Fyrst tæknilegan grunn

Fyrst tæknilegan grunn

Nauðsynlegt er að læra handtökin, sveifluna og það allt og að æfa það nóg til að maður geti hitt boltann vel og örugglega. Gott ráð til allra sem vilja byrja að spila golf er að fara sem fyrst til kennara og læra hjá honum réttu handtökin, því mikil armæða getur skapast af að venja sig á slæma siði í upphafi, sem síðan tekur tíma og erfiði að venja sig af til að ná góðum árangri.
Vangaveltur um huglæga hlutann í golfi, koma ekki mikið til skjalanna fyrr en þessi grunnur er afgreiddur, það er að maður sé fær um að hitta boltann – hafi grundvallartækni á valdi sínu og sé farinn að spila uppá gott skor úti á velli.

Til að ná stjórn á fínlegustu aðgerðum líkamans, þá þarf maður að ná stjórn á huganum.

Æ meiri athygli er beint að andlegu hliðinni, ekki síst meðal keppniskylfinga og atvinnumanna. Flestir, sem byrja að spila golf að ráði taka fljótlega eftir því að góðu dagarnir á golfvellinum og þeir slöku fara ekki eftir líkamlegu ástandi, heldur ræðst dagsformið af einhveju, sem þeir fá ekki hönd á fest. Þar ræður hugarástand sem er hægara sagt en gert að stjórna.

Spenna heftir hreyfanleika. Andleg spenna skapar líkamlega spennu.

Til að ná sterkum tökum á huglægri hlið golfsins (og ótal mörgu öðru í lífinu) þurfum við að vinna með og stjórna vitund okkar. Fæstir kunna það og menn hafa mismunandi hæfileika til að læra það, en það er hægt að læra það. Þarna standa til boða gríðarlega öflug tól sem geta bætt golfið þitt meira en þig grunar og gert yðkun golfsins mikið ánægjulegri.

Sumir segja: “þegar ég er bara búinn að ná sveiflunni pottþéttri, þá fer ég í að ná öllu hinu, með hugann og svoleiðis” Sannleikurinn er sá að þú nærð sveiflunni aldrei pottþéttri. Og þú sveiflan verði frábær nýtist hún ekki nema að þú getir stjórnað “öllu hinu” líka.

Það huglæga skiptir augljóslega mestu máli þegar maður er að keppa og vill umfram allt ná miklum og góðum árangri. Þegar golfleikari er kominn á þann stað að hann sé að keppa þannig að eitthvað sé undir, er hann augljóslega búinn að koma sér upp sveiflu, sem er hans eigin. Hann nær bestum árangri þegar hausinn á honum eða henni er ekki að þvælast fyrir og trufla getu líkamans til að slá. Allir sem hafa verið í “stuði” eða “in the zone” einsog sagt er á erlendu máli, vita að þá er maður ekki að hugsa og velta hlutum fyrir sér. Þá er einfalt að slá og líkaminn sér meira og minna um það sjálfur, eftir að golfarinn er búinn að ákveða hvað það er sem hann vill gera.

About The Author

Director film, tv, theatre active in Sweden and Iceland Consultant, facilitator

Safn

Share This