Ásmundur og Sverige Demokraterna

Ásmundur og Sverige Demokraterna

Í gær stýrði ég gríðarlega áhugaverðum fundi um þjóðernispópulisma sem Siðmennt stóð fyrir. Á fundinum talaði sænskur rannsóknarblaðamaður um uppgang sænsks stjórnmálaflokks sem á rætur að rekja til nasískra hugsjóna. Flokkurinn hefur farðað sig frá snoðinkollum og nú eru það sætir jakkafatagæjar með háskólagráður sem stýra flokknum og segjast þeir hafna rasisma (á mynd hér af glæru getið þið séð hvernig flokkurinn markaðssetur sig í dag með blómum í staðinn fyrir brennandi kyndlum). Flokkurinn segir að glæpir séu innflutt vandamál og vísar þannig í að innflytjendur beri ábyrgð að mestu á glæpum í Svíþjóð. Þó er það svo að um 25% meðlima flokksins sjálfs hafa verið dæmdir fyrir glæpi og afbrot, þar á meðal eru tugir kjörinna fulltrúa þessa flokks. Sú tala er mun hærri en glæpatíðni á meðal innflytjenda. Þessi sturlaða þversögn virðist ekki hafa áhrif á kjósendur, né eilífir skandalar flokksforystunnar sem daðrar við ofbeldi, kallar konur “hórur” á götum úti og syngur fylleríslög um snilldina sem hafi falist í morðinu á Olof Palme. Þessi flokkur fékk um 20% atkvæða í síðustu þingkosningum. Aðeins 5% kjósenda þessa flokks eru konur. Þrátt fyrir að vera í raun smár flokkur m.v. hin tvö stórveldin er þessi flokkur farinn að stjórna allri umræði í Svíþjóð. Með eilífum árásum á fjölmiðla hefur flokknum tekist að fara frá því að vera kallaður xenófóbískur yfir í það að vera kallaður flokkur sem er “krítískur í innflytjendamálum”. Blaðamaðurinn sagði frá því að fólk þorir almennt ekki að mæta á málþing eða tjá sig um framgöngu flokksins af ótta við ofbeldis og ofsakennd viðbrögð flokksmanna á netinu sem og utan þess. Gríðarmargar árásir á flóttamannabúðir í Svíþjóð þar sem brennd hafa verið húsnæði ætluð hælisleitendum hafa verið í kjölfar ummæla flokksforystu þessa flokks um að nú sé nóg komið og tími sé til aðgerða (sjá glæru). Enginn hefur verið sakfelldur í Svíþjóð fyrir þessar árásir.

Þið afsakið þennan langa inngang en ég finn mig knúna til að tjá mig um þetta í ljósi greinar Ásmundar Friðrikssonar, sem skipar 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ásmundur er ekki í grein sinni að hvetja til ofbeldis svo það sé sagt beint út en hann er að ala á hræðsluáróðri eins og Þórður Snær Júlíusson bendir á í meðfylgjandi grein sinni. Einhverra hluta vegna hefur samflokksfólk Ásmundar ekki stokkið fram og mótmælt þessu síendurtekna rugli í manninum og það er í raun ástæðan fyrir því að ég er að hamra hér á lyklaborðið á sunnudagsmorgni. Svona hlutir mega ekki “slæda” nema ætlunin sé að fara í atkvæðaveiðar í því feni sem útlendingahatur og fordómar eru. Í erindi stjórnmálasálfræðings á þessu sama málþingi kom fram að kjósendur Sjálfstæðisflokks eru að meðaltali hræddari við neikvæð áhrif útlendinga hér á landi en í öðrum flokkum svo það er augljós freistnivandi fólginn í því að þegja bara frekar en að taka slaginn við Ása kallinn sem fær að vera heilum tveimur sætum fyrir ofan Unni Brá Konráðsdóttur sem hefur verið einn af þeim (ekki svo mörgu) Sjálfstæðismönnum sem stendur í almennilega lappirnar í málefnum útlendinga innan flokksins að mínu mati.

Tölur sýna glögglega að fordómar gagnvart innflytjendum eru á undanhaldi á Íslandi. Fyrir það eigum við að vera þakklát, glöð og stolt. Hins vegar er jarðvegur hér fyrir þá sem vilja stilla útlendingum upp sem ógn og sjálfum sér sem bjargvætti, rétt eins og í nágrannalöndum okkar. Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að vera farartæki fyrir þessar skoðanir ætti hann að gera það grímulaust. Ef ekki þarf að mótmæla svona fullyrðingum af fullum hálsi. Eina sem mér skilst að fólk innan flokksins hafi sagt er að rétt væri að strika kallinn út auk þess sem Áslaug Arna sagði að þetta væri ekki stefna flokksins (really?).

Ég á nokkra fésbókarvini sem eru í framboði fyrir þennan flokk og mér finnst að þeir hefðu átt að vera búnir að tjá sig um málið en ég finn ekkert á þeirra síðum svo ég leyfi mér að tagga þau hér með von um að þau taki afstöðu gegn þessu því við getum, í alvöru, haldið þessu landi málefnalega hvað varðar útlendingamál held ég. Kæru Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadottir, Hildur Sverrisdóttir, Birgir Ármannsson og Katrín Atladóttir hver er ykkar afstaða til greinar Ásmundar Friðrikssonar?

https://kjarninn.is/…/2017-10-14-hver-aetlar-ad-bera-abyrg…/

About The Author

Safn

Share This