Viðtal við Lárus

Viðtal við Lárus

VIÐTAL, TEKIÐ FYRIR KVIKMYNDASAFNIÐ

Kvikmyndaleikstjórinn Lárus Ýmir Óskarsson vakti mikla athygli fyrir myndir sínar á níunda áratug síðustu aldar ekki síst þá fyrstu Andra dansen eða Annar dans sem hann gerði fljótlega eftir að hann lauk námi frá Dramatiska institutet í Stokkhólmi. Kvikmyndasafnið sýnir nú nokkrar myndir Lárusar og af því tilefni tók Gunnþóra Halldórsdóttir, starfsmaður KÍ, hús á Lárusi sem reyfaði ýmis kvikmyndamál auk þess að líta gagnrýnum augum á eigin verk.

Gunnþóra: Ef við byrjum bara á byrjuninni, ákvaðstu snemma að verða leikstjóri?

Lárus Ýmir: Ég ákvað þegar ég var 14 ára að gera eitthvað sem mér þætti skemmtilegt. Ég las í einhverri bók að að væri svo stór hluti lífsins sem færi í vinnuna, að ég hugsaði mér það væri ekkert vit í að gera það sem manni þætti gaman bara þegar maður væri í fríi heldur ætti maður að fá sér vinnu sem væri líka gaman að vera í. Svo varð ég fyrir svo miklum áhrifum í Kvikmyndaklúbbi Menntaskólans á sínum tíma sem var eini staðurinn sem sýndi listrænar bíómyndir á þeim tíma, og það voru þarna nokkrar myndir sem tóku mig svo hressilega að ég ákvað að þennan galdur yrði ég að læra sjálfur. Þetta vildi ég gera. En svo var það auðvitað nokkuð sviplegt að löngu seinna þegar ég var loksins búinn í námi þá var nánast hætt að gera svona myndir. Þá voru eftir tveir austantjaldsmenn Kieslowski og Tarkowsky sem ennþá voru að gera svona myndir því þeir störfuðu í kommúnistísku kerfi þar sem skipti ekki máli hverjir borguðu sig inn. Svo fengu þeir, af því þeir voru frægir og dáðir, að gera nokkrar myndir eftir að austurblokkin féll en þessi stöðuga framleiðsla sem var á þessum árum sextíu, sjötíu á listrænum myndum sem hluta af kvikmyndaframboði fyrir fullorðið fólk, hún eiginlega féll niður þegar sjónvarpið tók svona yfir og bíóið varð eiginlega félagslegur vettvangur fyrir unglinga þar sem sýndar voru bara ,,þrjúbíómyndir” fyrir svona 15 til 25 ára sem allar höfðu sömu hugmyndirnar. Þetta voru hasarmyndir Indiana Jones og svona sem maður sá í þrjúbíó í gamla daga nema þær voru dýrari og flottar gerðar og markaðurinn fyrir þær myndir sem ég fór í nám til að gera var alveg horfinn.

G: Já og hefur gengið erfiðlega að finna hann aftur.

L: Já , já , ennþá er verið að sýna, eins og hjá ykkur í Kvikmyndasafninu, mikinn part myndir sem voru gerðar á þessum árum vegna þess að það er ekki mikið gert af slíkum myndum. Jú það er nú alltaf ein og ein mynd t.d. er einhver Hong-Kong búi, Wong Kar-wai, sem er að gera góðar myndir og einstaka aðrir. En í rauninni er þetta því miður nánast fyrir bí. Nú eru þeir sem eru að gera áhugaverðustu hlutina að gera stuttmyndir og eitthvað mjög ódýrt því það er ekki viðskiptalegur vettvangur fyrir persónulegar myndir.

G: Þetta svokallaða Author cinema?

L: Já eða bara persónulegar myndir. Það hefur góðan og slæman hljóm þetta Author cinema. Sumum finnst Author cinema vera voða ólýðræðislegt því allir eigi að vera með í að ákveða allt en auðvitað er það þannig með kvikmyndalist eins og aðra list að ef þú ætlar að fá þessi persónulegu listaverk þá þýðir ekkert að setja einhvern hóp í að skrifa skáldsögu og ekki heldur í að semja bíómynd. Þó að menn leggi mjög mikilvægt framlag til myndarinnar þá verður að vera einn kokkur sem velur kryddið og velur hráefnið í réttinn, einhver einn sem ákveður hvað kemur með. Svo eru náttúrulega einhverjir frábærir kryddbændur sem hafa ræktað gott krydd og leggja það í tökuna eða leikinn og eiga mikinn heiður skilinn fyrir það. Og einhverjir kjúklingabændur sem hafa alið ákaflega fína kjúklinga sem eru uppistaðan í réttinum og svo framvegis. Þannig að þeir eru náttúrulega algerlega ómissandi allir starfsmennirnir við kvikmyndirnar og myndirnar væru ekki eins góðar ef þeir væru ekki þar því þeir eru oft snjallir og hugmyndaríkir. En það þarf einhvern einn sem stjórnar verkinu. Og það sem kom mér á óvart þegar ég rannsakaði það, því ég fór alveg sérstaklega til Ameríku og fékk til þess styrk til að rannsaka hlutverk leikstjórans í Ameríku, fór og fylgdist með upptökum og svona, var að leikstjórinn t.d. miðað við Skandinavíu hefur miklu miklu hærri status í Bandaríkjunum. Ástæðan er einföld. Þeir vita svo mikið um kvikmyndagerð kanarnir og vita svo mikið um það hvernig þessi verk vinnast þ.e. hvað þarf til að búa til góða kvikmynd og vita að þeir þurfa einhvern sem þeir geta treyst. Þeir eru að treysta leikstjóranum fyrir gríðarlegum peningum. Og þess vegna velja þeir leikstjóra sem eru ekkert valdir eins og oft í Skandinavíu þar sem þeir eru oft valdir af því þetta er eitthvert menningarfólk eða leikarar sem hafa leikið svo vel og verið í svo mörgum myndum.

Í USA velja fólk af því þeir eru að veðja kannski 20 milljónum dollara eða þaðan af meira á að einhver geti klárað að búa til myndina og skilað henni þannig að á henni græðist peningar. Þess vegna fær viðkomandi mjög mikil völd á meðan. Þeir eru að velja einhvern sem býr til myndina og á að stjórna því öllu saman. Þeir veðja peningum sínum á þessa manneskju. Og jafnvel pródúsjónsbatterýið, pródúsentinn og allt það lið –  þá er ég ekki að meina þann sem fjármagnar myndina heldur pródúsentinn sem rekur pródúsjónina – hann er alveg rosalega loyal við leikstjórann, ef hann kann sína vinnu,  og hann gerir allt til þess að leikstjórinn geti fengið að gera þá mynd sem han vill gera og um var samið.

Það sem kvikmyndasjóðir fjármagna kvikmyndir og framleiðandinn fær sína peninga fyrir að gera myndina, en ekki af því að hún er góð eða vinsæl, þar nýtur leikstjórinn eðlilega ekki sömu virðingar í starfi sínu og helmingurinn af tökuhópnum er á leiðinni að verða leikstjórar líka og þykist vita hlutina alveg eins vel og leikstjórinn.  Nei, ég er að ýkja, en stundum er þetta svona.

