
Sögustund “ömmu Kötu”

Af spjallþræði kvenna fyrir nýja stjórnarskrá – byrt til að skýra af hverju ákallið er til kvenna. (varúð langloka)
Árið er 1851 og þarna hafði sjálfstæðishetjan Jón Sigurðsson forystu í níu manna nefnd sem fjallaði um tillögu að nýjum Grunnlögum. Ný stjórnskipunarlög áttu að gilda á Íslandi eins og í Danmörku þegar stjórnskipan konungsríkisins breyttist árið 1848.
Nefnd Jóns Sigurðssonar gerði athugasemd við að mikill hluti laganna ættu alls ekki við á Íslandi og það yrði óvissa um að hve miklu leyti þeim ætti að fylgja. En álit nefndarinnar lýsir einnig sýn nefndarmanna á hlutverk og stöðu stjórnarskrár Íslands. Þar segir orðrétt í nefndarálitinu:
“það yrði þannig einlæg óvissa um, að hve miklu leyti [lögunum] eigi að fylgja, en slík óvissa er öldungis óhæfileg í hverju lagaboði sem er, hvort það er heldur skoðað í tilliti til skyldna eða réttinda, en þó allra óviðurkvæmilegust í grundvallarlögum, sem af öllum mannlegum lögum eru hin mest umvarðandi, af því þau eiga að tryggja hin æðstu réttindi manna, og sem þess vegna þurfa að geta fest rætur hjá þjóðinni, og áunnið ást og virðingu hennar;”.
Jón Sigurðsson og nefndarmenn hans segja sem sagt að Grundvallarlögin þurfa að festa rætur hjá þjóðinni og öðlast ást og virðingu hennar.
Ég hef ekki marga hitt sem elska heitt okkar núgildandi stjórnarskrá þó efalaust séu þeir fleiri sem beri fyrir henni virðingu, eins og vera ber þegar grunnlög eru annars vegar.
Hvað varðar einlæga stjórnarskrárást dettur mani kannski helst í hug Bandaríkin. Sú stjórnarskrá var einmitt samin á svipað löngum tíma og Stjórnlagaráð hafði og samþykkt með naumum meiri hluta. Þá var hún í raun sett í trássi við gildandi lög en engu að síður hefur hún fest kyrfilegar rætur í þjóðarsálinni, hvar hún nýtur virðingar og, ég leyfi mér að segja, ástar borgaranna. Hún er sannarlega og óumdeilanlega þeirra eigin stjórnararskrá.
Undir þessa skoðun Jóns Sigurðssonar og félaga hefur efalaust tekið Benedikt Sveinsson sem var Alþingismaður á síðari hluta 19. aldar og eyddi nánast allri starfsævi sinni sem þingmaður í baráttu fyrir nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland án árangurs. Þó naut hann liðsinnis Einars Benediktssonar sem gekk svo langt í að bakka pabba sinn upp að hann stofnaði fyrsta dagblaðið hér á landi til að koma þessum skilaboðum á framfæri.
Benedikt Sveinsson sagði í þingræðu sumarið 1895:
“… líf mitt, skynsemi mín og vilji er samvaxinn þessu máli, stjórnarskipunarmáli Íslands. Ég get ekki slitið huga minn frá því…”. (#TENGI)
En, hvað sem því líður… þá dugði öll þessi þráhyggja og eljusemi Benedikts og fjölskyldu ekki til, og þeir sem vildu fara þá praktísku leið að ná aðskilnaði frá Dönum með bráðabirgðastjórnarskrá sem skyldi endurskoðast síðar höfðu betur. Það kann að hafa verið gæfuspor hvað sjálfstæðismálið varðar.
Þjóðaratkvæðagreiðslan um nýja stjórnarskrá 1944 var haldin samhliða atkvæðagreiðslu um niðurfellingu sambandslaganna frá 1918, þ.e. um stofnun lýðveldis. Það þótti nánast þegnskylda að styðja bæði málin en einhugur var meðal allra flokka að stjórnarskráin skyldi endurskoðuð við fyrsta tækifæri. Þetta er skýringin á 98% kosningaþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslunni 1944 og stuðningi 98% kjósenda við lýðveldisstjórnarskrána.
Nýsköpunarstjórn allra þingflokka nema
Framsóknarflokksins undir forsæti Ólafs Thors formanns Sjálfstæðisflokksins var mynduð haustið 1944 og lofaði nýrri stjórnarskrá „eigi síðar en síðari hluta næsta vetrar“, þ.e. eigi síðar en vorið 1946. Það heppnaðist ekki.
