
Um alternatora, greiðvikni og fleira.

Það væri rangt að segja að við ættum traustan bíl. Hins vegar eigum við mjög góðan bíl. Ford Escape heitir hann og er jeppi fastur í líkama stórs fjölskyldubíls. Hann er kominn á þann stað í lífinu að í hverjum mánuði fylgja honum óvænt útgjöld. Nú síðast var ljóst að alternatorinn væri bilaður og það lýsir sér í því að það er algerlega ófyrirséð hvort hann fer í gang þegar lyklinum í snúið. Fyrir barnaspilafíkil eins og mig er þetta náttúrlega bara hreinræktuð skemmtun (ég elska líka að sjá hvað ég kemst langt á bensínljósinu, konan mín deilir þessu áhugamáli ekki.). En já alternatorinn er búinn að vera bilaður í nokkra mánuði svo að við höfum lent í ýmsu. Ég var búin að fá upplýsingar um að Rafstilling væri ódýrasta fyrirtækið til að græja þetta mál. Nokkrum sinnum var ég búin að boða koma mína með bílinn en þá var hann alltaf svo viljugur eitthvað að ég ímyndaði mér að honum væri sennilegast bara batnað (halló Gamblers Anonomous).
En síðan kom mjög ógeðsleg dauðastuna úr honum um daginn og þá var ljóst að lengur yrði ekki beðið. Ég fór með hann þarna upp í duggu-hvað-þetta-holtagarða-heitir og skyldi hann eftir einmana á planinu og fór svo til útlanda. Það var alltaf eitthvað svo huggulegt að tala við manninn í Rafstillingu í símann. Hann var alltaf þolinmóður og föðurlegur þegar við töluðum saman um að ég kæmi með bílinn sem ég svo ekki gerði.
Alla vega svo fór ég til Edinborgar að tala um stjórnarskrána og Kristín var áfram úti svo ég fattaði við lendingu á KEF um kl. 13:30 á föstudaginn að ég væri bíllaus grasekkja. Í venjulegu árferði er það svo sem ok en ekki í snjó. Þá verður maður að vera frjáls til ferða.
Svo ég hringi í Rafstillingu og lendi á manninum með góðlegu röddina. Hann segir að bíllinn sé tilbúinn. Ég gleðst og spyr hvenær þeir loki svo ég geti sótt hann en þá kemur í ljós að það lokar á föstudögum klukkan 14! “Ónei,” segi ég og spyr hvort ég megi millifæra og sækja hann um helgina.
Hlýleg karlarödd í símann: “Sagðistu vera á Keflavíkurflugvelli?”
Kata: “Jamm”.
Karl: “Ef þú kaupir handa mér rauðan M&M skal ég bíða eftir þér til klukkan þrjú”.
Kata: “JESSS”.
Svo kemur auðvitað langur tími sem fer ofaní hið ógeðfellda svarthol sem rútusamgöngur frá Keflavíkurflugvelli eru. Ég næ að virkja hægra og vinstra heilahvel, litla heila, heiladingul, framheilann og brjóstvitið og tek Gray-line sem stoppar einmitt í Holtagörðum (í alvöru, þið skuldið mér aðdáendapóst fyrir að fatta þetta frekar en að fara á BSÍ). En rútan er ógeððððzlega lengi af stað og þegar klukkan er að verða 15 er ég ekki einu sinni komin í Hafnarfjörð. Fyrirséð er einnig að ég með allan minn farangur þarf að fá leigubíl frá Holtagörðum og að verkstæðinu. Þá hringi ég í Rafstillingarmanninn til að segja honum að ég sé sein og líka því mig langaði að prófa að spyrja hann hvort hann myndi nenna að sækja mig ef ég myndi splæsa á hann TVEIMUR M&M pokum (keypti tvo um leið og ég áttaði mig á að þetta væri undirheimagjaldeyrir bifvélaverkstæða). Þegar hann svaraði þá sagði ég honum aum að ég væri ennþá á leiðinni og baðst afsökunar en þá spurði hann (að fyrra bragði athugið!) hvort hann ætti ekki bara að sækja mig því sjálfur þyrfti hann aðeins að snattast. Ég fékk tilvistarfullnægingu yfir að maðurinn væri svona góður og læsi hugsanir mínar með slíkri næmni.
Þegar ég kom að Holtagörðum þurftu allir túristarnir að fara úr rútunni til að skipta í litlar og þá höfðu bílstjórarnir safnast saman með rútukálfana á einhverju plani. Þeir byrjuð að kasta snjóboltum í rúðuna á okkar rútu og mjög alvörugefinn bílstjórinn breyttist í 8 ára strák og hlóg svo fallega að allir í rútunni komumst samstundis í gott skap.
Minn maður beið mjög glaðlegur og stór bangsi á grænum jeppa og það fyrsta sem hann sagði þegar ég steig upp í bílinn.
Karl: “Ég vissi það!”
Kata: “Hæ, vissir hvað?”
Karl: “Að þetta værir þú. Hver ertu annars?”
Þetta var augljóslega byrjun á mjög farsælum samskiptum. Við bonduðum samstundis og töluðum um hvað fólk í sveitum væri upp til hópa greiðvikið (hann er að norðan) og hvernig samfélög byggðust í raun á þessum aukaverkum sem fólk gerði fyrir hvort annað án skyldu. Síðan töluðum við áhyggjufull um ríkisstjórnamyndanir og nýju stjórnarskrána sem hann tilkynnti mér glaður að hann hefði kosið með þrátt fyrir að hún tæki ekki á þeirri óréttlátu skattpíningu sem fælist í því að þungaskattur á bíla væri helmingi hærri en auðlegðaskattur á sjávarútveginn (!?!). Ég gaf honum kippu af jólabjór og hann gaf mér smá afslátt og bæði vorum við eitthvað svo kát með hvort annað.
Síðan sagði hann þegar ég var búin að borga að nú væri bara eitt eftir. Hvað? Spurði ég. Þá sagði hann: “nú, kossinn!” og hló með öllu andlitinu. Þetta hefði getað verið perraleg tillaga en hann var ekki þannig gaur og ég var sjálf í miklu stuði fyrir þennan lokahnykk á okkar góðu kynnum svo ég fleygði mér um hálsinn á honum og hékk á honum eins og hálsbindi í smá stund (hann er sem sagt mjög stór og mikill).
Þessi lýsing er sennilega svona 700 orð sem hefði mátt þjappa saman í eftirfarandi setningu: “Rafstilling er næs verkstæði”.