Ég held það sé þannig að þó leikstjórar geti verið ákaflega lýðræðislegir í allri sinni framgöngu og tekið mikið tillit til allra sem þeir eru að vinna með og og náð mjög góðm árangri. Ég held jafnvel að eigin hugmyndir leikstjórans þurfi ekki að vera nema lítill hluti af því sem kemur inn í myndina – nauðsynlegt er bara að hann hefur valið allar hugmyndirnar og það er það sem er grundvallaratriði. Það sé einn aðili sem tekur endanlegar listrænar ákvarðanir.

G: En ef þú segir frá þér og þínu námi, hvers konar skóli var þetta sem þú fórst í?

L: Þetta var ríkisskóli, Dramatiska institudet í Svíþjóð. Á hverju ári voru teknir inn þrír leikstjórar, þrír tökumenn og þrír hljóðmenn.

G: Og bjugguð þið við góðan tækjakost?

L: Já þetta var næstdýrasta námið í Svíþjóð á eftir námi þotuflugmanna, því flugtíminn á herþotunum er svo dýr. En já, já við vorum með heilt sjónvarpsstúdíó, alveg prófessjónell sjónvarpsstúdíó.  Líka annað kvikmyndastúdíó með öllum græjum.  Þetta var áður en þessar léttu litlu öflugu vídeókamerur komu, til þess að taka svona á location, svo við vorum með 16 mm Arriflex vélar til þess að taka skólamyndirnar. Þetta voru tvö ár og tekið inn í þetta þannig að ég var t.d. þegar ég fór inn, yngstur 28 ára. Þeir tóku inn fólk sem hafði áður starfað kreatíft eða sem hafði starfað við eitthvað sem gaf til kynna að það hefði frá einhverju að segja eða hefði komist að einhverri niðurstöðu um sjálft sig og lífið. Það voru ekki teknir inn nýútskrifaðir menntaskólakrakkar.

G: Sem er nú kannski algengara?

L: Ja, þetta eru mismunandi týpur af skólum. Það munaði minnstu að ég færi í tékkneska skólann. Ég var eiginlega kominn með skólavist í tékkneska skólann mörgum árum áður það strandaði á því að ég var þá nýgiftur og þeir vissu ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar ég vildi koma með kvenmann með mér. Það var bara ekki til, ekki inni í myndinni. En þá var það sex ára nám og fyrstu árin gjarnan fóru í listasögu, heimspeki, teoríu og alls konar sögu t.d. kvikmyndasögu á meðan að það var reiknað með því að þeir sem færu inn í skólann sem ég fór í, að þeir væru komnir með sína almennu menntun. Ég var t.d. búinn fyrir utan kvikmyndafræði og smá leikhúsfræði að lesa heimspeki og sálfræði við Háskólann í Stokkhólmi þegar ég fór inn í þetta nám. Það var nánast ekkert bóklegt nám. Við bara gerðum myndir allan tímann (3 ár), skrifuðum handrit og gerðum myndir.

G: Þannig að nemendur hafa fengið gífurlega reynslu?

L: Já maður fékk að gera mistökin sín öll sem er auðvitað nauðsynlegt.

G: Er ekki einhver mynd frá þessum tíma sem við þyrftum að sýna í Bæjarbíói?

L: Ja, það er ein, lokamyndin mín. Hún vann til verðlauna hér og þar.  Hún vann gullverðlaun í Oberhausen. Fugl í búri heitir hún. Gott ef hún er ekki til hjá ykkur í Kvikmyndasafninu. Hún var til, það var til 16 mm kópía sem var sýnd hérna í Sjónvarpinu. Það er eins og mig minni að ég hafi komið henni til ykkar á safnið.

G: Mér fannst svolítið leiðinlegt að geta ekki fengið til sýninga sænsku sjónvarpsseríurnar sem þú gerðir. Það er flóknara mál en ég ræð við á þessu stigi. Það var sagt bara nei að þetta væri það flókið, höfundarréttur o.fl. og þeir gætu ekki lánað þetta. En allavega það væri gaman að bæta við sýningarnar hjá okkur þessari mynd Fugl í búri og kannski Kona ein ef það er hægt.

En segðu mér já þú ert í þessum sænska skóla og færð mikla reynslu. Ferðu svo að vinna þarna úti?

L: Ja, þetta atvikaðist þannig að eftir skóla þá var ég bara atvinnulaus. Margir kallaðir og fáir útvaldir og allt það. Ég fór að vinna í leikhúsi. Konan mín var í námi og ég fór að vinna sem aðstoðarleikstjóri í Borgarleikhúsinu í Stokkhólmi. Mig langaði að kynna mér leikhús líka sem ég nýtti mér síðar þegar ég vann fyrir leikhús. Þannig að ég fór í það. Og svo sótti ég um með félögum mínum að gera heimildarmynd en það var ekkert að fá. Svo ég fékk símtal frá Íslandi og var beðinn um að gera sjónvarpsleikrit hérna á Íslandi og bara þáði það.

G: Hvað var það?

L: ..Það heitir Drottinn blessi heimilið eftir Guðlaug Arason. Um togarasjómann, þau eru að skilja hann og konan hans. Hann er úti á sjó og þá meiðist sonur þeirra illa og hann kemur í land og svona. Ágætis efni. En ég hefði, eins og Ingmar Bergman sagði um sig ungan,  tekið að mér að filma símaskrána biðist ekki betra. Síðan fór ég aftur út svona ári seinna. Ég fór út til að hjálpa konunni minni að pakka niður og svo átti að flytja heim. Svo ég fer þarna einhvern tíman um jólin ..

G: Hvaða ár er þetta?

L: …aaa æ ég er vondur í árum. Þetta er sennilega jólin ’81 frekar en ’80. Og þá hringir síminn, í íbúðinni okkar í Stokkhólmi, og þá er það maður sem hafði kennt mér tvo, þrjá daga og við höfðum tengst ágætlega. Leikstjóri sem heitir Jonas Cornell og hann sagði: við höfum verið fengnir til þess, við tveir, Pelle Berlund og ég, við höfum verið fengnir til að finna nýja talenta í sænskri kvikmyndagerð. Og þeir höfðu umboð frá Sænsku kvikmyndastofnuninni til að pródúsera tvær myndir. Finna tvö verkefni hjá fólki sem aldrei hafði gert bíómyndir áður. Annars vegar var það þannig að þeir fóru og kíktu á myndirnar okkar frá skólanum. Mín mynd var þá ein best lukkaða mynd sem hafði verið gerð lengi á skólanum. Fyrir utan að vinna þessi verðlaun sem hún vann þá var hún einhvers konar flaggskip skólans í nokkur ár. Alltaf nýjir og nýjir nemendur og þeim alltaf sýnd þessi mynd.

G: Gaman að því.

L: Og þeir sögðu þarna er leikstjóri og team sem við viljum kíkja á og svo fór af stað langur ferill þar sem við þurftum að finna handrit og vinna í því með þessum mönnum sem báðir voru skemmtilegir að vinna með. Þeir voru báðir leikstjórar og hugsuðu bara um listrænu hliðina. Ég fékk annan þeirra sem svona framleiðanda eða hann fékk mig í kjöltuna sem sinn skjólstæðing. Það var Jonas Cornell. Hinn, Pelle Berglund, fékk hinn unga verðandi leikstjórann sem heitir Kjell Sundwall og var í skólanum samtímis Þráni Bertelssyni og er ennþá að gera myndir á fullu þarna úti. Þeir tóku okkur, Jonas mig og Pelle Kjell, og síðan varð það úr að það voru vinsaðir úr einhverjir tíu aðrir en við urðum eftir og fengum að gera hvor sína myndina. Þetta var í raun og veru alger hundaheppni á allan hátt vegna þess sko að ef ég hefði ekki farið þarna út að hjálpa henni að flytja heim þá hefði hún bara sagt (í símann) nei því miður hann býr ekki lengur í Svíþjóð. Og þar með hefði málið verið búið.

