Brjóstamyndataka og stjórnarskrá

Brjóstamyndataka og stjórnarskrá

Mér var nýlega boðið í brjóstamyndatöku. Ekki svona “Hey-sæta-brjóstamyndatöku” heldur hef ég náð þeim virðulega aldri að Krabbameinsfélagið er farið að senda mér boð um svona stefnumót sem ég auðvitað þigg, nánast klökk af gleði yfir að einhver nenni að hafa vit fyrir mér og hugsa í forvörnum.

Í dag var sem sagt komið að þessu. Ég var að kenna fyrsta árs laganemum í stjórnskipunarrétti inngang að mannréttindum í morgun (verð alltaf svo vongóð þegar ég finn að þau eru að hugsa og gagnrýna það sem verið er að kenna þeim) og var næstum búin að gleyma þessu þegar ég sá áminninguna “Kata bjargar brjóstum” á símanum mínum. Var lengi að fatta hvað Kata fortíðar var að meina og gaf sjálfri mér pirringslega nótu um það að vera nákvæmari og formlegri í rímænderum framtíðarinnar. Kata nútíðar samþykkti að gera það en ljóst er að hún heyrir nú sögunni til.

En alla vega, tölum um brjóst. Ég rölti sem sagt úr HR í haustlaufunum og hugsaði eins og ég geri alltaf: Hvað er málið með Stigahlíð og aðgengi fótgangandi fólks að þessari götu? Þegar ég sá glitta í merki Krabbameinsfélagsins fór ég að pæla í því hvort mörg félög væri nefnd í höfuðið á sínum erkióvini. Einhvern veginn svona var innra samtals heilabúsins míns:

Kata1: Ætti þetta ekki frekar að heita Krabbameinsvarnarfélagið eða Ókrabbameinsfélagið?

Kata2: Ha?

Kata1: Já, ég meina er þetta ekki soldið eins og SÁÁ myndi heita Áfengis- og vímuefnafélagið?

Kata2: Djöfull geturðu verið óþolandi Kata.

Nema hvað ég fer inn í Krabbameinsfélagið. Fæ sjokk fyrir hönd fólks sem á engan pening yfir að þurfa að borga 4.400 kr. fyrir skoðunina. Jafna mig, skanna inn kvittunina (vel gert tæknivædda Krabbameinsfélag) og fer svo á einhverja innri biðstofu. Þar er móttökuborð en enginn situr við það svo ég hugsa bara: hversu flókið getur þetta verið? Sé þrjá fataklefa sem allir eru með einhverjum númerum á sem ég geri mér í hugarlund að séu fatastærðir (hef aldrei vitað í hvaða stærð ég er í neinu). Vel þann sem er í miðjunni. Þar er hægt að geyma dótið sitt í læstum skáp (er þetta ekki rosalega spennandi frásögn krakkar?) og svo verður maður að velja lit á slopp út frá stærð sem er skrifuð á vegginn (þetta reyndar kollvarpar kenningunni um að númerið á klefunum vísi í fatastærðir svo ég kalla bara hér með eftir upplýsingum um hvað þær tölur gætu mögulega túlkað). Alla vega gulur er lítill sloppur. Hvítur = stór sloppur. Og bara til að gera þetta spennandi eru bæði grænir og bleikir miðlungssloppar. Ég fer úr að ofan og skelli mér í grænan.

Kem fram en þar sitja alvarlegar eldri konur og lesa tímarit í einhvers konar miðrými. Allar í bleikum sloppum. Ég finn strax að eitthvað er skrítið. Ekki aðeins er ég eina konan sem hefur valið pastelgrænt tískuslys heldur er ég líka eina kona sem er ber undir sloppnum. Hinar líta stuttlega á mig og finn að þær eru að velta fyrir sér hvort ég sé Öskjuhlíðaflassarinn en síðan líta þær áhugalausar aftur ofan í tímaritin sín. “Ég hefði átt að bíða eftir móttökutýpunni,” hugsa ég vaklandi með símann minn í annarri hönd (hinar voru ekki með símann með sér – ég var að brjóta öll prótóköl) og reyndi að halda þessum flaksandi sloppi lokuðum með hinni. Þá kemur söguhetja þessar frásagnar skyndilega út úr einhverju skoðunarrými. Góðleg kona um sextugt með svona mamma-vinkonu-minnar andlit. Hún horfir mjög nákvæmlega í augun á mér eins og við þekkjumst og segir: “missti ég af þér elskan,” svo vinalega að ég finn umsvifalaust að þetta verður allt ok. Í stuttu máli kemur í ljós að ég var að gera allt rétt og hinar konurnar sem allar voru í fötum undir sínum sloppum að ofan voru í hreint ekki neinu að neðan (þetta gat ég hins vegar ekki séð í fyrstu þar sem þær sátu á móti hvor annarri með sín samstilltu viðbrögð).