Fyrsti forseti lýðveldisins, Sveinn Björnsson, lág ekki á skoðun sinni hvað þetta varðar.
Í nýársávarpi sínu til þjóðarinnar 1949 sagði hann:
„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins, rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurftum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér því ennþá við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld. … Vonandi dregst eigi lengi úr þessu að setja nýja stjórnarskrá.“
… If you only knew, minn kæri Sveinn.
Og nú leyfi ég mér að spóla hratt yfir næstu 5-6 áratugi sem liðu án þess að tækist að setja Íslandi nýja stjórnarskrá. Ýmsar tilraunir og fjölmargar fagrar yfirlýsingar nægðu einfaldlega ekki til að ná þessu skýra markmiði. Einhverjar breytingar voru gerðar en engin heildarendurskoðun. Ísland fékk ekki sína stjórnarskrá.
Þá erum við loksins komin í samtímann þar sem mér líður best.
Í maí 2017 flutti frú Vigdís Finnbogadóttir erindi fyrir ráðstefnu í Berkeley háskóla um lýðræðismál á Íslandi þar sem hún sagði meðal annars (í þýðingu):
“Árið 2008 steig Alþingi verulega merkilegt skref sem átti að verða til þess að draumurinn um nýja stjórnarskrá rættist loksins. Þá hófst víðfeðmasta og lýðræðislegasta starf að stjórnarskrárritun sem sagan kann frá að greina, og hefur vitaskuld vakið athygli um víða veröld. Stjórnlagaráð var kjörið með lýðræðislegum hætti svo þar fengju ólík öfl í íslensku samfélagi hvert sína rödd, og hin nýja stjórnarskrá var síðan samþykkt einum rómi. Þar að auki sýndi þjóðaratkvæðagreiðslasíðan fram á að íslenskir kjósendur vildu að hin nýja stjórnarskrá yrði tekin upp. En það hefur þó ekki verið gert enn. Að mínum dómi hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi”.
Í ræðunni sem núverandi forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson flutti við þingsetningu 12. september 2017, talaði hann um hve óskýr ákvæðin um ábyrgð og skyldur forsetans eru í gildandi stjórnarskrá. Forsetinn okkar tók sterklega til orða þegar hann talaði um stjórnarskrána og sagði:
“Við óbreytt ástand verður ekki unað. Eftir óbreyttu verklagi verður ekki unnið.”
Við þingsetningu nú síðast sagði Guðni að það væri Alþingi til vansa ef þingið gæti ekki fjallað efnislega um stjórnarskrárbreytingar og átti þar vonandi við nýju stjórnarskrána líka.
Allar þessar tilvísanir mínar í fólkið sem hefur unnið fyrir þjóðina á ýmsum tímum eru bara til þess að sýna fram á að við erum stödd á vegferð sem hefur skýran áfangastað sem við höfum þó enn ekki náð.
Staðreyndin er sú að baráttu okkar fyrir sjálfstæði sem þjóð lýkur raunverulega ekki fyrr en við höfum getað sett okkur okkar eigin grundvallarlög en til þess þurfum við hugrekki.
Nú höfum við að minnsta kosti tækifæri til þess að láta í okkur heyra og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.
Ég hef árum saman hugsað, en sjaldan leyft mér að segja það upphátt, að það yrðu að lokum konur á Íslandi sem myndu sjá til þess að nýja stjórnarskráin tæki hér gildi. Rétt eins og það var fyrsti kvenforsætisráðherra landsins sem kom af stað ferlinu sem ól af sér nýju stjórnarskrána og hefur víða verið nefnt lýðræðislegasta stjórnarskrárferli á heimsvísu.
Við erum vissulega öll í þessari baráttu saman af hvaða kyni við erum, en Ingibjörg Haraldsdóttir hafði þó sitthvað til síns máls þegar hún orti þetta ljóð:
Kona
Þegar allt hefur verið sagt
þegar vandamál heimsins eru
vegin metin og útkljáð
þegar augu hafa mæst
og hendur verið þrýstar
í alvöru augnabliksins
– kemur alltaf einhver kona
að taka af borðinu
sópa gólfið og opna gluggana
til að hleypa vindlareyknum út.
Það bregst ekki.
Nýja stjórnarskráin er tilraun til að reisa nýtt samfélag úr þeim rústum sem efnahagshrunið skyldi okkur eftir í.
Hún er líka hluti af því að þjóðin verði raunverulega sjálfstæð og fullvalda. Með úrelt dönsk grunnlög erum við það einfaldlega ekki, og hvað þá ef okkar eiginn löggjafinn stendur í vegi fyrir staðfestum vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í þjóðaratkvæðagreiðslu!