G: Og þetta var Andra dansen eða hvað?

L: Já og þarna fæ ég að gera mynd, sem held ég mér sé óhætt að segja, að mjög fáir leikstjórar á mínum aldri eða yngri hafa fengið að gera þ.e.a.s. mynd sem er algerlega eftir mínu höfði, ég fékk algerlega að gera eins og mér sýndist.  Auðvitað var hann með (Jonas Cornell) en hann hafði bara listrænan áhuga, hann hafði engan peningalegan áhuga. Þetta átti bara að verða rosalega góð mynd. Við höfðum ekki mikla peninga. Við vorum með ungt team sem samt var með reynslu. Skriftan var sú skrifta sem alltaf vann með Ingmar Bergman osfrv. Þetta var svona lið sem var áhugasamt og til í allt. Og já þetta var sem sagt alger hundaheppni að fá að gera þessa mynd og einstakt tækifæri að fá að gera mynd algjörlega eins og maður sjálfur vildi. Við ákváðum til dæmis að gera hana í svart hvítu en það var ekkert hlaupið að því, því það var ekkert verið að framleiða 35 mm svart hvíta filmu af neinu viti til kvikmyndagerðar þá.

G: Nei ég man að þetta vakti mikla athygli þegar myndin kom út.

L: Já og t.d. var það þannig að sleðarnir og fleira sem var í Arriflex vélunum var hannað og stillt fyrir þá litfilmu sem þá var í gangi þannig að emulsjónin á filmunni skófst af og safnaðist skófir sem þýddi það að eftir hverja einustu töku varð að opna vélina og ryksuga hana og hreinsa kringum rammann. Vegna þess að ef það voru teknar tvær tökur í röð þá fór allt í flækju og filman festist og slitnaði. Þannig að þetta var svona rútína og alltaf sagt: Takk fyrir og ,,check the gate”. Það var alltaf skipunin eftir hverja töku, líka þegar átti að taka aðra töku af sömu senunni.  Og í einstöku senu sér maður að það kemur svona eins og spænir eða lítill gormur sem kemur niður í myndina. Þetta er reyndar ekki með í myndinni en þetta sá maður í tökum í klippiborðinu.

G: Og svo fékk þessi mynd mjög góða dóma og var vel tekið og verðlaunuð í bak og fyrir var það ekki?

L: Jú, jú og í rauninni strax eftir frumsýningarpartýið fékk ég boð um að gera næstu mynd. Þarna var forstjóri Kvikmyndastofnunarinnar sænsku sem sagði bara, þetta er þannig mynd og þetta eru þannig viðtökur að þú mátt bara gera það sem þú vilt núna.

G: Já aðra mynd?

L: Já. En þá var prívatlífið þannig að ég vildi fara til Íslands og sinna því að vera Íslendingur. Ég var með barn sem þurfti að alast hérna upp og verða Íslendingur og svona nokkuð. Svo það dróst og var svona í fjarvinnslu undirbúningurinn að næstu mynd sem kom svo þarna nokkrum árum seinna.

G: Þetta var þá Den frusna leoparden. En hvernig var með handrit að þessum myndum?

L: Við vorum svona vinahópur. Ég og tökumaðurinn sem höfðum verið saman allan skólann. Höfðum alltaf valið okkur saman. Við gátum valið okkur saman, og fyrir utan eitt heimildamyndatímabil þá höfðum við alltaf valið okkur saman. Með lokamyndina vorum við komnir af stað með pilotmynd fyrir bíómynd sem var alltof stórt verkefni. Það var komið nokkuð langt en við fórum aldrei í tökur á því og það endaði með því að við sáum að við gætum ekki gert þetta almennilega. Hugmyndin að var sumsé að gera upphaf og enda á bíómynd og fá svo að klára hana fyrir utan skólann þegar við værum búnir með námið. Þetta væri of dýrt og of umfangsmikið sem skólaverkefni.  En þá segir tökumaðurinn við mig: vinur minn er ljóðskáld og hefur mikinn áhuga á kvikmyndum og það getur vel verið að hann eigi eitthvað. Og hann kom sá strákur og var með hugmynd sem var mjög góð stuttmyndahugmynd. Því það eru mjög ólíkar hugmyndir sem þarf í stuttmyndir heldur en í bíómyndir. Ef þú ert að hugsa um mynd sem er korter að lengd þá hefurðu ekki tíma eins og í bíómynd bæði fyrir karakterþróun og plot. Þú verður eiginlega að velja, annað hvort ertu með karakterþróun eða plot. Og þessar tvær stuttmyndir sem við höfum nefnt annars vegar Búrfuglinn og hins vegar Kona ein. Í Búrfuglinum er bara plot, bara saga, eins og teiknimyndasaga það er ekki farið djúpt í sálfræðina. Þetta er bara eins og dæmisaga eða eins og Chaplin. Maður veit strax hver er sæta stelpan og hver er vondi kallinn. Maður þarf ekkert að vera að vinna í því neitt. Það eru ekkert mörg lög í karakterunum. Þeir eru bara fulltrúar fyrir einhverja svona einfalda hluti. Hins vegar er Kona ein þar sem er engin atburðarrás bara ástand. Ein kona um nótt heima hjá sér. Þar eru öll blæbrigðin í augunum og athöfnunum það sem skiptir máli. Engin framvinda eða nánast engin nema nóttin líður og það er kominn morgun. Það er eina framvindan í myndinni í rauninni. Þannig að hérna ég skrifaði lokaverkefnið upp úr þessari sögu ljóðskáldsins, handrit sem síðar hét svo eða varð svo Búrfuglinn. Og við urðum svo kunningjar og vinir þetta tríó þarna þannig að það bara var nærtækt að leita til hans.

G: Með Andra dansen?

L: Já og hann hefur síðan skrifað mjög mikið af því sem ég hef gert í Svíþjóð. Fyrir utan þetta þá skrifaði hann líka seríu með konunni sinni sem heitir Hästens öga. Já og við höfum alltaf haldið sambandi og unnið saman. Hann heitir Lars Bill Lundholm.

G: Já þarna gefst þér tækifæri á að gera aðra mynd og það líður svolítill tími frá því Andra ansen kemur út sem hlaut lof um allan heim, alþjóðleg verðlaun?

