
Bitur reynsla

Ég átti vin sem var dæmdur fyrir nauðgun. Ekki eina heldur þrjár. Þegar fyrsta málið kom upp og hann var hundeltur af fjölmiðlum náði hann að sannfæra mig um að hann væri saklaus. Ég trúði honum og hélt því fram á þáverandi vinnustað mínum að fjölmiðlar væru í ruglinu. Síðan kom meira og meira í ljós. Mér hefur sjaldan liðið eins illa.
Tengdamamma mín sagði við mig fleyga setningu eftir að þetta var allt yfirstaðið sem hefur setið í mér síðan og ég reyni að lifa eftir: “aldrei fullyrða um sakleysi annarra”. Þetta er góð ráðlegging.
Ég hef lítinn áhuga á að níða skóinn af þeim almennu borgurum sem ákváðu að verða við beiðni vinar síns um að veita honum meðmæli. En að fullyrða með þessum hætti um sakleysi einhvers er hins vegar heimskulegt og óábyrgt: „Ég hef þekkt Robert frá barnæsku og get ég fullyrt með góðri samvisku, að hann hefur hegðað sér óaðfinnanlega í lífi og starfi frá því, að hann kom úr fangelsi.”
Svona fullyrðing er einfaldlega fráleit því enginn hegðar sér “óaðfinnanlega í lífi og starfi”.
Við sem samfélag þurfum að læra af þessu ömurlega máli. Ein lexían er að sleppa svona fullyrðingum fyrir annað fólk.
Þetta veit ég af eigin bitru reynslu.
#höfumhátt