Opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur

Opið bréf til                 Katrínar Jakobsdóttur

Sæl Katrín.
Ástæða þess að ég skrifa þér er ummæli þín í kvöld­fréttum Stöðvar 2, þann 11. maí síð­ast­lið­inn. Í umræddri frétt var fjallað um það að nú hafa tvær til­lögur að nýjum stjórn­ar­skrár­greinum verið settar í svo­kall­aða Sam­ráðs­gátt. Um þessar til­lögur ætla ég ekki að fjalla hér heldur orð þín í lok frétt­ar­innar þar sem þú sagð­ir: „Á meðan þingið er stjórn­ar­skrár­gjaf­inn í þessu landi, þá er mik­il­vægt að þingið nái sem bestri sam­stöðu um breyt­ingar á stjórn­ar­skrá“.
Við­vör­un­ar­ljós hafa blikkað í hausnum á mér frá því ég heyrði þig segja þetta og ég hef satt að segja varið síð­ustu sól­ar­hringum að nokkru leyti í það að skoða frétta­miðla og fés­bók­ar­síður í þeirri von að þetta hafi verið mis­mæli sem þú hafir ákveðið að leið­rétta um leið og þú átt­aðir þig á þeim. Sú von hefur enn ekki ræst, og þetta bréf er því loka­til­raun mín til að ná þeim ham­ingju­endi.
Ég veit að þú ert upp­tekin svo ég ætla að koma mér að efn­inu strax: Nei, kæra Katrín. Þingið er ekki stjórn­ar­skrár­gjaf­inn. Það er þjóðin sem er stjórn­ar­skrár­gjaf­inn. Í ljósi þess að engin leið­rétt­ing hefur borist, hef ég af því hyl­djúpar áhyggjur að í ummæl­unum krist­all­ist sá skýri vandi sem stendur Íslend­ingum fyrir þrifum varð­andi það að eign­ast sína eigin stjórn­ar­skrá.
Auð­vitað er það óum­deilt að gild­andi stjórn­ar­skrá verður ekki breytt nema með því að Alþingi sam­þykki breyt­ingar tvisvar og með almennum þing­kosn­ingum á milli. Það er hins vegar önnur óum­deild stjórn­skipu­leg stað­reynd að þjóðin sjálf er stjórn­ar­skrár­gjaf­inn enda stafar allt vald, sem þið opin­berir starfs­menn hafið hverju sinni, frá þjóð­inni. Þessi stað­reynd er grund­vall­arund­ir­staða lýð­ræð­is­skipu­lags­ins.
Stjórn­ar­skrá er ólík öðrum lögum að því leyti að hún er sjálfur sam­fé­lags­sátt­mál­inn. Grund­vall­ar­lög þjóðar sem, í krafti full­veldis síns, rammar inn heim­ild til beit­ingar rík­is­valds, verka­skipt­ingu á milli vald­hafa og síð­ast en ekki síst um mörk valds­ins. Það er á þessum for­sendum sem stjórn­ar­skrá verður ekki breytt með sama hætti og almennum lög­um. Það er einnig á þessum for­sendum sem það liggur ljóst fyrir að vald­hafar hverju sinni eru van­hæfir til að fjalla um mörk og með­ferð valds­ins sem þeir fara sjálfir með.
Ég lof­aði að hafa þetta stutt svo ég ætla að hnykkja á máli mínu með tveimur stuttum til­vís­un­um. Sú fyrri er úr bók Bjargar Thoraren­sen, pró­fess­ors í stjórn­skip­un­ar­rétti við laga­deild Háskóla Íslands:
„Hug­myndin um beint lýð­ræði teng­ist öðrum und­ir­stöðum stjórn­skip­un­ar­inn­ar, einkum sjálfs­á­kvörð­un­ar­rétti þjóð­ar­inn­ar. Með því er við­ur­kennt að þótt stjórn­skip­unin sé reist á full­trúa­lýð­ræði skuli þjóðin taka beina og milli­liða­lausa afstöðu til til­tek­inna mála, sem lúta að mik­il­vægum hags­munum eða um ákveðin mál, svo sem stjórn­ar­skrár­breyt­ing­ar,enda sé þjóðin sjálf stjórn­ar­skrár­gjaf­inn.“ [áherslu­breyt­ingar mín­ar]