L: Jú, jú jú og þarna kvikmyndabókin þarna International Film Guide gerði hana, sem er nú varla verðskuldað, en setti hana sem sjöttu bestu mynd í heimi á eftir Fanny och Alexander og Nostalgia og svona eitthvað. En í rauninni þá, ég hef séð þetta koma fyrir aðra og þetta er í rauninni stórhættulegt þegar þetta gerist með fyrstu mynd leikstjóra. Ég sá þetta gerast nokkrum árum seinna úti í Svíþjóð. Það sem gerist er að maður fær hybris. Ég í mínu tilfelli vissi eftir þessa mynd að ég var rosalega góður filmari og það í sjálfu sér gildir alveg ennþá. Það var í sjálfu sér ekki misskilningur. Aftur á móti er það þannig að allir, jafnvel hinu bestu filmarar, jafnvel Ingmar Bergman og Fellini og hver sem er, þeir þurfa að vinna í samhengi við einhverja sem gera á þá kröfur eins og pródúsenta eða handritshöfunda sem eru jafnokar þeirra. Ok þeir eiga síðasta orðið en þurfa að takast á á kreatífan hátt við það sem þeir eru að gera. Þarna lenti ég í því sem ég hef séð aðra lenda í líka, ég var bara séní og fékk bara að gera það sem ég vildi. Og það er ótrúlega óhollt fyrir ungan leikstjóra að lenda í því. Að vísu er myndin sem ég gerði á eftir,  Frusna leoparden, hún er best filmaða mynd sem ég hef gert. Hún er ennþá betur filmuð en myndin á undan (Andra dansen). En ég man það að góður vinur minn Vésteinn Lúðvíksson rithöfundur, hann las yfir handritið, við vorum hérna á Íslandi. Hann las yfir handritið að Leopardinum sem var í mörgum versjónum eins og alltaf er, og hann sagði sko: þetta bara stenst ekki , sagði hann þetta handrit bara stenst ekki, þú mátt ekki gera þessa mynd. Ég var búin að tala um við hann Lars og var búinn að finna sjálfur,  að það var vitlaus aðalpersóna í handritinu. Þegar Lars sagði mér fyrst söguna sagði ég: já frábær saga. Síðan kemur handritið og þá er þessi saga þarna en þetta eru tveir bræður og sá sem augljóslega var aðalpersóna var orðinn aukapersóna. Og hinn sem fyrir mér hafði verið aukapersóna var orðinn aðalpersóna. Ástæðan var sú að eldri bróðirinn var bróðir Lars Lundholms þ.e. fyrirmyndin og yngri bróðirinn var sjálfur Lars Lundholm eða karakterarnir speglun af þessum tveimur bræðrum. Og Lars bara vildi vera aðalpersónan – ósköp mannlegt. Og ég, ég náttúrulega sá eftir þí í mörg ár að hafa gefið mig í þessu máli, en er hættur að hugsa um þetta núna, ég hugsaði: hann er handritshöfundurin ég verð að leyfa honum að ráða hver aðalpersónan er.  Sú persóna sem var dramatísk og var einhver áhætta í kringum og lifði og hafði öll einkenni aðalpersónu í því tilliti að það voru hans gjörðir sem að sköpuðu dramatíkina í myndina og það voru hans örlög sem voru í húfi. Það var eldri bróðirin. Og sá sem lék það hlutverk var Peter Stormare orðinn heimsfrægur fyrir löngu. Lék í Fargo til dæmis. Hann hefur leikið í hundrað amerískum myndum síðan þetta var.  Og svo var tiltölulega óreyndur leikari en mjög interesant maður sem lék yngri bróðurinn. En yngri bróðirinn er maður sem er í einhvers konar exístensíalísku tómi og er að spá í hvað hann eigi að gera og vera. Hann langar til Afríku, að keyra þar um á sléttunum í stóra ameríska bílnum sínum og eitthvað svona. Meðan að  eldri bróðirinn, Stormare, hefur lent í fangelsi fyrir einhverja smáglæpi og er núna kominn með fjölskyldu, lítil börn og konu. Er að reyna að koma sér upp lífi með bílaverkstæði og má ekki misstíga sig því þá fer hann aftur inn í fangelsi. Það er ákkúrat það sem er alvara málsins. Yngri bróðirinn kemur með bíl sem er stolinn og þar með eru vandamálin byrjuð. En of mikil athygli og orka beinist að yngri bróðurnum í myndinni og það er það sem hún líður fyrir því hún er mjög vel filmuð.  En ef ég hefði haft Jonas Cornell eða Sigurjón Sighvatasson eða einhvern álíka mann sem pródúsent að þeirri mynd, þá hefði ég fengið styrk á bak við mínar skoðnir. Nú fékk ég mann sem er í sjálfu sér reyndur maður, en  aðallega í að gera svona léttari varning en þessa mynd og hann að tók þetta að sér, mikið bara til að fá salt í grautinn. Pródúsentar lifðu á þessu og lifa ennþá í Skandinavíu, þeir taka prójekt og svo fá þeir sín laun og overheddið og þannig fá þeir borgað skilurðu?

Verkefnið var bara sett í kjöltuna á þessum manni sem er alveg ágætis maður en hann gat ekkert stýrt þessu.  Honum var reyndar vorkunn, því við vorum alveg samansúrraðir við þrír ég, tökumaðurinn og handritshöfundurinn. Við vorum svolítið The Kings of the Universe skilurðu? Ekki það að við værum eitthvað arrógant og leiðinlegir en við höfðum rosalegt sjálfsálit.  Þannig að við bara fengum ekki þetta aðhald, ekki nóga mótstöðu. Reyndar virkar myndin tvímælalaust á einhverju plani – þannig að… ja það var einn þekktur kvikmyndagagnrýnandi sem heitir Michael Timm sem að skrifaði mikið í kvikmyndatímarit einsog Chaplin, hann var svona alvöru gagnrýnandi –  ég hitti hann þarna einhverjum tíu árum seinna einhvers staðar og hann sagði: að þegar maður hugsar aftur til þess tíma þegar myndin var gerð þá er þetta ekki besta myndin sem var gerð á þessum árum en ég, sagði hann, er alveg viss um það fyrir mig og fyrir marga aðra sem sáu þessa mynd þá er engin mynd frá þessum tíma sem ég man jafnmargar senur og myndir úr. Það er engin önnur mynd, sem ég hef jafnmargar myndir fyrir mínum innri sjónum úr og þessari mynd.

Ég er þeirrar skoðunar og hún gildir í rauninni alltaf um alla leikstjóra bíómynda, þá er allt sem að miður fer er leikstjóranum að kenna og í þessu tilfelli er þetta með handritið fullkomlega og algerlega mér að kenna. Vegna þess að ég á ekki að sleppa neinu í gegn sem ég er ekki fullkomlega sáttur við og ef ég geri það þá get ég bara sjálfum mér um kennt. Aftur á móti er það ekki þannig á hinn veginn.  Á hinn veginn er það þannig að ef einhver leikur þá er það leikaranum að þakka því hann lék svo vel eða flottar tökur þessum tökumanni að þakka af því han lýsti svo vel. Mér finnst þetta vera algerlga réttlátt en auðvitað fær leikstjórinn líka smá klapp, hann fær það líka.

G: En þessi mynd, nú talarðu eins og þetta sé alveg skelfileg mynd að hún sé reyndar falleg… hvernig var henni tekið?

