á fljótt á litið sakleysisleg hrókering getur valdið gríðarlegum stormi, ef hún kemur inní spennt og viðkvæmt ástand. Og maður veit aldrei fyrir víst hvenær slíkt ástand er fyrir hendi (kaosteórían talar um hið fræga dæmi með fiðrildið sem blakar vængjum í Amazon og veldur með því hvirfilbyl í New York.) Þetta er enn eitt dæmið um að útilokað er að sjá fyrir afleiðingar ákveðinnar athafnar, sama hvað lítil og sakleysisleg.
Og hvað sem okkur kann að finnast um um það, þá er stjórnarskrármálið raunar lang stærsta málið og mikilvægasta fyrir stóran hluta kjósenda á Íslandi.
——
Á meðan við höfum stjórnmálaflokka í núverandi mynd þá þurfum við að starfa í stjórnmálum samkvæmt eðli þeirra sem er hjarðeðli. Samtímis reyna að hafa hagsmunina sem stjórnmálaflokkurinn stendur fyrir skýra og einfalda. Mesta hætta sem leiðtogi vinstra flokks stendur frammi fyrir er er að skrika til hægri og gæla við hægri launsir. Gera þar með erindi flokksins loðið og illhöndlanlegt. Tvennt getur haldið flokki saman, sterkur leiðtogi /forysta eða afdráttarlaus stefna. Og vinsri menn vilja ekki steka leiðtoga og þeir þrífast ekki vel í ættbálki þar sem frávik eru illa séð. Það þýðir ekki fyrir vinstra afl að iðka blairisma einsog að skólagjöld og sjúklíngagjöld eða koma á þrepalausu skattkerfi. Það kann að vera praktískt uppá samstarf við aðra eða jafnvel eitthvað sem virðist við fyrstu sýn vera vit í, en sú forystukona sem felst á slíkar lausnir er að svíkja grundvallar prinsipp þeirrar hreyfingar sem hún leiðir. Ef hún víkur frá þeim eyðileggur hún bæði flokkinn sinn og eigin stjórnmálaferil.
Séríslensk staðreynd er að velferðarkefi okkar og stuðningur við þá efnaminni er miklum mun lakari en í nágrannalöndunum. Þessvegna er það og verður um skeið meginverkefni íslenskra stjórnmála að leiðrétta þetta. Áður en það er gert er ekki hægt að iðka stéttasamvinnu.
Það var borgara-stjórn í mörg ár í Svíþjóð þar til nýlega, einsog við vitum. En jafnvel í Svíþjóð þar sem borgarflokkarnir þóttu fara illa með velferðina þá er ástandið allt annað en hér. Smá saga: Um daginn var vinur minn sem býr í Stokkhólmi hér með fjölskylduna. Dóttir hans (16) hitti jafnöldrur sínar að máli og hún varð aldeilis alveg bit, þegar hún fékk að heyra að þær fengu engin skólalaun, einsog allir sænskir nemendur, að þær þyrftu að borga fyrir bækurnar sínar sjálfar og að skólinn skaffaði þeim ekki persónulegar tölvur. Okkur sem erum slöku von finnst þetta kanski ofrausn, en þetta eru ráðstafir til jöfnunar. Svo er til fólk í stjórnmálum (ekki að tala um XD) að gæla við að auka skólagjöld í opinbera skóla og dettur ekki í hug að aðstoða nemendur hvorki með bækur né tölvur. Og sumir telja jafnvel holt og veita nemendum þannig aðhald. Segja að ungmennin verði duglegri við námið ef þau þurfa að borga fyrir það! Þetta er ekki í anda jafnaðar.
Áður en hægt er að tala um blandaðar lausnir hér á landi þarf að hysja þá verst stöddu uppfyrir lágmarksframfærslu og sjá til að fólk geti séð fyrir sér með því að vinna eina vinnu og það án yfirvinnu. Þannig hefur það verið áratugum saman í til dæmis Svíþjóð, þar sem yfirvinna er afar sjaldgæft fyrirbrigði.
