
Lögmál nægtahornsins

Í nútímanum eru nógar upplýsingar til að styðja hvaða röksemdafærslu og málflutning sem er sem þú kynnir að vilja styðja eða halda á lofti hvað ástæðu sem þú svo kynnir að hafa fyrir að gera það. (frá Leszek Kołakowski)
Ein afleiðing af þessu lögmáli nægtahornsins (að allir geti fundið haldgóð rök fyrir nánast hverju sem er) er að skoðun manns segir meira um hann sjálfan en um heiminn. Það segir sem sagt meira um okkur sjálf en ytra ástand hlutanna í heiminum hvað við teljum vera hið raunverulega ástand, hvað við höldum fram að sé satt og rétt. Sennilega er röðin sú að fyrst ákveður þú hvað er þín skoðun og svo finnurðu þessi líka fínu rök fyrir að hún standist algerlega.
Þannig finna bjarsýnismenn sér vongóðar skoðanir og svartsýnismenn sukka í bölmóði um tilveruna. Hjartahlýtt fólk og samúðarfullt er líklegra til að hafa skoðanir um samfélag sem fela í sér samhjálp manna hvern við annan og þeir sem hugsa mest um sjálfan sig og eigin hag finna sterk rök fyrir rétti hins sterka til að drottna yfir þeim sem minna má sín, efnahagslega og á annan hátt. Og hver og einn getur stutt skoðun sína gildum rökum í þessari ofgnótt upplýsinga sem benda í allar áttir.
Þarmeð eru það ekki rökin og þau sannleikskorn sem hægt er að hlaða bak við skoðunina, sem skipta máli, heldur hjartalagið.
Þetta hefur reyndar alltaf verið svona, núna höfum við bara google til að leita að “okkar” staðreyndum.