Síð­ari til­vís­unin er í orð Ragn­ars Aðal­steins­sonar sem er reynslu­mesti starf­andi lög­maður hér á landi. Ragnar er sér­fróður um mann­rétt­indi og stjórn­skipun og sagði í tengslum við umræðu um orð þín í þessum frétta­tíma:
„Það ætlar að ganga illa að útskýra fyrir meiri­hlut­anum á Alþingi að eitt af hlut­verkum stjórn­ar­skrár er að skil­greina það vald sem lands­menn fram­selja vald­höf­un­um. Vald­haf­arnir skil­greina ekki það vald. Lands­menn hafa ekki fram­selt Alþingi valdið til að setja land­inu stjórn­ar­skrá. Lítt dugir að skír­skota sífellt til hinnar kon­ung­legu stjórn­ar­skrár frá 1874.“
Frá lýð­veld­is­stofnun hefur þjóðin aðeins einu sinni verið spurð með beinum hætti um afstöðu sína til stjórn­ar­skrár. Það var í þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu árið 2012 þegar 2/3 kjós­enda sögðu að leggja ætti til­lögur stjórn­laga­ráðs til grund­vallar frum­varpi að nýrri stjórn­ar­skrá fyrir Ísland. Þessi þjóð­ar­at­kvæða­greiðsla var sú átt­unda í sögu okkar þjóðar og sú eina sem hefur verið hunsuð af vald­höf­um.
Nú er kom­inn tími til efnda. Þjóðin er stjórn­ar­skrár­gjaf­inn en ekki þing­ið, og þjóðin hefur tal­að. Lög­fest­ing nýju stjórn­ar­skrár­innar er frið­sæl aðferð til að auka heill og ham­ingju þess­arar þjóðar og við þess­ari grund­vall­ar­kröfu þjóð­ar­innar ber þing­inu skylda til að bregð­ast með því að leggja hana til grund­vallar fyrir stjórn­ar­skrá Íslands.
Mér þykir mikið til þín koma sem mann­eskju. Þess vegna trúi ég því að leiðin sem þú hefur valið í stjórn­ar­skrár­mál­inu sé sú sem þú telur heppi­leg­asta til þess að ná fram ein­hverjum afmörk­uðum stjórn­ar­skrár­breyt­ing­um, á þessu kjör­tíma­bili með von um það að starf­inu verði haldið áfram á því næsta. En ég vil nota það tæki­færi sem hér gefst til að biðja þig að breyta af þess­ari leið. Sagan hefur sýnt að Alþingi er ófært um heild­ar­end­ur­skoðun á stjórn­ar­skrá lands­ins auk þess sem for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins hefur lýst því yfir að hann telji slíka heild­ar­end­ur­skoðun óþarfa. Í öllum flokkum er fólk sem vill fá nýja stjórn­ar­skrá og skoð­ana­kann­anir sýna að meiri hluti þjóð­ar­innar telur mik­il­vægt að fá nýja stjórn­ar­skrá sem fyrst. Við getum ekki lengur búið við það að stjórn­mála­flokkar sem hafa ekki meiri­hluta þjóð­ar­innar á bak við sig komi í veg fyrir það að nið­ur­stöður þjóð­ar­at­kvæða­greiðslu nái fram að ganga.
Því segi ég í ein­lægni: Láttu slag standa Kata og leyfðu kjós­endum í það minnsta að sjá hvaða þing­menn það eru sem munu greiða atkvæði gegn lög­fest­ingu nýju stjórn­ar­skrár­inn­ar, og þar með gegn því að þjóðin fái vilja sínum fram­gengt sem stjórn­ar­skrár­gjafi.

Katrín Oddsdóttir

About The Author

Safn

Share This