
Björgum Bjarna Benediktssyni!

Björgum Bjarna Benediktssyni!
Í nýju viðtali við bresku fréttastofu Sky News segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra Íslands að það sé einungis tímaspursmál hvenær önnur fjármálakreppa ríður yfir. „Mannfólk gerir mistök og græðgi mun verða til þess að fólk taki slæmar ákvarðanir – það mun gerast aftur,“ segir hann.
Þessi vitneskja er afar slæmar fréttir fyrir skipstjóra þjóðarskútunnar. Hann hlýtur að þurfa að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að afstýra þessari fyrirsjáanlegu vá sem hann hefur bent á að sé til staðar. Það er jú starfið hans að stýra okkur í höfn með sem farsælustum hætti.
Ekki langar mig persónulega að horfa upp á það að Bjarni Benediktsson sé dreginn til ráðherraábyrgðar fyrir aðgerðarleysi sitt (hér má rifja upp mál Landsdóms gegn Geir Haarde). Ég held að slíkt hafi ekki góð áhrif fyrir samfélagið okkar í heild. Því legg ég til að í staðinn fyrir að horfa upp á endurtekið efni við næsta hrun, sem æðsti ráðamaður þjóðarinnar fullyrðir að vofi yfir okkur, þá breytum við vegferðinni á okkar ágætu skútu.
Það eru ótal lausnir til að stýra út úr þessu blessaða óveðri. En eitt er víst að sé tilgáta forsætisráðherra sönn um að það sé græðgi mannfólksins sem verði okkar að falli er eins gott að við minnkum möguleg áhrif hennar á okkar sameiginlegu kerfi. Á grundvelli kenningar Bjarna má til dæmis fullyrða að einkavæðing heilbrigðiskerfisins sé mjög slæm hugmynd. Hverfum frá því. Við skulum líka skoða framtíðarlausnir á borð við borgaraarð (mun betra orð en borgaralaun) af fullri alvöru. Við verðum að lögfesta nýja stjórnarskrá sem var einmitt tilraun til að koma í veg fyrir að sömu mistök yrðu endurtekin. Þar eru fjölmargar reglur sem sjá til þess að samfélagið okkar verði heilbrigðara og áhætta minnki.
Lausnir við vanda Bjarna (og þar með okkar allra) eru sem sagt fjölmargar og þær eru í sjónmáli. Eitt er víst að kapítalisminn er ekki gott meðal við þessu stórviðri sem Bjarni varar við því þar er græðginni einmitt markvisst gefinn laus taumurinn.
Ég er hef engan áhuga á að hatast við þá sem ég er ósammála um í pólitík. Ég held að sem dýrategund höfum við einfaldelga ekki lengur tíma í allt þetta innihaldslausa og persónulega þjark. Því legg ég til að við leggjumst öll á eitt við að bjarga Bjarna Benediktsson, sem sannarlega er ábyrgur fyrir því að koma í veg fyrir annað hrun á Íslandi, með því að leggja fram allar hugmyndir sem við kunnum að eiga um hvernig breyta megi samfélaginu til hins betra og stöðva þennan spíral sem hann lýsir í viðtalinu. Tölum saman, tengjust og breytum hugmyndum í verk.
Það er nefnilega ekki óhjákvæmilegt að sagan endurtaki sig. Við erum sagan.
#nýstjórnarskrá