L: Nei, nei, hún er ekkert skelfileg og hún vann nú einhver verðlaun líka á Ítalíu. En það sem að vantar í hana er þetta sem bara verður að vera í bíómyndum þ.e.a.s. áhorfandinn verður að geta tengt þig sterkum böndum við aðalpersónuna. Hún verður að skipta þig máli. Og það eru þarna senur í myndinni, rosalega flottar senur – ein sem mér dettur í hug ofan í tómri sundlaug þar sem hann er með kærustunni sinni og þau eru að skilja. Rosalega flott. Laufin fjúka um og ótrúlega döpur og mikil stemning ríkir, en það er alveg sama hvað þú gerir magnaðar svoleiðis myndir ef að persónurnar sem eru í myndinni skipta áhorfandann ekki máli, ef hann hefur ekki áhuga á örlögum persónanna þá er myndin dauð og það var það sem gerðist of oft í þessari kvikmynd. Það var í sjálfu sér eitthvað myndrænt og áhugavert að gerast en af því þú varst ekki nógu innvolveruð í örlög yngri bróðursins vegna þess og hans vandamál voru trivial miðað við hinn bróðurinn þá vantar hleðsluna sem annars hefði hleðið myndirnar.  Vandamál þessa unga fólk voru lúxusvandamál. Þess vegnavanar orku í marga hluti sem er mikið lagt í, það fjarar undan þeim.

G: Já ég er mjög spennt að sjá myndina. Var hún sýnd hér?

L: Já hún var sýnd hér ég man ekki held á einhverri kvikmyndahátíð en hún var sýnd í Laugarásbíó.

G: Bara stutt

L: Já

G: Já og svo er þetta ævintýri búið og hvar ertu þá? Varstu þá kominn til Íslands?

L: Já þá var ég beðinn… ég tók þetta ansi nærri mér, mér fannst ég hafa gert of mikið af vitleysum í sambandi við Hlébarðann. Og mér fannst ég virkilega þurfa að hugsa mig um og komast að því hvað ég hefði gert og hvað ég vildi gera. Þá fékk ég boð um að gera þessa sjónvarpsseríu Hästens öga. Þá var ég ennþá þarna úti.

G: Hvað meinarðu hvað þú vildir gera? Hvort þú vildir halda áfram á þessari braut?

L: Nei, nei, hvað ég vildi gera í kvikmyndagerðinni. Þá fékk ég tilboð frá Sænska sjónvarpinu. Þau höfðu skrifað seríu saman Lars Bill Lundholm og konan hans sem heitir Gunilla Linn Person. Þau höfðu skrifað seríu sem að sjónvarpið vildi pródúsera og ég var beðinn,  sjónvarpið bað mig um að leikstýra þessari seríu. Mig langaði ekkert að fara að leikstýra einhverri sjónvarpsseríu, þannig að ég ákvað að setja fram skilyrði fyrir að gera þetta sem var engin hætta á að þau samþykktu. Kom fram með alhæstu launakröfur. Ég heimtaði að myndin yrði gerð í svart hvítu sem hafði ekki þekkst þá í tíu, fimmtán ár í sjónvarpi og heimtaði að fá personal assistant og ýmislegt svona. Var algerlega ófyrirleitinn og varð fullkomlega sjokkeraður þegar þau sögðu: Já allt í lagi. En svo var þetta bara voða gott. Þetta er náttúrulega bara besta aðferðin oft á tíðum að fara bara að gera eitthvað annað og þetta varð fínt stuff.

G: Ég sá að það var mikið skrifað um þetta.

L: Já ég held að engu sem ég hef gert hafi verið hrósað jafn mikið og þessari seríu Hästens öga.

G: Og þarna voru miklar stjörnur var það ekki sænskar stjörnur?

L: Nei, það voru krakkar sem voru í aðalhlutverkum, þetta voru unglingar og svo voru þekktir leikarar í kringum þau.  Já, já Dagens Nyheter kallaði þetta neorealistískt meistaraverk. Og hún vann flottustu sjónvarpsverðlaun í heimi ja fyrir utan kannski Emmy. Hún vann Bafta verðlaunin. Árið áður hafði Singing Detective unnið og hún var þarna að keppa við þekktar BBC seríur og einverja miniseríu með Jack Lemmon í aðalhlutverki.

G: Og fékkstu þarna líka að eyða miklum peningum.

L: Já já það var bara ágætur budget á því það var ekkert að því. Og það hefur verið það á öllum þessum sænsku verkefnum. Ef maður hefur litla peninga þá bara sníður maður pródúsjónina eftir því. Það þekkist nánast ekki þar að fólk fari að vinna eitthvað ókeypis. Ef maður hefur litla peninga þá bara minnkar maður umfangið á handritinu, en prúttar ekki á því að hafa skilyrði til að geta skilað topp vinnu.  Það er bara þannig sem það virkar. Í þessu tilfelli vantaði peninga til þess að gera þetta almennilega, með Hästens öga. Þegar við fórum að gera fjárhagsáætlunina og sáum við hvaða peningar voru til, þetta var fjögurra þátta sería en þá bara fór ég og skar seríuna niður í þrjá þætti og þá var þetta bara fínn budget á þrjá þætti. Og það var samþykkt.

G: Þannig að þér finnst að þú hafir alltaf mætt skilningi á því að til að halda uppi gæðum eins og þarna að fá leyfi til að skera niður í þrjá þætti.

L: Já, já og þá var hægt að gera þá almennilega. Og ég held að handritið hafi unnið á því, orðið þéttara.

G: ..já meira í hverjum þætti?

L: Já og allt bara hið besta mál.

G: En var þetta ekki bara gagnleg reynsla fyrir þig?

L: Jú jú þetta var allt saman gagnleg reynsla. Og það var margt í þessari mynd sem var skemmtilegt að gera. Maður fer svolítið að eða ég geri það að dæma þau prójekt sem ég vinn að út frá því einfaldlega hvað það er gaman að gera senurnar. Það eru sumar kvikmyndir sem eru þannig að 90 % af senunum er hundleiðinlegt að gera. Það er bara svona að labba og rabba senur, og það er ekkert andrúmsloft . Bara eitthvað svona sem verður að gerast, til að sagan haldi áfram, bara pípulagnir.

G: Efni sem þarf að ná í?

L: Já einmitt efni sem þarf að ná í. Einhver sagði held það hafi verið Kristín Jóhannesdóttir sem vitnaði í einhvern franskan speking sem sagði sko að margir leikstjórar litu á kvikmyndavélina sem ryksugur fyrir sögur. En það sem er skemmtilegast að gera er þegar maður þarf annaðhvort með leikurunum eða myndavélinni að búa eitthvað til. Eitthvað sem hvergi var til áður. Og það þarf ekki endilega að vera í einni mynd heldur líka í tengslum milli mynda. En það var auðvitað fullt af svona transport senum í Hästens öga, en það var líka fullt af hlutum sem voru póetískir, báru í sér ósagða hluti og áhugavert að eiga við fyrir mig.

G: Hvað líður tímanum þarna hvaða ár er komið?

L: Þarna er komið 1987 eitthvað svoleiðis. Á þessum tíma þarna á árunum á undan var ég líka búinn að vera að gera hér heima á milli þessara bíómynd þá var ég hér heima og gerði dáldið af sjónvarpsverkefnum.

G: Sjónarpsleikritum þá?

L: Já

G: Þetta er á þeim tíma meðan gert var eitthvað af þeim hér.

L: Já meðal annars Stalin er ekki hér gerði ég örugglega á þessum árum…ég er lélegur í svona krónólógíu.

G: Var það í tengslum við leikhúsuppfærslu á því?

