Bréf til Maríu K

Bréf til Maríu K

Sæl María

Útaf orðskipum okkar áðan langar mig að gera þér aðeins betur grein fyrir hvaðan ég er að koma. Þetta er ekkert sem á  heima í almennu veggþrasi, en mig langar til að segja þér aðeins frá því.

Ég er kominn á þann stað að ég lít bara  á stjórnmálaflokka sem nausynlegt illt (nessessary evil). 

Til að gefa skýringu hér örstutta, þá eru flokkastjórnmálin zero-sum game – þar er eins dauði annars brauð. Til þess að ég fái atkvæði konu, þarf viðkomandi að láta vera að kjósa þig eða þ-flokkinn. Altso þarf ég að hrósa sjálfum mér einsog grobbinn sjóari og níða þig og útmála heimsku þína og illvilja til að ég verði kosinn. Hvert atkvæði fer bara á einn stað.

Það er margt gott fólk í stjórnmálum, bæði hjartahreint og vel gefið í alla staði. Ég tek aldrei þátt í að hrauna yfir stjórnmálafólk almennt.  Vandinn er fullkomlega kerfislægur, skilgetið afkvæmi þess sem er DNA þessa fyrirkomulags. Nefnilega núll-summu leiksins.

Áður fyrr var samfélagið ekki nánda nærri því eins flókið og hagsmunahóparnir teiknuðu sig skýrar (verkamenn, bændur, borgarar osfv) Þá lifðu margir við smánarleg kjör og þeir voru sterkir í krafti fjölda síns og náðu hægt og hægt betri kjörum. Á þeim tíma voru stjórnmálaflokkar rétta verkfærið til að færa samfélagið inn í það sem við nú köllum samtímann. Nú eru 80% kjósenda þeir sem allir flokkar eru að reyna að ná til. Og ágreiningsmálin margfalt fleiri og flóknari við að eiga.

En nýtt fyrirkomulag er ekki falið í uppskrifum eða patentlausnum sem ég eða aðrir geta skrifað upp eða uppá – það verður að fá að vaxa fram og muna gera það. Eftir 10-15 ár hafa orðið miklar breytingar og eftir 30 ár höfum við kerfi sem okkur báðum þætti framandi ef við fengjum að sjá það núna.

Þannig að þangaðtil þurfum við að gera það besta úr stöðunni. Og hnika hlutum áfram. Þessvegna hef ég áhuga á að fá nýja stjórnarskrá sem eykur ma. gagnsæi og gefur kjósandanum rétt til að ráðskast með atkvæði sitt á hátt sem ekki hefur verið mögulegt.

Það mat sem ég legg á flokka er eingöngu fólgið í hvaða málum þeir berjast af einlægni fyrir frekar en hvað þeir segja. Því fagurgali kostar ekkert. Og einsog þú er ég rækilega vinstramegin. Það sem skiptir mig máli er hvað gert verður í málefnum eldri borgara (við getum ekki unnið án þess að missa lífeyrinn) og fatlaðra og láglaunafólks. Öryggisnetið sem nágrannar okkar hafa er ekki eins þéttriðið hér og börn alast upp í fátækt og fullorðnir í næringarskorti. Auðlindirnar og hvar arðurinn af þeim lendir, það skiptir mig höfuðmáli. Framkoma við fólk sem má sín minna yfirleitt, hvort sem það er af erlendu bergi brotið eða innlendu.

Krítik mín á orð KJ um að hægt sé að ræða stjórnarskrármálin á nótum BB fjalla ekkert um samanburð milli VG og Samfó. Ef ég nefni flokkinn, þá er það einskonar “shaming” ég vil að fólk sé neytt til að horfast í augu við eigin verk.

Og sannarlega er það þannig að ef KJ kemur til móts við mig eftir kosningar um þau tvö mál sem ég nefndi við þig – ný stjórnarskrá og ekki-vinna-með-D – sem hvort tveggja ættu að vera gallhörð baráttumál VG – ef hún lýsir yfir fyrir kosningar afdráttarlausri afstöðu um þau þá lofa ég þér að kjósa VG núna í kosningunum.

Lifðu svo ævinlega heil.

L

About The Author

Director film, tv, theatre active in Sweden and Iceland Consultant, facilitator

Safn

Share This