
Er hamingjan málið?

Er hamingjan málið?
Þar sem enginn virðist geta orðið hamingjusamur, getur hamingjan ekki verið til sem ástand (bara sem hugmynd) og því hlýtur tilgangurinn með lífinu að vera annar en að verða hamingjusamur. (Hér erum við að tala um hluti sem skynsemin er ekki sérlega nösk á.)
Það sem stýrir gerðum okkar er leit að hamingju (sem ekki er til). Er þá allt okkar lífsamstur bara hjóm?
Samkvæmt rökrænni náttúruvísindalegri hugsun er meiningin með lífi okkar sú ein að ala af okkur afkvæmi og viðhalda tegundinni/kynstofninum. Það eru nógu margir til að gera það í heiminum einsog hann litur út um þessar mundir. Er eitthvað annað þá – eitthvað sem getur réttlætt tilveru okkar?
– Eigum við að hætta að velta þessu fyrir okkur – of sárt að hugsa svona af því við eigum engin svör.
Hugsa ekki um endanlegt markmið lífsins heldur bara eitt, tvo eða fimm eða tíu ár fram í tímann. Borga skuldir. Fá sér íbúð… þægilegt að hafa eitthvað til að stefna að, lifa fyrir…
Það er auðvitað ekki hægt að rökræða sig fram að tilgangi lífsins. Er það þannig að við vitum ekki hvað er meiningin með tilveru okkar? Við verðum að halda áfram að lifa án (þekkts) tilgangs, allavega um sinn, en getum vonað að við fáum vitneskju um hann seinna. (Þó að eitthvert okkar kæmist að því hver tilgangur lífsins er þá er vísast að sú hin sama gæti ekki komið að því orðum, en það er aukaatriði og önnur saga.)
Þar sem það er ekki samboðið okkur sem manneskjum og siðferðisverum að hafa engan grunn fyrir lífi okkar, vonum við að sjálfsögðu að það renni upp fyrir okkur ljós einsog sagt er. Við ættum ekki að sitja auðum höndum heldur starfa á einhvern máta að því að við öðlumst tilgang í lífinu. Þar sem vitneskjan er hvergi aðgengileg, einog nú er ástatt, er eina ráðið að leggja alúð við sinn eigin þroska og annarra í þeim mæli sem það er mögulegt. Og vona að eitthvað komi útúr því.
Hamingjan er sannarlega nothæft hugtak, þó að það sé ónákvæmt. Eiginlega er að fjarri eðli þess að það sé til ein rétt skilgreining á því, nema að hún segji að hamingja sé eitthvað sem hver og einn verður að ákveða fyrir sig. Hamingjan er því allt að því jafn margvísleg og mannfólkið.
Allt sem við gerum fyrir sjálf okkur eða aðra eða samfélagið okkar ætti að miða við hamingju þeirra sem er viðfang gerðarinnar. Að því tilskildu auðvitað að hamingja eins feli ekki í sér óhamingju annars.