L: Nei, þetta þótti bara verk sem þótti vert að filma. Það var búið að sýna það í Þjóðleikhúsinu, það var búið að sýna það á Akureyri. Það var búið að flytja það í Útvarpsleikhúsinu og þetta þótti bara sem það er mjög vel skrifað verk. Svo það var ákveðið að gera sjónvarpsútgáfu af því líka. Og ég var fenginn til þess.

G: Já og var það vellukkað?

L: Já, ég myndi segja það. Þetta er fínt verk og hörku kast. Það voru þarna Helgi Skúla og Magga Helga. Svo voru þarna af yngri kynslóðinni Gunna Gísla sem sýndi snilld sína og að mínu viti hefur hún sjaldan verið betri. Það eru þarna rosalega góðar senur á milli hennar og Helga Skúla. Og svo voru þau líka mjög fín Egill Ólafs og fleiri.

G: Og svo hefur þig verið farið að langa að gera bíómynd á Íslandi? Var erfitt að safna aurum í það?

L: Við höfðum verið í samkrulli við Ólafur Haukur Símonarson. Það var eitt af því sem gerðist á þessum árum að við vorum leikhússtjórar hjá Alþýðuleikhúsinu. Bjuggum til leikhús með öðru Alþýðuleikhúsfólki í Hafnarbíói. Og höfðum verið í alls konar pælingum. Svo gerði hann leikrit sem mér fannst vera fyrir bíó eða það var eitthvað sem að kveikti í mér við það. Og svo kom Sigurjón Sighvats inn í það og við gerðum mynd sem var byggð á Bílaverkstæði Badda sem var Ryð.

G: Eru þá einhver ár þarna sem þú ert eitthvað fyrir sjónvarpið og mikið fyrir leikhús.

L: Já, ég setti upp eitthvað í Þjóðleikhúsinu og ég setti upp eitthvað fyrir Leikfélag Akureyrar. Og svo setti ég upp það var nú sennilega ekki fyrr en eftir þetta í Leikfélagi Reykjavíkur niðri í Iðnó. Svo var alltaf eitthvað í sjónvarpinu.

G: Já og svo kemur að því að gerð er myndin Ryð eftir Bílaverkstæðinu. Gekk hún ekki ágætlega?

L: Þetta er mundi ég segja mjög vel unnið verk og það var mikið talað um, þegar hún kom, að í fyrsta skipti væri ,,fullorðins” leikur í bíómynd íslenskri. Loksins væri almennilegur leikur. Ásæðan til að fólk sagði þetta var kannski að þó að margar góðar myndir hafi verið gerðar þarna áður þá var stundum ,svona allavega svona hér og þar, í þeim einhvers konar byrjendabragur. Og ég held að hún hafi verið það.

Það sem er áhugavert fyrir mig varðandi Ryð og sem ræður miklu um afstöðu mína til kvikmyndagerðar yfirleitt fram á þennan dag er ákveðinn lærdómur sem ég lærði af að gera hana. Ef ég lærði það af því að gera Hlébarðann að ég má aldrei prútta á því sem mér finnst og að maður stendur alltaf uppi með verkið þegar því er lokið og þarf einhvern vegin sér að bera ábyrgð á því, allavega gagnvart sjálfum. Þá er það sem ég lærði af vinnunni með Ryð, sveigja ekki verkið í átt sem maður heldur að hennti öðrum. Nú er ég bara að tala um mig einskonar sjálfsritskoðun, en ekki þrýsting frá einum eða neinum öðrum.  Því ég verð að segja það að af  öllum þeim sem ég hef unnið með, þar meðtalinn Jonas Cornell (produsent Andra dansen) hefur verið albest að vinna með Sigurjóni Sighvats af öllum framleiðendum, sem ég hef komist í tæri við. Og nú er ég bara að tala um kreatíft, heldur líka er varðar verkaskiptingu og gagnkvæma virðingu. Mér fannst það algert afbragð að vinna með honum. Þetta er maður sem er þrælmenntaður á réttum sviðum, hann er bókmenntafræðingur  og er menningaráhugamaður og þótt hann sé og hafi alltaf verið bissnessmaður fram í fingurgóma og hafi mikla tilfinningu fyrir því. Það er mikils virði ef maður talað við jafnoka sinn þar sem framleiðandinn er og það er ekki hægt að segja um alla framleiðendur.   Andstætt við marga kollega mína tel að það sé algerlega nauðsynlegt hverjum góðum leikstjóra að hafa góðan pródusent sér við hlið ef þeim á að takast það sem þeir eru að gera. Og kvikmyndasagan, ef maður kíkir aðeins undir yfirborðið þá sér maður alltaf að það hefur alltaf í gegnum tíðina verið þannig. Að þetta mótvægi, þetta samtal sem þarna verður, þarf að vera.

G: Þarna ertu að tala um þann sem fjármagnar…

L: Já sá sem fjármagnar myndina og já ber fjárhagslega ábyrgð á henni og er jafn mikið í mun að myndin verði góð eins og leikstjóranum að því leiti til að hann ber alls konar ábyrgð á henni og þetta er hans mynd að þessu leyti líka. Hann gæti þessvegna átt hugmyndina að myndinni.

En það sem að gerðist með Ryð og getur verið lærdómur minn og getur kannski lærdómur annarra líka, er að ég hélt ekki nógu fast í það sem að ég kveiki á upphaflega – sjálfri ástæðunni fyrir að ég vildi gera myndina.  Ef ég á að segja frá í örfáum orðum hvað það var sem að ég kveikti á í þessu leikriti, þá fjallar leikritið um nokkrar vesalings manneskjur sem búa á hjara veraldar, einhvers staðar utan alfaraleiðar. Einhvern tíma hafði þjóðvegurinn legið þarna um hlaðið, nú liggur hann annars staðar.  Þarna búa þau í ótrúlegri tilfinningalegri ísöld. Pabbinn, Baddi, aðalpersónan,  hann er alki sem drekkur ekki bara af þeirri einu ástæðu að nær ekki í vín. Hann hefur séð til þess með því að einangra sig.  Hann er á engan hátt kominn yfir sinn alkohólisma. Hann bara er þarna, búinn að parkera sér þarna til þess að drepa sig ekki á  brennivíni. Nú börnin hans upplifðu einhvern tíman í fortíðinni einhvers konar erfiða hluti, sem hefur skaðað þau, en aldrei er minnst á – önnur ástæðan fyrir einangruninni. Mamma þeirra dó með vofveiflegum hætti. Það er einhvers konar miðja í verkinu hvernig hún dó og hvað gerðist og allt það.  Dóttirin er búin að draga sig inn í skel og er þunglyndissjúklingur. Strákurinn er hálfbrjálaður af illa beislaðri reiði, en fullur af sköpunarþörf – rosalega aggressívur og einrænn.

Svo kemur þessi maður úr fortíðinni þarna. Nú á staðnum er líka ungur maður, hálfgerður plebbi, bílaviðgerðarmaður sem er skotinn í stelpunni og er þarna bara afþví að hún er þarna, annars væri hann löngu farinn. Svo kemur þessi maður úr fortíðinni sem að var með þegar hún dó konan/mamman og þá fara hlutir að leysast úr læðingi og gerast. Og það sem ég kveikti eiginlega á í þessu verki var þessi mannskapur sitjandi þarna lengst úti í rassgati að reyna að gleyma því að það væri til sjálft. Í eymd sinni og sambandsleysi, horfandi á Eurosport af diski í sjónvarpinu. Horfandi á kappakstursbíla zzzz, zzzz, sitjandi þarna einhvers staðar úti í sveit og fyrir utan gnauðar norðanvindurinn. Það var þetta ástand og þessar fáránlegu andstæður. Í rauninni er þetta konsept tragedía og í rauninni er þetta algjör art-movie þetta konsept.