Ég skelli mér inn í eitthvað ljósmyndarými (ps. vel gert Krabbameinsfélag að það sé engin bið) þar sem ung kona lætur mig fara í einhvers konar straujvél sem virðist hönnuð með það eitt að markmiði að gá hvort mennsk brjóst geti þjappast sama í því sem nemur þykkt eins A4 blaðs. Ég hugsa eftirfarandi hugsanir á meðan þessi kona hagræðir á mér brjóstunum og gefur mér vélræn skilaboð á borð við “taktu hliðarskref í átt frá mér og legðu hönd laust á gráa sveif”:

1. Svona hlýtur kindum oft að líða.

2. Er ekki hætta á því að þær sem séu með silíkon lendi hreinlega í því að sprengja á sér brjóstin í þessari græju?

3. Ætli henni finnist gaman í vinnunni?

4. Pottþétt verið karl sem hannaði þessar græju (æi þegiðu Kata).

5. Ætli einhver hafi leikið sér að taka myndir af öðrum líkamshlutum á vinnudjammi Krabbameinsfélagisns í þessu?

6. Verð að muna að kaupa í bleyjur og tómatsósu.

En þetta tekur fljótt af og ég er komin sigri hrósandi út eftir nokkrar mínur. Þar er móttökuvinkona mín á sínum stað við borðið og brosir til mín. Ég ætla að skottast í klefann þegar hún segir: “Heyrðu, talaðu aðeins við mig!” Ég hugsa samstundis að ég hafi gert einhver stór mistök. Hún er svona kona sem stoppar mann ekki nema það sé mikilvægt. Ég flaksa mér til hennar (er á þessum tímapunkti hætt að nenna að halda sloppnum lokuðum enda bara konur þarna og allar í sambærilega steiktum aðstæðum). Svo segir hún, mjög alvarleg á svipinn hátt og snjallt yfir alla biðstofuna: “Ég vil bara segja þér að ég er alveg sammála þér með þetta um nýju stjórnarskrána. Það er hneyksli að það sé ekki búið að virða niðurstöður þjóðaatkvæðagreiðslunnar frá 12. október 2012” (ég er svo glöð að þetta sé erindið hennar að ég nenni ekki að leiðrétta dagsetninguna, en það er 20. október krakkar mínir: never forget!). “Já, einmitt…” segi ég og ætla að bæta einhverri djúpvitri og yfirvegaðri snilld við þegar hún læsir sínu rólega og ákveðna augnaráði við mitt og rumsar svo út úr sér allri stjórnskipunarréttarsögu Íslands og spyr, án þess að draga andann svo mikið sem einu sinni, hvernig það geti verið að á 70 ár hafi okkur enn ekki tekist að framkvæma það verkefni að setja okkur ný grunnlög! Hún talar um leikreglur, fólkið, spillingu og getulausa þingmenn – svo hratt og af svo miklu öryggi að eina sem mér dettur í hug að segja þegar hún loksins stoppar er: “Heyrðu, ég er með eina gjöf handa þér.” Svo hrökklast ég og minn flaksandi tannkremsgræni sloppur inn í klefann þar sem ég finn í pokanum mínum eintak sem ég á af nýju stjórnarskránni í fallegu litlu broti með blóminu Gleym-mér-ei framan á (sjá mynd). Ég gef henni bókina og hún stekkur í fangið á mér og spyr með æstri en samt undarlega yfirvegaðri röddu: “Bíddu, lest þú hugsanir eða hvað?”. Ég fer eitthvað að tafsa um það að ég eigi hvort sem er annað eintak og við ætlum að láta prenta fleiri en fer að lokum bara í skóna og þakka henni fyrir viðkinnin.

Ég hugsa þegar ég labba út, kannski er ég kramið brjóst en þó er í því örlítið meiri von í dag en í gær.

About The Author

Safn

Share This