——
Kæra stjórnmálafólk. Eitt er það enn sem mig langar að taka upp við ykkur. Það er sú árátta starfssystkyna ykkar að meta alla hluti til fjár eða hagvaxtar. Þetta er sorgleg fátæk afstaða til lífs og samfélags. Reyndar er þetta skiljanleg meinloka og stjórnmálafólk ekki eitt um hana. Það er nefnilega auðveldara að rökstyðja hluti útfrá handföstum stærðum einsog peningum og kostnaði og ágóða. Mælanlegum stærðum. Flestir sem eru í pólitík eru síður heima í umræðu um andleg, huglæg eða listræn verðmæti eða eigingildi mannúðar.
Það er talað um að svona margir atvinnuleysisdagar séu jafn mikils virði og svona margir dagar í uppihald hælisleitenda. Sem aftur eru jafn mikils virði og svona mörg sjúkrarúm á mánuði. Sem aftur kemur á móti svona miklum útflutningi sem við högnumst jafnmikið á og það kostar okkur að “halda uppi” þjóðleikhúsi. Niðurgreiðslur á kjöti sem nema svo og svo mörgum sinnum framlagi ríkisins til myndlistar…
Svona umræða átti sér stað í Danmörku í tenslum við nýlegar þingkosningar. Ég sá í sjónvarpinu þátt þar sem Lökke og Törning-Smitt baunuðu svona tölum endalaust hvort á annað.
Það á að sjálfsögðu ekki að útiloka slíkan samanburð, en hversu mikilvægt er það ekki að við komum okkur út úr þessum hugsunarhætti, þar sem bara hin ytri verðmæti eru einhvers metin.
Það hefur tilgang í sjálfu sér að við getum öll lifað mannsæmandi lífi – eigin tilgang sem hefur með sammennsku að gera. En rökin eru ekki bara heimsekileg og siðferðisleg. Þar sem jöfnuður skapar lífshamingju og forðar óhamingju – líka hjá þeim ríku – þá hefur hann einnig praktíska þýðingu.
Það er ekki bara tilgangur atvinnuleysisbóta að frumkvöðlar fái rúm til að koma sér aftur til framkvæmda, þó það sé fínt í sjálfu sér. Tilgangurinn er mannúð – að við hugsum um meðmanneskjuna. Hitt er bónus. Það hefur tilgang að hver og einn geti nýtt hæfileika sína og fundið lífsfyllingu jafnt í góðri vinnu, skapandi tómstundum, í listneyslu eða listiðkun. Það er ekki bara til að auka útflutningstekjur eða laða hingað útlenda túrista sem við stundum listir og njótum þeirra. (Allt þetta veit ég auðvitað að þú veist – en það er mikilvægt að halda því á lofti. Og að það komi fram í gerðum þínum og málflutningi
Hinir vísu menn fyrri (og síðari) alda sögðu að mannleg tilvera væri samsett úr þremur þáttum, Hinu Fagra, Hinu Sanna og Hinu Góða. Allir þættirnir jafn mikilvægir. Hið Fagra sendur fyrir skynjun okkar og innra líf og listir og angan blómanna, Hið Góða stendur fyrir siðferði okkar og samlíf manns með manni. Og hið Sanna fjallar um það sem er áþreyfanlegt og teljanlegt og mælanlegt. Nútíminn – modernity hefur á undanförnum öldum veitt okkur mikinn fróðleik og lífsgæði. En þetta hugarfar hefur líka lleitt okkur á þann stað að við berum einungis virðingu fyrir því mælanlega, kílóum, metrum og krónum og teljum allt hitt of “loftkennt” til að vert sé að sinna því.
Það er eitt af verkefnum þeirra sem bjóða sig fram til þjónustu fyrir heildina og veljast til að gera það, að leiðrétta jafnvægið í mannlífinu og hefja hið góða og hið fagra aftur til viðeigandi áhrifa við hlið hins sanna.
Allt þetta er skrifað með bros á vör og gleði yfir að hafa möguleika á að hugsa um þessa hluti og fjalla um þá með góðu og skynsömu fólki einsog þér.
Allt í haginn