En af því við erum að gera bíómynd sem fólk á að kaupa sig inná í bíó, og þetta eru eiginlega örlög allra mynda sem gerðar eru nú til dags, sem á að pluma sig á markaði, vildum við fá svona tuttugu þúsund manns til að sjá hana svo þetta gengi upp. Þetta var ekkert dýr mynd en samt. Við höfðum einhverja peninga og meðframleiðanda í Þýskalandi og svona svo þetta var viðráðanlegt og ég held hún hafi ekki tapað peningum þegar upp er staðið þessi mynd, þó að það hafi ekki komið fólk í skörum að sjá hana. En það sem maður samt gerir og ég gerði er að ég fer að skrúfa þetta upp í einhvers konar sálfræði þriller til að tryggja fleiri áhorfendur og sem sálfræði þriller er efnið tiltölulega veikt.   Þarna hefur verið framið morð og þarna er sök og það er verið að uppljóstra einhverju sem hefur gerst og það er einhver sem vill ekki láta uppljóstra því osfrv.  En samt, þarna liggur ekki styrkur efnisins, alla vega ekki fyrir mig sem leikstjóra.  Margar myndir eru gerðar beinlínis til að fá sem flesta áhorfendur til að borga sig í bíó og þá eiga svona lúksusvandamál auðvitað ekki við.

G: Já hefðirðu átt að halda þig við artmúvílínuna?

L: Já og myndin er einhvers konar málamiðlun á milli þessara tveggja greina eða “sjangra”. Hún situr á báðum stólunum. Það eru stemningar listmyndar en líka tilraunir til að spenna myndina upp og hafa þetta spennó og hratt. Og í rauninni,  hún er ekki eins og úr tveimur ólíkum stílum og allt sprettur eðlilega hvað út úr öðru; þó hún þannig sé heilt verk þá er það samt sem áður þannig að áhorfendur eru svo skilyrtir, og við erum það öll alveg sama hvað við erum sófistikeraðir bíóáhorfendur. Þegar við setjumst í bíóstólinn og byrjum að horfa þá tjúnum við okkur inn á ákveðna tegund af mynd. “Já þetta er svona mynd” og svo horfum við á hana á þeim forsendum eða nú “þetta er svona mynd”. En þarna í Ryði er okkur svolítið kastað til. Ef þetta er sækólogikal þriller afhverju er þá tekinn svona mikill tími í þetta andrúmsloft þarna niður við sjó eða í baðherberginu? Eigum við ekki að halda áfram með söguna: hvað kemur næst? hvað kemur næst?

Og svo er sagan í þessari mynd náttúrulega alveg frámunalega dapurleg, sem að mér finnst fínt. En hún er frumsýnd á óheppilegu mómenti eins og t.d. fjöldaframleidda sýningin á Les Miserables í Svíþjóð. Þetta ar fjölþjóðlegur pakki sem þeir keyptu, líka sýndur hér, leikmynd og allt. Þetta er nákvæmlega hannað og er sama útgáfan og var sett upp á Broadway. Sett upp um allan heim og gengur alls staðar vel. Í Stokkhólmi gekk hún ekki vel. Og það var vegna þess, vilja þeir meina eftir á, það voru málaferli vegna skuldanna sem komu upp, já helsta vörn þeirra sem framleiddu sýninguna var að hún var frumsýnd á þessum degi. Það er á sama tíma og Ryð er frumsýnd á. Þetta er dagana sem að Persaflóasríðið skellur á og í fyrsta skipti eru allar sjónvarpsrásirnar að sýna beint, líka inni á íslenskum heimilum, CNN, BBC World News og maður sá fréttamennina á þakinu á Hilton hótelinu í Teheran. Og heimurinn bara að farast og sprengjur og allt, þú skilur.  Og á þessum sama tíma átti maður að fara og lyfta sér aðeins upp og fara í Regnbogann að sjá þessa mynd. Þessa dapurlegu mynd. Þetta gekk bara ekki upp frekar en í hinu tilfellinu, að fara og sjá Les Miserables. En ég held það hafi komið tíu, fimmtán þúsund áhorfendur. Það var nú býsna vel sloppið miðað við þessa tímasetningu.

G: Já þá er nú löngu orðið tímabært að sýna hana aftur. Mér fannst hún fín þessi mynd á sínum tíma.

L:  Já, já þó að ég hafi eftir á að hyggja átt að vera harðari á að hún væri eingöngu artmúví og fara þá bara meira út í þá nálgun það andrúmsloft, sem umhverfið gaf tilefni til með heimsins besta kvikmyndatökumann osfrv. Það hefði verið hægt að gera enn betur, ótrúlega flotta hluti. En ce la vie, einsog kellingin sagði.

G: En eins og þú byrjaðir á að segja þá á nú þetta artmúví átt undir högg að sækja og kannski skiljanlegt að reyna að poppa það aðeins upp.

L: Kannski, en í rauninni held ég þegar upp er staðið þá held ég að hún hefði gert sig betur, líka peningalega séð, bara sem listræn kvikmynd. Hún hefði fengið meiri dreifingu erlendis og þýski pródúsentinn sem hafði séð það sem ég hafði skutlað saman fyrstu útgáfu sem var alveg rosalega löng, af öllum senunum og hann fékk videóið og hann var rosalega ánægður. Svo fórum við hér að klippa ég og klippari. Klipptum og klipptum og klipptum og ætluðum að gera þetta svona effektíft. Fyrsta sem hann sagði þegar ég kom síðan til að halda áfram með myndina úti í Munchen var: “Í guðana bænum farðu aftur í löngu versjónina. Ég vil fá alla þesa náttúru, þessa nótt, þetta andrúmsloft og allt þetta”. Þannig að það var það sem að hann hafði kveikt á og við löguðum það aftur til baka þó að það færi ekki þangað sem það hefði verið ef ég hefði tekið myndina þannig.

G: Þú lýtur voða gagnrýnum augum það sem þú hefur gert?

L: Já það er bara skylda, bara skylda. – Og kannski árátta.

G: Þú hefðir getað sagt að þetta væri allt saman frábært bara.

L: Ég tek ekki þátt í því. Ég veit að það eru kollegar mínir sem sitja og lofa allt sem þeir hafa gert upp í hástert og .. Ætli þeir séu ekki að gera uppkast að minningargreinunum sínum.

G: En kannski er nauðsynlegt að læra af hverri mynd?

L: Já, já, og svo bara er þetta þannig að mér finnst, og ég er ekkert einn um það, að eitthvað versta sem ég geri er að horfa á myndirnar mínar, allavega svona fyrstu tíu árin eftir að ég lýk við þær. Ég sé aðallega mistökin og eitthvað sem ég hefði viljað gera öðruvísi. Þetta gátu hér áður verið hreinlega líkamlegar þjáningar.

G: Já, já það er hægt að skilja það.

