
Nýtt samfélag…

Það stjórnarfar sem er ríkjandi í okkar heimshluta er um það bil 150 ára gamalt og þjónar ekki lengur nýju samfélagi. Útum allt er vanvirknin og vantraustið til vitnis um þetta.
Það er ekki einhver heimspekileg æfing að leita að stjórnarfari sem hentar í nútímanum og getur tekist á við hann og það sem honum fylgir.
Nú er ástandið þannig að flestar stjórnir ríkja skortir alla getu til að gera nokkuð annað en bregðast á meira eða minna handahófskenndan hátt við því sem uppá kemur frá degi til dags.
Sú meinta snilld í fjármálavafstri sem var saman komin í Bandaríkjunum olli fjármálakreppunni miklu og þó fjármálafólkið næði að koma sjálfu sér að hluta útúr skelfingunum, þá þá lagði hún líf margra í rúst og olli gríðarlegri mannlegri þjáningu í formi þess að fólk missti allt sitt, hraktist frá lífsbjörg sinni og missti vonina um að nokkurntíma kæmu betri dagar. Jafnvel evrópsk velferðarríki löskuðust varanlega þó þau væru ekki í miðju atburðarásarinnar, nægir þar að nefna Grikkland og Spán sem lentu í fjöldaatvinnuleysi og lamandi niðurskurði velferðar þannig að fjöldi fólks neyddist til að betla á götunum og éta úr ruslatunnum.
Við verðum að finna nýja aðferð til að halda utanum okkar sameiginlegu mál sem samfélag.
Hana er ekki að finna með því að búa til kerfi einsog kommúnisma eða eða markaðsdýrkun nýfrjálshyggjunnar. Þessi aðferð mun spretta fram og við munum þekkja hana þegar hún birtist. Þangaðtil þufum við “bara” að haga okkur af mannúð og skynsemi.