L: Það er bara svoleiðis. Samt er fullt af hlutum sem ég er ánægður með, jafnvel hissa hvað þeir eru bullandi góðir – það byrjaði strax í minni fyrstu bíómynd Andra dansen og hefur svo gerst í öðrum myndum sem ég hef gert seinna. Maður hafði séð þessar frægu myndir, maður hafði séð Fellini, Antonioni. Maður hafði séð Kurosawa, Bergman og Alan Renoir og alla þessa kalla. Og maður hugsaði; hvernig fara þeir að því að ná þessum seyði? Og hvernig er þetta planað? Og þessi taka svona og þessi hreyfing á myndavélinni þangað og þetta hvernig leikarinn bíður og  lítur svo við: váááá gæsahúð og allt þetta. Og hvernig gerist þetta?  Það sem ég kemst að þegar ég er að gera Andra dansen er að jafnvel á þeim dögum sem ég þurfti að vinna hratt þá gerast stundum magnaðir hlutir    Við lentum í smá krísu út af veðri og svona, og þurfti ég að vinna rosaleg hratt og undir rosalegu álagi, við vorum komnir fram úr tökuplansáætluninni og það voru margir á bakinu á mér hvort þetta færi ekki að klárast og tíminn væri að verða búinn. En undir þessu álagi þegar ég vann bara á tilfinningunni og hafði haft lítinn tíma tiltölulega,  þá fann ég að þegar ég gerði hlutina á tilfinningu þá fékk ég fram þennan galdur. Og bara það var alveg ótrúlegt. Og það sáu það allir sem voru við myndatökuna, bara vááá hvílík móment skilurðu. Og bara gæsahúð, gæsahúð. Og ég fann að þetta var eitthvað sem ég gat gert bara á intuisjóninni, tilfinningunni af því að ég sá og heyrði þegar ég var að taka og breytti ritma eða sjónarhorni ekki ólíkt jazzista sem impróviserar eða málara sem lætur einn litinn kalla á annan. Og bara það að vita að maður átti þetta, þessa getu, þennan talent og skilja þarafleiðandi hinar myndirnar allar, hvernig þeir leikstjórar og það fólk hafði unnið, það var eitthvað það merkilegasta sem ég hef reynt. Ef maður ætlar virkilega að gera þennan stóra galdur þá þarf maður að hafa aðgang að einhverju sem er ekki bara skynsemi og rökhyggja og planering þó að hún sé mjög nauðsynleg og góð og eigi fullkomlega rétt á sér. Maður planar allt út í hörgul til þess að geta breytt út frá á því andartaki, sem það er nauðsynlegt. Þá hefur maður alltaf öryggisnet undir sér, ef maður hefur gott plan.

G: Já einhvern tíman las maður þetta haft eftir Hitchcock

L:  Maður planar allt út í hörgul og þá maður hvaða tími er til að gera hlutina og ef þú breytir frá planinu þá veistu alltaf að þú ert að vinna innan þess tíma sem þú ert búin að skapa þér. Ég sá þessa hluti í Andra dansen, ég sá þá fæðast fyrir augunum á mér og ég sá þá uppi á tjaldi þegar við kíktum á dagstökurnar. Ég sá að þetta var þarna þú veist og það var náttúrulega alveg ótrúlega frábært. Það var þess vegna þegar Vésteinn var að krítisera handritið að næstu mynd þá hugsaði ég með mér ég er bara svo góður að það bara verður gott. En þetta er hverfult, og sem leikstjori verður þú að hafa mjög sterka tengingu við það sem þú ert að gera til að úr verði barn í brók.

Að gera góða kvikmynd er algerlega undir því komið hvernig þú filmar. Þú getur haft heimsins besta handrit og gert mjög lélega mynd úr því. Það er dapurlegt með flesta kvikmyndasjóði að þeir velja myndir til framleiðslu nánast eingöngu eftir handritum, en það er svo mikið langur vegur frá því að gott handrit sé nóg.  En á hinn bóginn þá verður þú að hafa í handritinu einhvers konar taustan grunn. Þú verður að hafa persónur sem fólk hefur áhuga á. Það þarf ekki að vera mikið eða merkilegt sem er að gerast hjá þeim en þú þarft að hafa þessa tengingu við áhorfandann vegna þess að ef maður er að gera situasjónir, stemmningar, eða andrúmsloft eða einhverja svoleiðis hluti þá verður það einskis virði nema að þú sem áhorfandi sért að tengjast við manneskjurnar.

G: Og hvað svo? Ertu hættur að gera bíó eða er það alltaf möguleiki? Það er ekkert leyndarmál að þetta er mikill barningur í þessum bransa.

L: Það eru engar einstrengislegar yfirlýsingar hérna megin um að ég filmi aldrei meira. Fyrir mér er þetta mjög ódramatískt. Meðan ég kemst ekki í að gera neitt sem ég hef áhuga á og ég tengi sterklega við,  þá hef ég engan áhuga á að gera bíó. En ég hef gaman að handverkinu og stundum hringja vinir mínir og biðja mig að hjálpa sér og þá geri ég það afar glaður – þetta er skemmtileg vinna. Sá fókus og einbeiting sem er í kringum kvikmyndagerðina og þetta hvernig allir eru að vinna að sama marki. Frábær samvinna og samvera þar sem alir eru á sömu leið.   

G: En ekkert eina leiðin til að tjá sig ef þér finnst þú hafa eitthvað að segja?

L: Alls ekki, einhvern tíma sagði vinkona mín sem er listmálari; ef ég gæti ekki málað þá myndi ég deyja. Fyrir mér er þetta fullkomið nonsens. Hvað ef ég yrði blindur? Eða hvað um einhvern hlaupara sem lendir í bílslysi og brýtur á sér hnéð og getur aldrei hlaupið aftur? Ég meina þetta er svo heimskulegt að tengja, ja, hvað eigum við að segja, lífsgildi sitt eða gildi sitt sem manneskja við einhverjar athafnir sem maður vinnur við. Maður reynir bara að láta gott af sér leiða, frekar en hitt.   En allt í kringum þetta – æ þetta er svo mikill sjówbissness. Ég á ekki heima í þeim bisnis.  Hin síðari ár hafa þær hugsanir gerst áleitnari að kannski hefði maður átt að gera eitthvað annað. Ég leit alltaf á það sem hámark þess hallærislega og sálardauða að verða tannlæknir. Að vera að gera eitthvað hundleiðinlegt alla daga til þess að geta gert eitthvað annað skemmtilegt á kvöldin og um helgar. En núna hef ég verið að hugsa meira og meira: af hverju varð ég ekki tannlæknir? Ég hefði getað verið t.d. dálítið billegur tannlænir og getað gert vel við tennur viðskiptavinanna og gert þá glaða og ánægða. Þeir hefðu getað komið út frá mér með heilar tennur án þess að þeir hefðu verið rúinieraðir. Og kannski hefði ég bara getað gert eitthvað miklu betra við líf mitt þannig. Maður veltir þessu stundum fyrir sér. Og áður fyrr hugsaði ég svona þegar mér fanns ganga illa og ég var þungur, en núna finnst mér í alvöru að maður eigi að reyna að gera eitthvað sem verður öðrum til góðs, og maður getur virkilega spurt sjálfan sig hvort mikið af þeim kvikmyndum sem eru gerðar, séu fólki til góðs.  Bara vangavelta 🙂

About The Author

Director film, tv, theatre active in Sweden and Iceland Consultant, facilitator

Safn

Share This